151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:19]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum nú fjárlagafrumvarp í 2. umr. og breytingartillögur sem komu frá meiri hlutanum, og þar með auðvitað ríkisstjórninni, og eru þær umtalsverðar og verulegar, það liggur fyrir. Í þeim tillögum er kannski ekki margt sem kemur í sjálfu sér á óvart þar sem flestar þeirra hafa legið fyrir eða verið teknar ákvarðanir um fyrir fram þannig að það er svona fullnusta á því sem sagt hefur verið.

En það sem mig langar aðeins til að ræða eru nokkur atriði sem varða forgangsröðun í fjárlögunum. Í morgun birtist frétt um ástandið í veitingageiranum hér á landi, um að þar hafi kortavelta dregist saman um 22 milljarða að raunvirði frá mars til október á milli ára, þ.e. dregið saman á þessu ári, þar af um 19 milljarða vegna erlendra ferðamanna. Þarna hefur orðið gríðarlegt áfall sem snertir mjög marga. Við í Viðreisn höfum lagt fram tillögur sem varða veitingageirann og gerum m.a. breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið núna sem felur í sér að virðisaukaskattur sem þeirri starfsemi er gert að innheimta verði lækkaður tímabundið og förum þar að fordæmi fjölda þjóða, m.a. í Evrópu, með Þýskaland í broddi fylkingar. Þykir hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar (Forseti hringir.) ástæða til að skoða þá tillögu Viðreisnar í ljósi ástandsins í greininni?