151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:15]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Nú er lokið framsögum nefndarálita og við taka almennar umræður. Mig langar að blanda mér í þær hér við 2. umr. fjárlaga. Ég ætla kannski ekki að fara mjög ítarlega í það, ég vísa hér í upphafi til nefndarálits meiri hluta fjárlaganefndar og mjög greinargóðrar ræðu hv. formanns og framsögumanns nefndarálits, formanns fjárlaganefndar, fyrr í dag. Í þessu nefndaráliti erum við að reyna að varpa með allítarlegum hætti ljósi á stöðu mála og hvað hefur verið til umræðu við úrvinnslu þessa fjárlagafrumvarps við undirbúning fyrir 2. umr. þess. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í nefndarálitið þar sem við ræðum um efnahagsforsendur:

„Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands liggur til grundvallar frumvarpinu. Þar er gert ráð fyrir 7,6% samdrætti í vergri landsframleiðslu (VLF) á árinu en 3,9% hagvexti á næsta ári. Spáin byggist m.a. á því að ekki þurfi að grípa til harðra sóttvarnaaðgerða á næsta ári og að ferðamönnum fjölgi um helming milli ára, þ.e. að hingað til lands komi 900 þúsund ferðamenn á næsta ári.

Gert er ráð fyrir að verðbólgan verði rétt yfir markmiði Seðlabankans á næsta ári sem skýrist af veikingu krónunnar það sem af er ári. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi nái hámarki í árslok 2020 en lækki síðan lítillega á næsta ári. Ef það gengur eftir verður atvinnuleysi svipað og var árið 2011.

Þessar forsendur eru háðar mikilli óvissu vegna þeirrar stöðu sem uppi er af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru. Framvinda faraldurs og sóttvarnaaðgerða eru ráðandi þættir um efnahagsþróun. Gangi þjóðhagsspá eftir verður fjöldi ferðamanna innan við helmingur þess sem hann var árið 2019.

Viðsnúningur í VLF jafngildir allt að 300 milljarða kr. minni framleiðslu í hagkerfinu. Útflutningur hefur dregist mikið saman, sérstaklega vegna minni þjónustuútflutnings til ferðamanna. Þó kemur fram aukning í samneyslu vegna sjálfvirkra sveiflujafnara og sértækra útgjaldaaðgerða. Í október í haust var almennt atvinnuleysi samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar 9,9% sem samsvarar 20.252 einstaklingum. Þar að auki voru 4.759 einstaklingar með minnkað starfshlutfall. Til samanburðar var skráð atvinnuleysi 5,0% í febrúar í vetur sem samsvarar 5.314 einstaklingum.

Á næsta ári er gert ráð fyrir að hagkerfið taki vel við sér og Hagstofa Íslands spáir þá 3,9% hagvexti. Hagvöxtur á næsta ári verður knúinn af auknum fjárfestingum og aukningu í útflutningi. Þó er áætlað að atvinnuleysi verði enn hátt eða um 6,8%.“

Þetta segir í nefndaráliti okkar um efnahagsforsendur þær sem frumvarpið hvílir á. Frá því að þessar forsendur voru birtar hafa birst dekkri spár sem við gerum ekki skil í nefndarálitinu. Það sem ég vildi kannski fá að draga saman er að við erum að sönnu að gera þetta í mikilli óvissu og lítið má út af bregða til að fari á enn verri veg, sem ég er kannski ekkert sérstaklega að boða. Ég held að það sé miklu frekar á annan veg en þann. Síðan hefur orðið heilmikil umræða varðandi þetta fjárlagafrumvarp og þær ráðstafanir sem þar er verið að grípa til og ætla ég sérstaklega að nefna stöðu sveitarfélaga. Þau hafa látið í sér heyra og voru í heimsóknum til hv. fjárlaganefndar með miklar áhyggjur, eðlilega. Það hafa margir áhyggjur. En þó er því til að svara að samkvæmt þeim greiningum sem við höfum fengið að sjá hefur ekki enn orðið samsvarandi tekjusamdráttur hjá sveitarfélögunum og hjá ríkissjóði. Kannski eðlilega, það er öðruvísi samsetning á tekjustofnum sveitarfélaga. Ég held að það sé samt ástæða til að við ræðum út frá þeirri hlið vanda sveitarfélaganna almennt og þær áhyggjur sem þau báru til fjárlaganefndar í umsögnum sínum og heimsóknum til nefndarinnar og umræðu um þetta fjárlagafrumvarp.

