151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[17:05]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Fjárlög ársins eru nú að taka á sig lokamynd. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur sýnt á öll sín spil og meiri hluti fjárlaganefndar lagt fram breytingartillögur í samræmi við sýn hennar en jafnframt lagt fram nokkrar tillögur til viðbótar. Ef horft er til allra umsagna, erinda og fjölda gesta sem nefndin fékk á sinn fund er óhætt að segja að eftirtekjan af þeim hluta af vinnu nefndarinnar sé harla rýr miðað við þann tíma sem nefndin varði í að lesa umsagnir og hlusta á alla þá sem töldu sig hafa mikilvægan boðskap fram að færa. Það vekur auðvitað upp spurningar um vinnulag nefndarinnar og alla þá vinnu sem margir leggja á sig við að ná eyrum hennar en hafa ekki erindi sem erfiði. Þessi hluti starfsins ætti með réttu að vera á könnu framkvæmdarvaldsins þegar fjárlög eru undirbúin en ekki lenda í svo ríkum mæli á borði fjárlaganefndar. Vissulega fer Alþingi með fjárveitingavaldið og hefur lokaorðið og getur breytt og bætt framlagt frumvarp. Sérstaklega er hlutverk stjórnarandstöðunnar mikilvægt í þessum efnum og eðlilegt að hún vilji hafa og geti haft áhrif á frumvarpið. Það þarf vissulega oft að gera. Að mínu mati er eðlilegt og nauðsynlegt að fjalla um stóru myndina, skiptingu kökunnar, bæði á gjalda- og tekjuhlið og um það verða eðlilega alltaf pólitísk átök.

Mín skoðun er sú, og ég held að óumdeilt sé að það sé ekki síst tilgangur laga um opinber fjármál, að þingið eigi að einbeita sér að stóru málunum, breiðu línunum, en síður að einstökum útgjaldaliðum sem eru smáir í sniðum og eiga eðli málsins samkvæmt að vera á ábyrgð framkvæmdarvaldsins. En það breytir ekki því að stjórnvöld hverju sinni þurfa að standa þinginu reikningsskap og rökstyðja alla ráðstöfun fjármuna innan þess ramma sem þingið setur.

Herra forseti. Það eru orð að sönnu að fjárlög hvers árs séu einhvers konar hátindur og birtingarmynd stefnu hverrar ríkisstjórnar. Þessi fjárlög, líkt og fyrri fjárlög ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, eru þar engin undantekning. Þá segja fjáraukalög og fjármálastefna auðvitað sína sögu. Það er óhjákvæmilegt að líta á þessi mál, efnahagsstjórnina alla, í samhengi frá því að ríkisstjórnin kom til valda. Sanngjarnt er að ræða árið 2020 og áform fyrir 2021 með aðskildum hætti, en þegar horft er til þess sem ríkisstjórnin hefur gert í efnahags- og fjármálum frá því að hún tók við fyrir rúmlega þremur árum og fram til síðustu áramóta er sú vegferð vörðuð af þrennum fjárlögum, þremur fjármálaáætlunum og einni fjármálastefnu sem þurfti að endurskoða ári 2019 vegna mikillar bjartsýni ríkisstjórnarinnar á framvindu efnahagsmála. Væntingarnar hjá ríkisstjórninni reyndust óraunhæfar. Á það var margsinnis bent en hún kaus að hafa þær aðvaranir að engu.

Ríkisstjórnin var býsna ánægð með sig þegar hún settist að völdum og hefur verið það fram undir þetta. En nú er heldur tekið að súrna andrúmsloftið á þeim bænum enda kosningar handan við hornið. Hin breiða samstöðustjórn sem brúa átti bil alls litrófs stjórnmálanna er mjög tekin að lýjast og óeining um mörg stór mál innan stjórnarliðsins orðin bersýnileg og er jafnvel orðin spurning hvort henni endist örendið út kjörtímabilið. Þegar allt virtist leika í lyndi á stjórnarheimilinu framan af virðist það hafa markast af því að ríkisfjármálum var gefinn laus taumurinn. Útgjöld og rekstrarkostnaður þaninn út á toppi eins mesta og lengsta hagvaxtartímabils í sögu þjóðarinnar. Já, það var kátt í höllinni. Sumum þótti nóg um og bentu ítrekað á að veislunni myndi ljúka og timburmennirnir yrðu hastarlegir ef glaumurinn stöðvaðist ekki. Við í Viðreisn vorum óþreytandi við að benda á að stefna ríkisstjórnarinnar og þensla ríkisfjármálanna byggði á sandi og óhóflegri bjartsýni og þvermóðsku við að lesa rétt úr þróun efnahagsmála. En eins og sagan kennir er erfitt að hætta glaumnum þá hæst hann stendur. Það hefur þessi ríkisstjórn sannað enn einu sinni.

