151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir ræðuna. Auðvitað er það eins og alltaf, sérstaklega þegar kemur að félagslega tengdum atriðum í ræðum hv. þingmanns, að ég get tekið undir mjög margt. Hv. þm. fór mikinn þegar kom að nýsköpun og umhverfismálum. Ég ætla að staldra við það að hv. þingmaður sagði að þetta væru bara óhagganlegar tölur. En það er engu að síður mikilvægt að setja þær í samhengi og hv. þingmaður setti þær í sitt samhengi. Ég kem hingað upp til að taka undir það með hv. þingmanni að það verður að setja tölur í samhengi.

Þá ætla ég að koma með þetta samhengi. Við skulum byrja á nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum. Á fjárlögum 2017 voru þetta tæpir 15 milljarðar. Á kjörtímabilinu hefur stöðugt verið aukið í nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar. Nú er það þannig að varanlegt framlag er tæpir 26 milljarðar, það er 74% aukning. Ef það er ekki mikil aukning í samhengi útgjaldaþróunar á málefnasviðum þá veit ég ekki hvað. Þetta er samhengið sem ég ætlaði að setja fram á því kjörtímabili sem núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur starfað.

Umhverfismálin — árið 2017 voru það 16 milljarðar, 2021 rúmir 24 milljarðar, 48% raunaukning. Um er að ræða 48% raunaukningu í umhverfismál. Ég myndi kalla það græna byltingu, hæstv. forseti.