151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:23]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Tillagan gengur reyndar ekki út á það að fella virðisaukaskattinn niður heldur lækka hann úr 11% í 6% og það er auðvitað þáttur í viðspyrnu þegar veltan fer vonandi að aukast og skiptir miklu máli.

Ég vildi kannski aðeins setja þetta í samhengi við aðrar tillögur sem settar eru fram í fjárlagafrumvarpinu og staldra t.d. við ákvörðun meiri hlutans um að hækka sóknargjöld. Ég staldra við tillögur um að setja 80 milljónir í minkarækt og ég staldra við tillögur um milljarð til bænda. Hér er ég ekki að gera lítið úr þeim vanda en ég hlýt að spyrja hver stærðarhlutföllin eru og hvert mat meiri hlutans er á þeim vandamálum sem við er að etja og hvort ekki eigi að leita annarra leiða og almennari varðandi vanda bændanna, (Forseti hringir.) sem vissulega er mikill, en ekki fara þessa leið. Þetta sýnist manni vera algerlega opinn tékki (Forseti hringir.) og engin útfærsla á því eða skilyrði sett fyrir þeim stuðningi.