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að rifja þetta upp og halda til haga. Það blasti við snemma árs 2019 að í óefni stefndi. Um það ber ríkisreikningur ársins 2019 glöggt vitni. Þegar veirufaraldrinum slotar og hið daglega líf fólks og fyrirtækja kemst í eðlilegt horf, sem vonandi verður fyrir lok næsta árs, þarf að kljást við langtímaafleiðingar hans og koma ríkisfjármálum og ríkisrekstrinum í eðlilegt jafnvægi að nýju. Það verður mjög krefjandi verkefni sem verður enn erfiðara en ella vegna þessara lausataka í ríkisfjármálunum. Hefði ríkisstjórnin haldið rétt á spilunum fyrri hluta kjörtímabilsins og léð varnaðarorðum eyra værum við betur í stakk búin til að mæta þeim vanda sem við glímum nú við og til lengri framtíðar en raun ber vitni.

Herra forseti. Þrátt fyrir það sem að framan er lýst stendur ríkissjóður að mörgu leyti vel í alþjóðlegum samanburði. Búið var að ná skuldahlutfalli verulega niður og gjaldeyrisvaraforðinn var mikill að vöxtum. Þess vegna er bæði rétt og skynsamlegt að ríkissjóður hafi gripið inn í atburðarásina sem hófst í febrúar á þessu ári af fullum þunga. Árið 2020 er auðvitað sérstakt og mun örugglega rata í sögubækur efnahagsmála Íslands og ekki ólíklegt að árið 2021 muni fylgja því þangað. Gripið hefur verið til margvíslegra ráðstafana, fimm fjáraukalagafrumvörp verið lögð fram og gerðar margvíslegar lagabreytingar til að draga úr efnahagslegu og félagslegu höggi sem fjölskyldur og fyrirtæki hafa orðið fyrir. Margt af því sem gert hefur verið hefur tekist vel en annað miður.

Við í Viðreisn sögðum strax í upphafi að við myndum styðja öll góð mál stjórnarinnar, veita aðhald og kappkosta að vinna í þinginu að úrbótum og lagfæringum. Við þetta höfum við staðið. Ríkisstjórnin valdi þá leið að halda stjórnarandstöðunni frá öllum undirbúningi og stefnumótun um viðbrögð. Þess í stað hefur hún lagt áherslu á að kynna áform á áferðarfallegum blaðamannafundum. Þessa leið hefur hún valið og þá væntanlega gleymt þeirri ríku áherslu sem lögð var á aukið samráð við Alþingi í stjórnarsáttmálanum. En það var auðvitað þá, þegar hann var skrifaður. Það þarf langa og ítarlega leit til að finna hvar tillögur stjórnarandstöðunnar hafa beinlínis ratað inn í málatilbúnað ríkisstjórnarinnar. Vissulega, og því skal ekki neitað, hafa frumvörp í stöku tilfellum stórbatnað í meðförum þingsins. Í þingnefndunum hafa verið gerðar margvíslegar góðar lagfæringar og þar hefur stjórnarandstaðan ekki látið sitt eftir liggja, en það hefði flýtt fyrir og verið til bóta að tryggja fullt pólitískt samráð á öllum stigum.

Herra forseti. Það er margt gott í þessu fjárlagafrumvarpi, margt sem við getum verið sammála um og er ávöxtur ákvarðana sem þegar hafa verið teknar af Alþingi eða verða teknar nú rétt fyrir jól. Nýmælin í frumvarpinu eru því takmörkuð í sjálfu sér þrátt fyrir að upphæðirnar séu vissulega háar sem bæta á við frumvarpið frá því það var lagt fram og breytingartillögur meiri hlutans feli í sér aukin útgjöld upp á um það bil 55 milljarða, sem er gríðarlega há tala. En því er ekki að neita að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er oft og tíðum sérkennileg. Fjármagn er veitt til hluta sem tæpast ættu að vera í forgangi á þessum tímum meðan annað er látið mæta afgangi. Auðvitað felst í þessu hin pólitíska sýn meiri hlutans. Hér má sem lítið dæmi taka að sóknargjöld eru hækkuð sérstaklega um 280 millj. kr. Sérstök fjárveiting er vegna fyrirhugaðs umhverfissamnings við framleiðendur í minkarækt að fjárhæð 80 millj. kr. Gert er ráð fyrir að heildarstuðningur við verkefnið geti numið allt að 160 millj. kr. Þá er lagt til að bæta kúabændum og sauðfjárbændum að hluta upp samdrátt í eftirspurn vegna verulegrar fækkunar ferðamanna, samtals er þetta tæpur milljarður, um 240 millj. kr. til kúabænda og tæpar 730 millj. kr. til sauðfjárbænda. Ekki verður séð að nein skilyrði séu sett fyrir þeim stuðningi líkt og sett eru þegar aðrir aðilar í rekstri eiga í hlut vegna samkynja vanda.

Hér er ekki verið að gera lítið úr vanda bænda og matvælaframleiðenda en hitt orkar mjög tvímælis að veita þeim stuðning með þessum sérstaka hætti til að mæta tekjufalli og markaðsbresti. Miklu eðlilegra er að beita sömu aðferðum og gilda um annan rekstur sem á við nákvæmlega sömu erfiðleika að stríða. Að auki verður að nefna að á sama tíma á að herða að innflutningi landbúnaðarafurða sem er til þess eins fallið að minnka vöruúrval og stuðla að verðhækkunum þegar óhjákvæmilega dregur úr samkeppni, við innflutningstakmarkanirnar. Nei, þetta er ekki rétt aðferðafræði en virðist vera mjög í anda ríkisstjórnarflokkanna.