Ég leyfi mér að vitna hér aftur í nefndarálitið þar sem við erum að reyna að ná svolítið utan um þessa umræðu og reyna að svara henni að einhverju marki. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ríki og sveitarfélög hafa nýverið undirritað samkomulag í tengslum við gerð fjármálaáætlunar fyrir árin 2021–2025 eins og lög um opinber fjármál kveða á um. Þar hafa aðilar komið sér saman um sameiginlega sýn á hagstjórn og stjórn opinberra fjármála á því tímabili sem um ræðir. Þar eru sett markmið um afkomu- og skuldaþróun, þ.m.t. að aukning skulda hins opinbera sem hlutfall af VLF verði stöðvuð fyrir árslok 2025.“

Það er mjög mikilvægt að við höfum í huga að við þurfum að vinna að hagstjórn í landinu, í þessu góða sambandi ríkis og sveitarfélaga, þannig að við séum öll að róa í sömu áttina.

Síðan segir:

„Í almennri umræðu hefur sú krafa komið fram af hálfu fulltrúa sveitarfélaga að ríkissjóður eigi að styðja enn frekar við sveitarfélög landsins umfram það sem þegar hefur verið gert. Þar hefur verið vísað til þess að stuðningur annarra ríkja, t.d. á Norðurlöndum, sé langtum meiri en hér á landi. Í þessari umræðu þarf að hafa í huga að uppbygging og fjármögnun sveitarstjórnarstigsins er afar frábrugðin því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og víða um Evrópu. Þar af leiðandi gefur það villandi mynd að bera saman stuðning ríkissjóðs hér á landi við stuðning annarra landa sem búa við gjörólík kerfi. Sveitarfélögin eru fjárhagslega sjálfstæð og samanborið við önnur lönd er stærri hluti tekna þeirra hér á landi í formi lögbundinna tekjustofna en í formi beinna framlaga úr ríkissjóði. Í slíku fyrirkomulagi, þar sem sveitarfélögin eru meira og minna háð lögbundnum framlögum, þurfa þau að stunda sjálfstæða fjármálastjórn og búa í haginn þegar efnahagslífið er í uppgangi til að geta staðið af sér niðursveiflu í hagkerfinu.

Ljóst er að heimsfaraldurinn og áhrif hans á íslenskt atvinnulíf valda því að tiltekin sveitarfélög sem hafa reitt sig mikið á ferðaþjónustu hafa orðið fyrir miklum tekjusamdrætti og þolað atvinnuleysi. Þannig er fjárhagsleg staða sveitarfélaga misjöfn. Þegar hefur verið veittur stuðningur til þeirra sveitarfélaga sem metið var að færu verst út úr niðursveiflu í ferðaþjónustu og í ráði er að auka enn frekar stuðning til sveitarfélaga sem standa höllum fæti vegna kórónuveirufaraldursins.

Ríkisvaldið fær hlutfallslega minna út úr tekjuskattinum en það stendur full skil á því sem svarar til útsvars til sveitarfélaga. Frestun á skattskilum í ár lendir hjá ríkisvaldinu en ekki sveitarfélögum og reyndar vanskil líka. Síðan eru ýmsar ráðstafanir sem gerðar eru sérstaklega í þágu sveitarfélaga. Þetta á líka við þegar litið er til framtíðar þar sem ríkið mun beita sér fyrir fjárfestingum og ívilnunum til að efla landsframleiðslu og þar með auka launaveltu og hækka fasteignaverð. Ríkið mun sitja eftir með skuldabagga sem þyngist um 20% af VLF á milli áranna 2019 og 2021, en á hinn bóginn er gert ráð fyrir að skuldir sveitarfélaga hækki um tæplega 3% af VLF á sama tíma.“

Þetta er nú það sem við erum að fjalla um í okkar nefndaráliti en segir kannski ekkert annað en það að þegar menn eru að bera saman kerfið hér á landi og kerfið í öðrum löndum, og reyna að álykta út frá því að við séum að veita sveitarfélögunum lítinn stuðning eða séum ekki að styðja þau, þá er það ekki algerlega sambærilegt.

Stóra myndin er hins vegar sú í mínum huga að þær ráðstafanir sem við höfum gripið til á árinu nýtast sveitarfélögunum að sönnu. Þær greiningar sem hafa verið gerðar á tekjum sveitarfélaganna á árinu sýna að þær eru að skila sér og gera heimilum og fyrirtækjum í landinu kleift að halda uppi þeirri starfsemi sem mögulegt er.

