151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil líka þakka hæstv. forseta fyrir ríflegan ræðutíma. Það er merkilegt að það endist engum ræðutíminn þannig að eitthvað hljótum við nú að vera að gera í ríkisfjármálum. Ég ætla að taka eitt út úr ræðu hv. þingmanns þannig að þetta verði bara skýrt og afgerandi, en það er samanburður OECD-landanna á lífeyriskerfinu og að við kæmum ekki vel út í þeim samanburði þegar verðmætasköpunin er lögð til grundvallar. Ég spyr: Hvernig er þetta hlutfall reiknað sem hv. þingmaður vísaði í? Vegna þess að um leið hafa mjög margar breytur áhrif á hvernig slík hlutföll koma út. Ég spyr: Hvernig er hlutfallið fundið út?