Herra forseti. Viðreisn er ekki útgjaldaglaður flokkur. Við kjósum ekki að stunda yfirboð en við höfum áhyggjur af því sem tekur við að loknum faraldri. Sagt er að það sé erfitt að stjórna í kreppu en enn erfiðara að stjórna í góðæri. Ég held að það sannist nokkuð á þeirri ríkisstjórn sem nú situr að hún réð ekki við að stjórna í fordæmalausu góðæri sem náði alveg fram undir þetta ár. Það er harla merkilegt þegar maður lítur til baka og sér að ekki tókst að halda betra jafnvægi í ríkisfjármálunum en raun ber vitni ef litið er til ríkisreiknings 2019. Við þurfum að takast á við vandamálið núna en við þurfum líka að horfa til framtíðar. Eins og ég hef áður sagt höfum við í Viðreisn lagt áherslu á að stigin yrðu stór skref strax, að peningunum yrði komið þangað sem þeirra væri mest þörf í þessu ástandi og tryggja þyrfti sérstaklega að fólk sem hefur misst vinnuna hefði lífsviðurværi. Það þarf að reyna að gera eins mikið og hægt er til að þau fyrirtæki sem orðið hafa fyrir mestum skakkaföllum, einkum í ferðaþjónustu, séu í stakk búin til þess að hefja starfsemi þegar ferðamannastraumur hefst að nýju. En því miður er þó enn margt óljóst um það hvenær nákvæmlega það mun gerast. En með því að styðja við þessi fyrirtæki tryggjum við best öfluga viðspyrnu efnahagslífsins þegar áhrif faraldursins byrja að dvína.

Herra forseti. Það þarf ekki síður að huga að framtíðinni þótt maður sé vissulega upptekinn af nútímanum og vandamálum hans. Við þurfum að gera það sem er hægt að gera, m.a. með því að undirbyggja nýsköpun, hagvaxtardrifin fyrirtæki sem gætu sótt á erlenda markaði með hugvit sitt og þjónustu og vörur sem hægt væri að selja úr landi á góðu verði og gætu skapað hagsæld fyrir samfélagið í heild og þá starfsmenn sem hjá þeim fyrirtækjum starfa. Þess vegna má ekki gleyma því að undirbyggja framtíðina með því að efla með djörfum hætti nýsköpun, rannsóknir og vísindi og leggja fé í sjóði sem geta hjálpað fyrirtækjum til að komast á legg og skoða starfsumhverfi þeirra allt. En ein grundvallarforsenda slíkrar uppbyggingar eru stöðug ytri skilyrði sem best verða tryggð með styrkri hagstjórn sem verður auðvitað að styðjast við öflugan gjaldmiðil, eins og við í Viðreisn þreytumst ekki á að benda á.

Þegar við horfum til framtíðar verðum við að velta fyrir okkur hvernig við ætlum að takast á við það stóra verkefni að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum. Hvernig ætlum við að ná niður skuldum og á hve löngum tíma? Það getur verið dýrt að skulda og þrátt fyrir að vaxtastig sé mjög lágt um þessar mundir er mjög erfitt að segja fyrir um hvert það verður til lengri tíma. Það er nú einu sinni þannig að þeim mun meira sem maður skuldar, þeim mun meira þarf maður að borga í vexti. Og þeim mun meira sem borgað er í vexti, þeim mun minna verður til ráðstöfunar af ríkisfé til að setja í arðbærar framkvæmdir, arðbæra innviði, hugsa um framtíðina og gæta þess að hægt sé að veita alla þá þjónustu sem við erum sammála um að sé í verkahring hins opinbera. Það er afar brýnt að við hugum að því að skoða vandlega allan ríkisrekstur, hvar hægt er að gera betur, hvað hægt er að straumlínulaga, hvar hægt er að ná fram betri afköstum án þess að skerða þjónustu og án þess að ganga of langt í því að auka álag á starfsmenn. Þetta verðum við einfaldlega að gera. Við í Viðreisn erum sannfærð um að þarna sé eftir miklu að slægjast. Við höfum séð mjög skýr dæmi um það einmitt á þessum tímum hvernig hægt er að leita nýrra lausna til að takast á við margt sem þarf að sinna í daglegu amstri í fyrirtækjarekstri og annarri þjónustu, t.d. með því að nota þá tækni sem við erum allt í einu orðin vön að nota á hverjum einasta degi og sumir allan daginn o.fl. Allt þetta sýnir að hægt er að gera ýmislegt. Það er hægt að sinna góðri þjónustu, stunda stjórnsýslu, starfa á Alþingi og fleira er hægt að gera. Það er því margt hægt að gera með því að breyta hugarfari. Stundum þarf maður að fá smáhögg eða smáspark í rassinn til að átta sig á því að þetta er hægt.

