151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég fór einnig yfir umfjöllun um fráflæðisvandann í fjárlagafrumvarpinu. Þetta er á tveimur stöðum. Annars vegar á biðtími eftir hjúkrunarrýmum að vera styttri en 90 dagar og hins vegar á að klára byggingu 60 hjúkrunarrýma í Árborg fyrir 1,5 milljarða. Jafnframt er eitthvað talað um að bæta framsetningu biðlista eftir hjúkrunarrýmum og svo á að auka heimahjúkrun með 250 milljóna tímabundinni millifærslu, sem átti að fara í rekstur á nýju heimili í Reykjavík en urðu tafir á þannig að verið er að nýta þá upphæð til að redda því sem átti að verða en verður ekki. Spurningin sem ég sit eftir með er: Leysir þetta vandann? Ég hef ekki hugmynd um það. Örugglega ekki og sérstaklega ekki af því að í breytingartillögum koma rúmlega 1,3 milljarðar sem eiga samkvæmt umsagnaraðilum næstum því að leysa fráflæðisvandann. Þetta er það sem ég er að tala um. Þetta vantar í fjárlög. Það er varla fjallað um þennan augljósa vanda, fráflæðisvandann, sem við höfum fjallað um í mörg ár í fjárlaganefnd, sem einhverja áskorun í fjárlagafrumvarpinu. Það er galið að slíka umfjöllun vanti um eitt af augljósustu vandamálunum sem heilbrigðiskerfið hefur verið að glíma við á sviði sjúkrahúsþjónustu. Þegar vinnubrögðin eru á þann hátt að það detta síðan inn, bara helgina fyrir þessa umræðu, 1.350 milljónir til að henda í leigu hingað og þangað svo hægt sé að setja upp fleiri hjúkrunarrými sem á að leysa fráflæðisvandann þegar allt kemur til alls — við vitum ekkert hvort það er rétt upphæð, hvort hún dugir, hvort hún er of há eða of lág, hvort hún leysi vandann. Líklega leysir hún hann eins og nú er sagt. (Forseti hringir.) Þetta er það sem ég er að reyna að útskýra að sé vandamálið í hnotskurn, það er bara verið að giska. Þess vegna er þetta allt svona, þess vegna segi ég það.