Þegar maður hefur rakið efnahagsforsendurnar og stöðu sveitarfélaganna sérstaklega, og ég ætla ekki að gleyma að nefna það að staða sveitarfélaga er eðlilega mjög misjöfn allt í kringum landið, verður líka að muna eftir því að ekki hafa öll sveitarfélög notið uppsveiflu vegna ferðaþjónustu á undanförnum árum og fara þá kannski ekki eins langt niður núna. Það gengur að vísu ljómandi vel í mörgum atvinnugreinum þótt illa gangi í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Stundum hefur verið sagt: Við finnum aldrei fyrir þensluárunum úti á landi og því finnum við ekki eins mikið fyrir kreppunni. Það eru mörg merki um að sú kenning hafi að einhverju leyti sannað sig núna. En það er ástæða fyrir því að sveitarfélögin nefndu þetta og það er vilji ríkisstjórnarinnar að mæta þeim af skilningi þannig að við séum, t.d. í tekjufalli Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, að grípa þau sveitarfélög sem horfa fram á hvað mestan samdrátt.

Við búum við djúpa og snögga kreppu og við erum að beita ríkisfjármálunum með skynsamlegum og ábyrgum hætti til að milda það högg á samfélagið allt. En frá þeim tíma að frumvarpið var lagt fram má þó segja að meiri vissa um þróun efnahagsmála hafi skapast. Við sjóndeildarhringinn er bóluefni sem mun breyta ástandi mála. Við trúum því núna að lífið komist aftur í eðlilegra horf. En við vitum í sjálfu sér ekki hvernig samfélag og hvernig efnahagslíf rís hér upp aftur. Við munum vafalaust sjá miklar breytingar og ný tækifæri opnast en getum ekki spáð fyrir um það hvað það mun taka langan tíma að öðlast fyrri styrk og við vitum ekki hvernig við endurheimtum allt að 300 milljarða verðmætasköpun í landsframleiðslu okkar. Þetta vitum við ekki en við trúum að með þeim aðgerðum sem við höfum gripið til höfum við varið þá þætti sem skapa okkur þessa viðspyrnu.

Við höfum ekki tapað náttúruauðlindum okkar og við höfum ekki tapað viljanum til að vaxa og eflast af nýtingu þeirra. Við erum að sá fræjum til nýsköpunar og sóknar og við vitum að við munum á þeim akri uppskera ríkulega, svo að ég leyfi mér að nota málfar sem mér er tamt. En við höfum fyrst og fremst leitast við að verja sem best atvinnutækin okkar og fjárhag heimila og það er gríðarlega mikilvægt. Við höfum ekki gripið til niðurskurðar útgjalda ríkisins. Þannig höfum við ekki aukið á vandann. Við erum að verja þær endurbætur og þá eflingu sem mikilvægar grunnstoðir samfélagsins hafa gengið í gegnum á undanförnum árum, og þá sérstaklega á þeim tíma sem núverandi ríkisstjórn hefur setið. Þetta erum við að gera til að skapa hér aftur hagvöxt og upprisu. Það er vandi að spá um framtíðina en samt er kröftugum hagvexti spáð, eins og ég rakti hér áðan upp úr nefndarálitinu. Ég vil samt trúa því að vöxturinn geti orðið enn kröftugri og jafnvel enn skarpari en við erum að spá í dag. Það byggi ég ekki síst á þeim samanburði sem við í fjárlaganefnd höfum rýnt í um það hvernig samdráttur varð hér á landi, að hann varð hraðari hér á landi en í mörgum löndum sem við berum okkur saman við. Það getur þá líka bent til þess að upprisan hér geti orðið miklu skarpari en í þeim löndum. En slíkir spádómar og slíkar vangaveltur sem ég er með hér rúmast kannski ekki í þeim hefðbundnu spámódelum sem við styðjumst almennt við.

Það er heldur ekki óvarlegt að álykta sem svo að gildismat fólks breytist, að vilji til ferðalaga á framandi slóðir verði um sinn takmarkaður, en þá gætum við einnig notið þess, sem hluta af þeirri viðspyrnu sem við vonumst eftir, þegar losnar um ferðatakmarkanir fólks.