Ég held að við eigum að vera óhrædd við að velta fyrir okkur hver verkefni ríkisins eru. Er allt sem ríkið og hið opinbera fæst við bráðnauðsynlegt? Ef það er bráðnauðsynlegt getum við spurt okkur: Er nauðsynlegt að ríkið eða opinberir aðilar sinni því eða er hægt að sinna þeim verkefnum með einkarekstri? Jafnvel er hægt að velta fyrir sér hvort hægt sé að sinna þeim með einkarekstri sem ríkið stendur að einhverju eða öllu leyti straum af, greiðir fyrir, eins og mýmörg dæmi eru um í samfélaginu í dag. Mætti gera meira af þessu. Auðvitað mun alltaf standa alls konar kjarnastarfsemi og annars konar starfsemi sem flestallir eru sammála um að eigi að leysa af hinu opinbera og ekki magnaðar deilur um það. En við eigum að vera órög við að skoða þessa hluti vel og breyta því sem hægt er að breyta okkur öllum til hagsbóta.

Herra forseti. Viðreisn leggur fram átta, sem eru samt í rauninni sjö, hnitmiðaðar breytingar við þessi fjárlög og mun ég nú víkja máli mínu að þeim. Í núverandi stöðu skiptir atvinnusköpun öllu máli. 20.000 manns voru atvinnulausir í lok októbermánaðar, 25.000 ef við teljum fólk með sem er á hlutabótum. Þegar fjöldi fólks missir vinnuna þýðir það að tekjur heimilanna dragast saman. Tekjumissirinn einn getur elt fólk í mörg ár með hægari eignamyndun og aukinni skuldasöfnun. Dragist atvinnuleysið á langinn ýtir það líka undir hættuna á langvinnum félagslegum vandamálum. Það er bein fylgni milli tekjumissis og heilsumissis, bæði andlegs og líkamlegs, hjá þeim sem missa vinnuna og fjölskyldum þeirra. Atvinnuleysið bítur þó ekki bara fólkið og fjölskyldurnar sem í því lenda, það hefur áhrif á hagkerfið allt. Minni neysla smitar út frá sér og hægir á hagvextinum sem við verðum að setja allan kraft í að örva núna. Það er það sem vinnan við fjárlögin verður að taka mið af. Þess vegna leggjum við í Viðreisn fram tillögu um tímabundna lækkun á tryggingagjaldi. Tillagan felur í sér að tryggingagjald fyrirtækja vegna starfsmanna sem ráðnir eru af atvinnuleysisskrá á komandi ári verði 50% af fullu tryggingagjaldi og gildi sú tilhögun í eitt ár. Það er mikil þörf á að liðka fyrir atvinnusköpun til að draga úr atvinnuleysi og neikvæðum áhrifum þess. Reiknað er með að breytingartillagan hafi áhrif á tekjur ríkissjóðs til lækkunar um 5 milljarða en gera má ráð fyrir að hún skili sér strax í hraðari viðspyrnu atvinnulífsins. Í stóra samhenginu, í samhengi allra þeirra útgjalda sem ríkisstjórnin hefur sett af stað og boðað, er þetta ódýr aðgerð sem er til þess fallin að hafa veruleg áhrif til batnaðar.

Herra forseti. Önnur breytingartillaga Viðreisnar snýr að sértækum og djúpum vanda menningar- og listgreina annars vegar og ferðaþjónustunnar hins vegar. Ráðstafanir gegn veirunni hafa lagst þungt á þessar greinar, kippt fótum undan tekjumódeli þeirra. Í tilviki lista og menningar vega þyngst sýningar hvers konar sem hafa ýmist verið bannaðar alfarið eða leyfðar með slíkum takmörkunum að þær standa ekki undir sér. Úrræðagott listafólk hefur mætt þessum breytingum og dregið úr tjóni sínu með því að bjóða t.d. upp á sýningar í gegnum streymi. En það fyllir ekki skarðið, langt frá því. Í tilviki ferðaþjónustunnar eru að sjálfsögðu strangar komutakmarkanir og lítill vilji fólks til að ferðast sem hefur fjarlægt eftirspurnina úr greininni. Síðan hangir þetta tvennt saman. Ferðafólk vill sækja menningarviðburði og íslenska listasenan laðar fólk að hvaðanæva úr heiminum. Sé vilji hér á Alþingi til að vernda verðmætasköpunina, störfin og landkynninguna sem þessar greinar standa að þarf sérstakar aðgerðir, skilvirkar og markvissar, ekki dreifða aðstoð sem rennur að stórum hluta beint inn á fasteignamarkað eða skilar sér í hærra verðlagi. Ferðagjöf ríkisstjórnarinnar var góð lausn og skynsamleg, en það má nýta enn betur þann ramma sem búinn var til um þá gjöf og nýta aðferðafræðina. Þess vegna leggjum við í Viðreisn til að sá leikur verði endurtekinn. Nú verði þjóðinni gefin sambærileg gjöf en í þetta skiptið verði hún 15.000 kr. og rýmkuð út svo hún nái einnig til listsýninga á sviði og í streymi. Hún verði líka stækkuð svo allir niður að 12 ára aldri fái notið hennar. Með þessu verður í senn mikil örvun í þessum greinum og fólki er gert auðveldara að ferðast og njóta listar og menningar af öllu tagi. Þannig er líklegt að innlend eftirspurn eftir þjónustu þessara aðila muni stóraukast og vega upp á móti því að fjöldi erlendra ferðamanna mun vaxa hægar en vonir stóðu til. Þá er augljóst að gjöfin mun koma mörgum vel, ekki síst þeim sem mega þola atvinnuleysi og verulega tekjuskerðingu. Þessi lausn hefur fleiri kosti, hún er skjótvirk og sértæk og hún kemur í veg fyrir að stjórnvöld þurfi að hlutast til um hvernig stuðningnum verði skipt milli þeirra sem njóta hans. Markaðslögmálunum er treyst til að útdeila verðmætunum. Nýting á ferðagjöf ríkisstjórnarinnar er um þessar mundir 40%, þ.e. um 40% þeirra sem fengu úthlutað 5.000 kr. ferðagjöfinni hafa nýtt hana og til stendur að framlengja hana núna. En ef við gerum ráð fyrir að talsvert fleiri myndu nýta sér ferða-, menningar- og listagjöfina sem Viðreisn leggur til og ef við gerum ráð fyrir, hvað eigum við að segja, 70% nýtingu, þá mun úrræðið fela í sér útgjöld fyrir ríkissjóð upp á 3,3 milljarða. Það er ekki mikið miðað við nytsemina og áhrifin sem hún mun hafa til að vernda og skapa fjölda starfa í viðkvæmum en afar mikilvægum atvinnugreinum.

