151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni fyrir innleggið og spurningu sem snýr að þeirri tillögu hvort við eigum að mæta veitingageiranum með því að falla tímabundið frá innheimtu virðisaukaskatts. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði í upphafi, margt af því sem við erum að staðfesta í fjárlögum snýr að aðgerðum sem hafa verið til umfjöllunar í sérstökum frumvörpum og hv. þingmaður þekkir það vel af vinnu sinni í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Þetta eru auðvitað hrikalegar tölur, þegar við horfum á þessar veltutölur. Við þekkjum þetta, við höfum fengið umsagnaraðila úr veitingageiranum á fund hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Ég er þeirrar skoðunar og mér finnst það birtast í þessum fjárlögum að við erum að skvetta á eldinn úr öllum fötum, úr öllu því sem er nálægt okkur. Það er líka spurning um hugarfar hvort það hjálpar að falla tímabundið frá virðisaukaskatti. Það hjálpar auðvitað ekkert þegar veltan er engin. Við höfum verið að reyna að teikna þessi úrræði þannig að viðspyrnustyrkirnir nái til þeirra, og tekjufallsstyrkir. Ég er hrifnari af beinum stuðningi. Ferðaþjónustan öll, nú er þetta mjög tengt ferðaþjónustu, er í miklum sárum. Það er mikilvægt að við veitum þessum fyrirtækjum súrefni því að það hillir undir að við getum spyrnt okkur frá botninum. Ég þarf að íhuga þessa tillögu mjög gaumgæfilega. Ég hef ekki séð hana enn sem komið er enda voru skjölin bara að birtast en ég mun gera það síðar í dag.