Gildismat fólk tekur breytingum eftir áföll og ekkert verður aftur það sama, t.d. viðhorf til mikilvægra þátta eins og heilbrigðisstarfsemi, ekki síst til þess fólks sem þar vinnur. Við kunnum miklu betur að meta störf þeirra eftir slíka törn sem það hefur þurft að ganga í gegnum. Það er vissulega ástæða til að þakka öllu því fólki og öðrum viðbragðsaðilum sem hafa verið önnum kafnir undanfarna mánuði fyrir störf þeirra. Áhrifin geta líka komið fram í vali ungmenna til náms. Allt eru það þættir sem munu bíða okkar sem áskoranir í framtíðinni.

En fyrst af öllu vil ég samt nefna að mörg merki eru um að viðbrögð okkar hafi virkað. Viðbrögðin gagnast ekki síst sveitarfélögunum, eins og ég rakti áðan, því að samkvæmt greiningum, ef við horfum til líðandi árs, hefur ekki orðið sama tekjufallið þar og hjá ríkissjóði; eðlilega að einhverju leyti, eins og ég rakti áðan, þar sem tekjustofnar eru að einhverju leyti ólíkir. Ég ætla bara að taka aftur fram að með þessu er ég ekki að gera lítið úr vanda sveitarfélaga og staða þeirra er mjög mismunandi.

Ég vil að þessu sögðu aðeins minna á að ríkissjóður tekur mjög mikla fjármuni að láni til að standa undir þessum aðgerðum. Samkvæmt breytingartillögum sem við ræðum í dag verður halli ríkissjóðs á næsta ári um 320 milljarðar kr. Á árinu sem nú er að líða er hallinn um 270 milljarðar. Veruleikinn er sá að skatttekjur, eða tekjur ríkissjóðs, eru ekki nema rétt um 70% af þessum útgjöldum. Það er mjög alvarleg staða. Og, virðulegur forseti, við teflum mjög tæpt og það má lítið út af bregða til að þetta geti ekki gengið. En ríkissjóður er sameiginlegur sjóður okkar landsmanna og því skiptir það máli hvaða stefna er mörkuð. Vaxta- og afborgunarbyrði af þeim lánum sem við erum nú að taka mun fylgja okkur í mörg ár. Þekkjandi ágætlega uppbyggingu ríkisfjármála veit ég að það verður þröngur stakkur að klæðast í næstu árin. Að langstærstum hluta eru ríkisútgjöldin framreikningur á umfangsmiklum samfélagsverkefnum sem við viljum flest standa vörð um. Þeir fjármunir sem nú eru lagðir til fjárfestinga, og gagnrýnt hefur verið hér í umræðunni í dag af einstaka ræðumönnum að séu litlir, verða því að gefa okkur framtíðarávöxtun og gefa okkur framfarir, lækka kostnað og byggja upp tækifæri til sóknar. Tillögur hér um viðspyrnu og fjárfestingar eiga þannig að skapa okkur þau sóknarfæri sem við þurfum á að halda til að takast á við framtíðina eftir þennan tímabundna samdrátt sem við trúum að við höfum mikil færi til að reisa við.

Við getum lengi lofað hve ríkissjóður var í góðum færum til að takast á við þennan vanda. Hann var eftir efnahagsáfallið fyrir um áratug búinn að létta af sér skuldaklafa og hafði tækifæri til að efla grunnstoðir samfélagsins á nýjan leik. En stóri munurinn á þessu áfalli nú og fyrir áratug er að á endanum fengum við umtalsverða fjármuni sem styrktu ríkissjóð, bæði með framlögum og ekki síst með kröftugum hagvexti sem tókst að skapa, og það var allt saman mikið afrek. Engum slíkum hvalreka er til að dreifa núna sem þá var og þess vegna skiptir endurreisnin svo óendanlega miklu máli. Þetta er ekki síðasta áfallið sem við stöndum frammi fyrir eða skyndilega kreppan. Því skiptir svo gríðarlega miklu máli að það takist að rétta ríkissjóð af sem fyrst með hagvexti og ábyrgri nýtingu tekna hans. Við getum ekki skattlagt okkur út úr þessari stöðu. Við verðum að geta vaxið, stækkað og eflst sem samfélag. Áhættan er fyrst og fremst sú í mínum huga að við höfum ekki náð að vaxa og ekki náð að rétta ríkissjóð af þegar næsti skellur gæti dunið á okkur.

Virðulegur forseti. Það er þetta sem mér er efst í huga við 2. umr. fjárlaga á aðventu 2020, þegar ég horfi yfir meginstrauma og stefnur af þeim sjónarhóli sem ég stend. Það er í þessum anda sem ríkisstjórnin og meiri hluti fjárlaganefndar hefur unnið og lagt grunn að afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2021. Viðspyrnan og verndin fyrir heimilin og fyrirtækin, viðspyrnan fyrir samfélagið til að rísa aftur hratt upp — það eru raunveruleg kjörorð stefnunnar sem sett er fram í fjárlagafrumvarpinu.