Herra forseti. Kemur þá að þriðju tillögu Viðreisnar. Það eru nefnilega fleiri tækifæri til að styðja með afmörkuðum og nákvæmum hætti við greinar þar sem mest hætta er á töpuðum störfum. Ein þessara greina er veitingageirinn. Samkomutakmarkanir hafa lagst af meiri þunga á veitingastaði og vínveitingastaði en margan annan rekstur. Í nýrri greiningu frá Samtökum atvinnulífsins sem var birt í gær, að mig minnir, er fjallað um stöðu veitingageirans. Óhætt er að segja að þar er svört mynd dregin upp. Kortavelta í veitingageiranum hérlendis dróst saman um hvorki meira né minna en 22 milljarða að raunvirði frá mars til október á milli þessa árs og fyrra árs. Þar af var 19 milljarða samdráttur vegna erlendra ferðamanna. Kortavelta ferðamanna í veitingageiranum dróst saman um 82% á þessu tímabili en innlend kortavelta dróst saman um 9%. Störfum í veitingageiranum hefur fækkað um fjórðung á milli ára en í september fengu um 2.700 færri einstaklingar greidd laun í stéttinni samanborið við sama tímabil fyrra árs og í ofanálag hefur veitingageirinn þurft að glíma við mikinn ófyrirsjáanleika í rekstrinum, til að mynda vegna breytinga á fyrirkomulagi sóttvarnaaðgerða. En þetta er nú ekki alveg allt því að rekstur veitingastaða var þegar orðinn mjög erfiður á síðasta ári þegar ferðamönnum hafði tekið að fækka og laun haldið áfram að hækka og um 40% veitingastaða voru rekin með tapi á síðasta ári miðað við ársreikninga 2019. Í greiningunni frá Samtökum atvinnulífsins er svo sagt frá því að skuldahlutfall greinarinnar sé um 70–80% og því ekki mikið svigrúm til aukinnar skuldsetningar í yfirstandandi kreppu.

Herra forseti. Já, þetta er svört mynd og við henni þarf að bregðast. Við í Viðreisn höfum lagt fram nokkrar tillögur sem hafa það að markmiði að hjálpa þessari grein á fætur og leggjum hér til eina til viðbótar. Við leggjum til að um eins árs skeið, út árið 2021, næsta ár, muni fyrirtæki sem eru með gilt rekstrarleyfi samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald annars vegar og fyrirtæki með gilt starfsleyfi fyrir veitingastaði í flokki eitt, barir og krár, standa skil á 6% virðisaukaskatti í stað 11% af þeim hluta rekstrar sem telst til sölu á matvöru og öðrum vörum sem þar eru á boðstólum til manneldis. Þetta er varfærin leið. Hún hróflar ekki við virðisaukaskattskerfinu en felur í sér tímabundna lækkun á skatthlutfalli vel skilgreindrar starfsemi sem hefur orðið illa úti í faraldrinum og þarfnast sárlega leiða til að hjálpa til við að ná viðspyrnu. Þessi leið á sér fyrirmyndir utan Íslands og hefur reynst vel. Má þar einkum nefna Þýskaland en sambærilegar ráðstafanir hafa líka verið nýttar víða í Evrópu; í Austurríki, Belgíu, Bretlandi, Írlandi, Tékklandi og Noregi. Áætlað er að þessi tillaga leiði til lækkunar á tekjum ríkissjóðs af virðisaukaskatti um 5 milljarða hið allra mesta, en til að þeirri upphæð verði náð þarf neyslan, umsvifin, að ná sömu hæðum og árið 2019 og meira til. Líklegt er að tekjulækkun vegna hennar verði þess vegna mun minni. Þetta er því enn ein lausn sem Viðreisn leggur til, sem er ódýr í stóra samhenginu en til þess fallin að skila skjótum og góðum árangri í stuðningi við viðkvæmar greinar atvinnulífsins.

