151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að taka undir orð hans og lýsa því að ég er ánægð með það, og ég held að við séum öll sammála um það, sem hv. þingmaður kom inn á í andsvari sínu við hv. þm. Willum Þór Þórsson, að við viljum standa vörð um samfélagið okkar og ná góðri viðspyrnu til að komast sem hraðast út úr þessari kreppu. Mér finnst mikils virði að við séum sammála um það þótt okkur kunni að greina eitthvað á um nákvæmlega leiðirnar og hvar eigi að setja þungann. Ég held að það skipti samt miklu máli að við séum á þeim stað að vera alla vega sammála um mikilvægi þess.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að oft vilji það verða þannig að tillögur frá minni hlutanum hljóti ekki brautargengi í atkvæðagreiðslu. Hv. þingmaður kom jafnframt inn á að það væru ýmsar ansi góðar breytingartillögur frá meiri hlutanum sem ég skildi sem svo að hv. þingmaður styddi. Er það ekki svo að auðvitað er fullt af tillögum sem skrifast inn í nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar sem eru engu að síður tillögur sem öll nefndin er hugsanlega sammála um og þá alla vega einhver stærri hluti hennar en einungis bara meiri hlutinn? Þetta er því aðeins flóknari mynd en svo að annars vegar séu það bara tillögur meiri hlutans og hins vegar einhverjar tillögur (Forseti hringir.) sem meiri hlutinn er ekki til í að samþykkja. (Forseti hringir.) Þessar sameiginlegu liggja að miklu leyti (Forseti hringir.) í nefndaráliti meiri hlutans.