Af einstökum atriðum frumvarpsins til viðbótar, af atriðum sem snúa að öðrum verkefnum, vil ég nefna — því miður hefur mér þótt það fá litla athygli, kannski eðlilega miðað við ástand mála — endursköpun í opinberri stjórnsýslu og fjárfestingu, sem er veruleg á næstu árum, til að koma opinberri þjónustu yfir á stafrænt form. Með því vinnst tvennt. Við munum gera þjónustuna skilvirkari og ódýrari til lengri tíma litið en ekki síst erum við að bæta verulega aðgengi allra að opinberri þjónustu. Ég bind miklar vonir við þá byltingu sem við erum að stíga fyrstu skrefin inn í þar sem verður meiri sjálfvirknivæðing og meira um stafrænar lausnir í samskiptum borgaranna við stjórnsýsluna til að reka sín erindi, sem getur gjörbylt öllu aðgengi að opinberri þjónustu eins og ég nefndi áðan.

Í öðru lagi vil ég nefna breytingar á fjárlagafrumvarpinu, sem meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögu um, sem er hækkun framlaga til jöfnunar dreifikostnaðar raforku. Mér er það mikið hjartans mál, eðlilega. Mig langar stundum, virðulegi forseti, að orða þessa hluti með allt öðrum hætti en við höfum gert hingað til. Í umræðunni hingað til hefur mikið verið talað um að við séum að jafna dreifikostnað milli dýrustu gjaldskrár dreifiveitu þéttbýlis og dreifbýlis, svokallað dreifbýlisframlag. Í mínum huga er þetta þveröfugt. Þegar við röðuðum raforkukerfinu upp og fjármögnun þess á árunum 2003–2005 var tekin um það ákvörðun að skilja uppbyggingu á langumfangsmesta hluta raforkudreifikerfis á Íslandi eftir í höndum og á herðunum á fámennum hópi íbúa þessa lands. Það var ákveðið að hafa sérstaka gjaldskrá í þéttbýli og dreifbýli þannig að verðið á flutningi raforku í þéttbýli væri sem hagkvæmast en þar var endurnýjun dreifikerfis raforku á þessum tíma næstum öll um garð gengin og lítil fjárfestingarþörf miðað við það sem var í dreifbýlinu. Þeir fjármunir sem við leggjum til, 730 milljónir, í þessu fjárlagafrumvarpi eru til að minnka mun á gjaldskrám dreifbýlis- og þéttbýlisveitna úr 49% upp í 85%, og síðan bætir meiri hluti fjárlaganefndar við annarri tillögu sem hún gerir að sinni um 90 milljónir þar til viðbótar, þannig að frá 1. september nk. náist þessi jöfnuður að fullu. Það er mikilvægt að við skiljum að það er kannski ekki endanlegur sigur í málinu því að það eru fjölmargir þættir sem þurfa að ganga þar upp. En ættum við ekki miklu frekar að ræða um þessa fjármuni, sem verða núna hátt í 2 milljarðar kr. í jöfnun á orkukostnaði, sem sérstakt framlag ríkissjóðs frá íbúum þéttbýlisins fyrir að þurfa ekki að taka þátt í að byggja upp dreifikerfi um allt land eða í dreifbýlinu á Íslandi?