Herra forseti. Kemur þá að fjórðu tillögu Viðreisnar. Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki í viðspyrnunni vegna Covid. Launakostnaður vegur mjög þungt hjá sveitarfélögunum. Launabyrðin eða launakostnaðurinn þar er hlutfallslega tvöfalt þyngri en á ríkissjóð. Þar fer langmest í félagsþjónustu og skólamál, lögbundna þjónustu sem hefur vaxið stöðugt samhliða því að auknar kröfur eru gerðar til hennar. Þetta er ekki kostnaður sem sveitarfélögin hafa svigrúm til að skera niður. Þau mega það eiginlega ekki og geta það ekki vegna þeirra afleiðinga sem það myndi hafa.

Í efnahagsráðgjöf OECD vegna heimsfaraldursins eru aðildarríki vöruð við áhrifunum á sveitarfélögin, sérstaklega ef afkomuhalli verður svo mikill að hvorki verði ráðið við með hagræðingu né lántöku. OECD varar líka við því að staða sveitarfélaga verði verri í löndum þar sem tekjustofnar þeirra eru fyrst og fremst skatttengdir en í löndum þar sem stuðningur ríkisins er stór hluti tekna. Ísland fellur í fyrri flokkinn og við trónum í rauninni á toppnum meðal OECD-ríkja þegar kemur að hlutfalli skatttekna af heildartekjum sveitarfélaga. Við erum langt fyrir ofan hin Norðurlöndin.

Álag á félagsþjónustu hefur vaxið mikið vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og á eftir að vaxa enn meira, ekki síst vegna atvinnuleysisins. Á sama tíma fer launakostnaður sveitarfélaganna hækkandi. Það er þess vegna löngu tímabært að ríkissjóður stígi inn og styðji þau til að veita þessa nauðsynlegu þjónustu. Slaki í þjónustu við íbúana á þessum viðkvæmu tímum er til þess fallinn að vinna gegn örvunaraðgerðum ríkissjóðs og bæði lengja og dýpka kreppuna sem við erum nú að ganga í gegnum. Þess vegna leggur Viðreisn til að 2 milljörðum verði varið úr ríkissjóði í sérstakan stuðning við sveitarfélögin til að standa straum af auknum kostnaði vegna félagsþjónustu. Framlagið kemur til með að draga úr áhrifum niðurskurðar á þjónustu við íbúana þótt fjárhæðin nái ekki yfir alla kostnaðaraukninguna. Rétt er að úthlutanir af þessum peningum skiptist þannig að þau sveitarfélög sem hafa mestan útlagðan kostnað vegna þjónustu af þessu tagi njóti mests stuðnings. Það er eðlilegt og sanngjarnt.

Herra forseti. Þá kemur að fimmtu tillögu Viðreisnar. Margt hefur verið rætt um mikilvægi geðheilbrigðisþjónustu. Síðasta vetur fylktum við alþingismenn okkur saman og lögfestum frumvarp, sem Viðreisn flutti og átti frumkvæðið að, sem færir sálfræðimeðferð og aðra gagnreynda samtalsmeðferð heilbrigðisstarfsmanna undir Sjúkratryggingar Íslands. Þetta var sannarlega risastórt framfaraskref í þágu geðheilbrigðisþjónustu. Með þessu ákvað Alþingi að setja andlega heilsu fólks á sama stall og líkamlega heilsu. Þetta er úrræði sem er til þess fallið að hægja á nýgengi örorku vegna andlegra veikinda og fjölga þeim sem geta leitað nauðsynlegrar meðferðar. Það er alltaf mikilvægt og ekki síst núna þegar faraldurinn hefur haft mælanleg neikvæð áhrif á líðan þjóðarinnar. Það er staðreynd að margir þurfa að neita sér um nauðsynlega sálfræðiþjónustu. Lykilatriði er að greiða aðgengi fólks að fyrirbyggjandi úrræðum og auka möguleika til að takast strax á við sjúkdóma eins og þunglyndi og kvíða sem virðast vera að aukast, sérstaklega meðal ungs fólks, og núverandi efnahagsástand bætir ekki úr skák. Slíkt myndi án efa hafa jákvæð þjóðhagsleg áhrif til lengri tíma. Það þarf að koma til móts við þessa ósýnilegu sjúkdóma líkt og komið er til móts við þá sjúkdóma sem sýnilegir eru. Þannig má auka lífsgæði fólks. Enginn á að neita sér um þjónustu vegna kostnaðar eða skorts á aðgengi, en samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands telja um 33% landsmanna sig ekki hafa efni á geðheilbrigðisþjónustu. Þetta á sérstaklega við um ungt og tekjulágt fólk og kemur trúlega engum á óvart. En nú reynir á Alþingi að tryggja viðunandi fjármögnun fyrir úrræðið. 100 millj. kr. framlag úr sjóðum heilbrigðisráðuneytisins dugar ekki til. Það er mjög langur vegur frá því. Fjárþörfin er að a.m.k. 1,3 milljarðar og er þá tekið mið af þeim útreikningum og ágiskunum sem settar voru fram í frumvarpi Viðreisnar og byggðu á tölulegum staðreyndum. Á þeim grunni leggjum við fram breytingartillögu um fulla fjármögnun þessa úrræðis á fjárlögum. Sú fjárhæð er dropi í hafið í samanburði við kostnað þjóðarinnar af þeim verðmætum sem tapast vegna andlegra veikinda, en jafnvel þótt svo væri ekki þá verður heilsa fólks ekki metin til fjár.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur látið þau orð falla að óþarft sé að banka á opnar dyr ráðuneytisins í þessum efnum. Það eina sem þurfi er að Alþingi fjármagni málið. Kæru hv. þingmenn. Núna er tækifærið. Dyr ráðuneytisins eru opnar. Við þurfum að hjálpa til við að komast inn um þær dyr. Hér höfum við tækin og tólin. Okkur er ekkert að vanbúnaði.

