151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:01]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Forseti. Forseti sló mig alveg út af laginu áðan með því að slá í bjölluna og ég gat ekki botnað spurninguna til hv. þingmanns.

(Forseti (BHar): Forseti biðst afsökunar.)

En takk fyrir svarið. Ég vil aðeins reyna að skýra þessa mynd betur. Við höfum veitt viðnámsstyrki og viðspyrnustyrki út í atvinnulífið þar sem markaður hefur nánast horfið, það koma engir ferðamenn o.s.frv. Það sem þessi atvinnugrein stendur frammi fyrir er að við höfum mikil birgðavandamál. Birgðavandamálin mælast reyndar ekki öll í frystigeymslum, þau eru heima á búum. Þar eru gripir að stækka. Þeim er ekki slátrað þannig að við okkur blasir raunverulegt vandamál sem er eiginlega bara velferðarmál dýra. Þegar ég horfi á þennan texta sé ég alveg hvar hæstv. landbúnaðarráðherra beitir spjótum sínum. Hann vill koma í veg fyrir slíkt ástand. Íslenskur landbúnaður er í harðri samkeppni við erlenda framleiðendur og ég veit og hef um það upplýsingar að hingað getur líka komið kjötvara sem fæst fyrir nánast ekki neitt. Í stórum atriðum er það einfaldlega vegna þess að markaðurinn hefur horfið. Þannig erum við líka að beita viðspyrnustyrkjum til annarra fyrirtækja, verkefnin hafa horfið og vandinn blasir við. En ég lít fyrst og fremst svo á, hv. þingmaður, að verið sé að koma í veg fyrir algjört afkomuhrun og ekki síður að reyna að stuðla að því að við sitjum ekki uppi með hræðilegt ástand sem skapar vanda hvað varðar velferð dýra. Ég sé að það er það sem hæstv. landbúnaðarráðherra er m.a. að teikna upp með tillögum sínum.