Þegar við horfum á stöðu ríkissjóð eins og hún er í dag, af því að ég nefndi raforkudreifikerfið, vil ég nefna að fjölmörg fyrirtæki á þessu sviði eru í ríkiseigu. Nú ætla ég að taka skýrt fram að ég er ekki að boða sérstaklega einkavæðingu á þessu sviði, þó að það væri náttúrlega áhugaverð umræða, ég ætla ekki að undanskilja mig henni. En nokkur fyrirtæki eru í eigu ríkisins og vel mætti rýna hvort við gætum ekki raðað starfi þeirra upp með öðrum hætti til að nýta fjármunina betur þannig að við séum ekki að nota ríkissjóð til þessara jöfnunarverkefna heldur getum látið fyrirtækin sjálf létta undir með ríkissjóði, svo að við séum ekki að sækja þessi stóru framlög inn með þessum hætti. Ég myndi reyndar vilja ganga enn lengra og stokka þessi fyrirtæki upp. Ég myndi t.d. vilja taka orkuframleiðsluna út úr Rarik og sameina hana Orkubúi Vestfjarða og gera Orkubú Vestfjarða að hreinu raforkuframleiðslufyrirtæki; leggja frá okkur orkusöluna, sem er sá aðili sem selur raforku, og sameina síðan dreifiveituhluta Rariks og Orkubús Vestfjarða í öðru fyrirtæki og búa þá til hreint dreifiveitufyrirtæki. Ég er ekki að segja þetta með öðru hugarfari en því að við getum skerpt mjög sýn þessara fyrirtækja og við getum gert þau að miklu öflugra tæki til að ná fram pólitískum markmiðum okkar. Ég vil leyfa mér að segja að við séum sammála um það í þessum sal, sama í hvaða flokki við erum, að vilja hafa þennan grunnþátt samfélagsins, sem er rafmagnsnotkun, sem jafnastan á milli fólks. Það er mikill og stór áfangi sem við náum með þessu fjárlagafrumvarpi í að hækka jöfnunargjaldið, fyrst að frumkvæði hæstv. iðnaðarráðherra og síðan með ágætri samstöðu sem ég vona að verði hér í þinginu um að stíga skrefið til fulls. Þetta er miklu stærra byggðamál en kannski er hægt að álykta þegar menn líta fyrst á það og mjög mikilvægt mál.

Í sjálfu sér mætti hafa langt mál um aðrar tillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar setur fram en ég ætla ekki að tíunda allan þann lista. Ég vil þó nefna hér eina tillögu sem eru netöryggismál. Við gerum tillögu um fjármuni til að opna okkur aðgang að alþjóðlegum netöryggissetrum með þátttöku í starfi þeirra þannig að við séum raunverulega að komast í samfélag þjóðanna og láta okkur netöryggismál varða. Engum blöðum er um það að fletta að netárásir hafa aukist gífurlega og þá ekki síst í faraldrinum sem nú geisar. Við vitum því miður ekki mikið um þær og ekki heldur hve umfangsmiklar þær eru. En með aðild að þessum netöryggissetrum bætum við einfaldlega yfirsýn okkar og getum gripið til markvissra ráðstafana. Almenningur verður helst var við slíkt ef ráðist er að einkalífi fólks, ef farið er í persónuleg gögn eða viðkvæmar fjármálaupplýsingar, en netöryggi er margþátta og víðfeðmt svið og þegar horft er yfir svið netöryggis má allt eins kalla þá starfsemi samfélagsöryggi. Meiri hluti fjárlaganefndar hefur í vinnu sinni séð að víða þarf að gefa þessu meiri gaum og endurskipuleggja ýmiss konar starfsemi. Hvort heldur við horfum til öryggis- og varnarmála eða fjarskiptakerfa ýmiss konar eða raforkukerfa, og svo mætti lengi telja, vantar okkur mjög mikið upp á að láta öryggisþátt þeirra, það sem tengist yfir netið, vera í betra skipulagi og betra horfi. Fölþættar árásir og ógnir stefna friði í hættu, félagslegri samheldni og öryggi á svæðum. Til að við getum varið samfélag okkar og lýðræðisleg gildi þarf samstarf við aðrar þjóðir. Til þess að við getum verið þjóð á meðal þjóða leggjum við til að við eigum aðgang að þessum netöryggissetrum. Hér heima fyrir þurfum við síðan til lengri tíma að samþætta marga þætti og skerpa mjög sýn okkar á starfsemi sem nú er rekin í ýmiss konar málaflokkum, ef ég bara orða það með þeim hætti, og á ýmsum stigum samfélagsins. Við þurfum að sinna netöryggismálum af meiri festu og ábyrgð en við höfum gert hingað til.

Virðulegur forseti. Þetta var svona hraðferð yfir ágæta vinnu haustsins, sem var óvenjuleg að þessu sinni þar sem þingsetningu hafði verið frestað og fjárlagafrumvarp lagt fram við sérstakar aðstæður. Við erum nú í hv. fjárlaganefnd að fjalla um fimmta fjáraukann á árinu. Það kemur vonandi aldrei aftur svona ár sem er nú að líða. En ég ætla að ljúka ræðu minni á því að segja að mér finnst óvissan á margan hátt hafa minnkað frá þeim tíma að fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Það hillir undir bóluefni og það mun þýða að veirufaraldurinn verður á undanhaldi. Stóra verkefnið er að takast á við það samfélag og það efnahagslíf sem rís upp úr rústum þess samdráttar sem við höfum upplifað undanfarið ár.