151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er með andsvarið hérna, en ég ætlaði hvort eð er að fara út í þetta varðandi framkvæmdina á 69. gr. Hún er eilítið undarleg. Það er spurning hvort þetta er eitthvað sem þingið, löggjafinn ætlaði að gera þegar lögin voru sett, hvort lífeyrir, samkvæmt 69. gr., ætti að fylgja almennri launaþróun, sem er ekki vel skilgreint hugtak, eins og umboðsmaður Alþingis benti á, eða hvort þetta er bara spá um almenna launaþróun. Það er vandinn varðandi 69. gr. Miðað við hvernig lög Alþingi hefur sett t.d. varðandi laun þingmanna er það tvímælalaust raunhækkunin sem á að gilda því að við töldum það vera rétt fyrirkomulag fyrir laun þingmanna að byggja á þeirri raunverulegu launaþróun sem orðið hefði á undangengnu ári í stað þess að spá bara fyrir um launaþróun fyrir næsta ár.

Hins vegar er það stefna stjórnvalda sem ég hef verið að gagnrýna og gagnrýndi í framsöguræðu minni á nefndaráliti fyrr í dag. Það var stefna eða aðgerðir stjórnvalda að gera lífskjarasamninga á þennan hátt, sem eru grundvallaðir öðruvísi en 69. gr. segir til um. Ég skil alveg að hér komi fjárlagafrumvarp sem byggir á lögunum og útreikningunum eins og þeir eru, en ríkisstjórnin annars vegar og í rauninni þingið hins vegar ættu að segja: Nei, hérna eru ekki sömu forsendur á bak við lögin í 69. gr., og þá þarf aðkomu og stefnumörkun stjórnvalda til að grípa fram í varðandi útreikningana þar, eins og oft hefur verið gert áður. Það hefur verið lagt aukalega í, umfram það sem lögbundin hækkun kveður á um samkvæmt 69. gr. Ég spyr: Vantar það ekki einmitt í þessu máli nákvæmlega núna út af lífskjarasamningunum fyrir þessa hópa?