151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[14:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðuna. Ég ætlaði ekki að koma hér upp og gera miklar athugasemdir við ræðu hans. Mér myndi ekki endast tíminn til þess, á þeim tíma sem við höfum í andsvar, að rekja það allt sem kom fram í þessari klukkustundarræðu. Ég vil þó nefna, í ljósi orða hv. þingmanns í lokin, að mér fannst hann fara algerlega út af sporinu með orðalagi um það form og fyrirkomulag sem er á opinberum fjármálum. Ég held að það form sem við höfum tekið upp með lögum um opinber fjármál hafi verið mjög til bóta, og þá er ég að tala um formið og skipulagið og þetta hringrásarferli stefnumörkunar. Það hefur fjármálaráð staðfest í umsögnum sínum.

Það er hárrétt að við getum gert margt betur, hvort sem er í stjórnun, skipulagi, rekstri eða hagræðingu eða bættu skipulagi, og þannig verður það alltaf. Það er stöðug vinna að gera betur á morgun en í dag. Þannig er það nú bara. Og þegar um er að ræða 1.000 milljarða umfang, með fjöldamörg málefnasvið og stofnanir og þjónustu við borgarana, þá er það bara verkefnið.

Ég ætlaði aðeins að koma í því samhengi inn á það sem hv. þingmaður vísaði til og er hluti af þessari umræðu um 20. gr., þ.e. allt það sem heitir þjóðhagsleg hagkvæmni, fórnarkostnaðargreining, hagræn áhrif af því að gera ekki eitthvað. Þess vegna höfum við þingið og stjórnmálin til að marka stefnuna. Hagfræðingarnir geta sagt okkur: Að öðru jöfnu kostar það þetta. (Forseti hringir.) En pólitíkin verður að taka stefnumótandi ákvarðanir. Ég ætlaði hins vegar að gefa þingmanninum færi á að spyrja mig um varasjóð.