Herra forseti. Í sjötta lagi kemur tillaga er varðar nýsköpun og rannsóknir. Þótt faraldurinn sé miðpunktur aðgerða og ákvarðana ríkisstjórnar í þessum fjárlögum verður hún engu að síður að líta til lengri tíma. Hún verður að beina sjónum að því hvað byggir undir langtímahagvöxt og lágmarka líkurnar á því að áföll hafi jafn þungbær áhrif á okkur og við þekkjum frá hruni, og löngu fyrir hrun, og við sjáum gerast aftur núna. Það verður að auka fjölbreytni í atvinnulífinu og ekki síst verður að efla alþjóðageirann og hugvitsdrifnar útflutningsgreinar sem stuðla að sjálfbærum og góðum hagvexti til langs tíma. Þetta er eitt brýnasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir. En þetta er auðvitað ekki í fyrsta skipti sem áföll verða í íslensku atvinnulífi og það hriktir í stoðum þótt vissulega sé veirufaraldurinn nú með því langstærsta og talsvert öðruvísi en önnur áföll. Það liggur í eðli máls.

En hvað höfum við sagt í hvert einasta skipti sem stóráföll hafa riðið yfir í hefðbundnum atvinnugreinum okkar? Og hverju höfum við lofað sjálfum okkur í hvert einasta sinn? Jú, að við ætlum að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Við ætlum að hafa fleiri stoðir, við ætlum ekki að verða svona háð einni atvinnugrein, en við gerum einhvern veginn alltaf sömu mistökin. Við gleymum okkur, við förum að treysta á einstakar atvinnugreinar sem verða of umfangsmiklar í samfélaginu. Þó að rétt sé að fagna því að ríkisstjórnin hafi aukið verulega fjármagn í nýsköpun og þróun þá þarf einfaldlega meira til. Allir ættu að vita að nýsköpunar- og þróunarstarfsemi er langhlaup. Það tekur langan tíma. Skammtímaráðstafanir duga því ekki. Menn leggja ekki út í ævintýri af því tagi að ætla að skapa eitthvað nýtt og leggja til þess starfskrafta sína og fé þegar menn sjá ekki langt fram í tímann. Hér verðum við einfaldlega að gera breytingu. Við verðum að segja sterkt og ákveðið: Við ætlum að hugsa til langs tíma. Við ætlum að stórauka fjármuni sem fara til nýsköpunar og þróunarverkefna og gera það til langs tíma. Allir sem leggja í nýsköpun verða að geta treyst því að stuðningur sé fyrir hendi og það til langs tíma, og svo ég endurtaki mig enn einu sinni með það, að þetta tekur allt sinn tíma.

Gögn sýna að árangurshlutfall í sjóði á borð við Tækniþróunarsjóð og Rannsóknasjóð er mjög lágt. Í sumarúthlutunum Tækniþróunarsjóðs var hlutfallið t.d. 8%. Og það sem verra er að hlutfallið er ekki svona lágt vegna gæða umsóknanna eða gæða þeirra verkefna sem sótt er um fyrir. Nei, það er svona lágt vegna þess að sjóðurinn hefur ekki nægt fé. Þær umsóknir sem eru í hæsta gæðaflokki eru hins vegar á bilinu 25–30%, umsóknir sem ættu tvímælalaust að njóta stuðnings. Svipaða sögu er að segja af Rannsóknasjóði. Þar var árangurshlutfallið reyndar um 19% en ætti með réttu að vera nær því að vera 30%. Og þar gildir sem sagt það sama, það eru þarna verkefni, góð verkefni, frábær verkefni sem munu skila okkur miklu í framtíðinni en þau komast ekki á legg vegna þess að peningana skortir. Þess vegna leggjum við í Viðreisn fram tillögu sem er hógvær miðað við þessa brýnu þörf. Hún er hógvær um að bæta við 2 milljörðum í þennan málaflokk, setja 1 milljarð til Tækniþróunarsjóðs, 750 millj. kr. til Rannsóknasjóðs og 250 millj. kr. til Innviðasjóðs.

Í framhjáhlaupi vil ég nefna annað mál sem þessu tengist og þarf að taka á þegar á næsta ári. Það er að framlengja tímabundna ráðstöfun eða aðgerðir sem fólu í sér tímabundna hækkun á endurgreiðslu rannsókna- og þróunarkostnaðar til fyrirtækja sem er afar mikilvægt. Og þar er ekki síður mikilvægt að sjá langt fram í tímann en í hinu því að þá eru fyrirtækin lögð af stað í kostnaðarsöm verkefni og þau vita varla frá ári til árs hvort þau fá þann stuðning sem stóð þeim til boða þegar þau fóru af stað. Þessu verður að breyta og Viðreisn mun flytja frumvarp í þá veru þegar í byrjun næsta árs.

Herra forseti. Í sjöunda og síðasta lagi kemur tillaga sem varðar orkuskipti og loftslagsmál. Lítil tillaga en mikilvæg. Ríkisstjórninni verður tíðrætt um áherslur sínar í loftslagsmálum. Markmiðin eru þó nokkuð einhæf og taka ekki nema í mjög takmörkuðum mæli til atvinnulífsins. Vel hefði farið á því að fjárlög ríkisstjórnarinnar bæru með sér skýrari stefnu í þessum efnum sem tæki til allra þátta samfélagsins. Við þurfum svo mikið á því að halda.

Viðreisn hefur alla tíð talað fyrir því að það þurfi að beita sömu hvötum og ýta í dag undir mengandi losun til að draga úr henni. Þeir sem menga eiga að standa undir kostnaði samfélagsins af menguninni en tekjur ríkissjóðs, t.d. af kolefnisgjöldum, eiga líka að vera nýttar til að stuðla að framförum í loftslagsmálum. Fjármagna þarf bindingu í jarðvegi og gróðri samhliða verndun og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni með stóraukinni endurheimt náttúruskóga og annarra raskaðra vistkerfa. Í þessum anda lagði Viðreisn fram á þingi fyrir skömmu tillögu um að hækka kolefnisgjaldið, hækka það um 5% í staðinn fyrir 2,5%, en sú tillaga var felld hér í þinginu fyrir nokkrum dögum. En nú bregður hins vegar svo við að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur lagt fram tillögu um nánast nákvæmlega sömu hækkun, það skeikar 0,1 prósentustigi. Ég fagna því auðvitað, en um leið er þetta ein birtingarmynd þess að það virðist skipta þingmenn meiri hlutans miklu máli að fella góðar tillögur frá minni hlutanum og fara frekar þá leið að taka þær upp og gera að sínum tillögum. En það er auðvitað önnur saga sem skiptir ekki máli í þessari umræðu.

Annar lykilþáttur er hvati til orkuskipta í samgöngum. Viðreisn leggur því til aukin framlög til að fjölga hraðhleðslustöðvum fyrir bíla og þeim verði komið fyrir um land allt. Við leggjum til af hógværð að aukafjárveiting verði 400 millj. kr. til þessa verkefnis. Breytingin er því til viðbótar fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar um markvissa uppbyggingu orkuskipta í samgöngum. Þetta verða fjárfestingarstyrkir til uppbyggingar hraðhleðslustöðva á lykilstöðum við þjóðvegina, eins og áður sagði, með sérstakri áherslu á næstu kynslóð hleðslustöðva, aflmeiri og hraðvirkari hleðslustöðva. Orkusjóði verði falið að sjá um úthlutun þessara styrkja og þannig getum við auðveldað fólki að velja græna kosti í samgöngumálum og taka mikilvægt skref inn í framtíðina. Við getum gert það mögulegt að þeir ferðamenn sem vonandi flykkjast til landsins á næstu misserum geti í auknum mæli ferðast um á rafmagnsbílum og þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að geta ekki hlaðið þegar þess þarf.

Herra forseti. Fjárlögin eru ekki léttvægt plagg, þau eru vegvísir og fyrirheit stjórnvalda um hvað bíður okkar á næsta ári og um leið þrep á vegferð okkar til lengri framtíðar. Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir eru ekki óskeikulir og handhafar réttarins til að ákveða einir hvað ber að gera eða gera ekki. Til þess er Alþingi hins vegar bært í heild sinni. Ég ber þá von í brjósti að meiri hlutinn, sem nú heldur um valdataumana, skilji þetta og taki þess vegna mark á þeim tillögum sem ég hef gert grein fyrir. Það væri sannarlega nýmæli og til eftirbreytni, en ég verð þó að viðurkenna að ég er ekkert sérlega bjartsýnn. En hver veit.