151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ætli þingmaðurinn fái ekki bara svipuð svör og hann hefur áður fengið frá mér og öðrum varðandi þetta? Hér erum við með lagabálk undir. Við verðum líka að velta því fyrir okkur að sanngirni er eitt og lagaumhverfi okkar er annað. Við höfum rætt það oft áður hvernig okkur beri að vinna úr þessu. Í fyrsta lagi höfum verið að gera ákveðna hluti. Sem betur fer höfum við verið að reyna að lagfæra og bæta í t.d. hjá lægstu tekjutíundinni, meðal aldraðra, og við þurfum að gera enn þá betur. Það er alveg ljóst. En ég held að lagaumhverfið sé dálítið að þvælast fyrir okkur, og hv. þingmaður hefur farið yfir það sjálfur í dag ásamt öðrum þingmönnum í andsvörum. Til að skýra það betur, þ.e. að ekki sé einhver geðþótti sem stýri því hvernig hlutirnir eru reiknaðir — þetta er niðurstaðan sem við erum með fyrir framan okkur, aðferðin sem við notum til að gera þetta. Ég held að við getum ekki vikið frá henni og horft til einhverra kjarasamninga, hvort sem það eru lífskjarasamningar núna eða aðrir kjarasamningar á hverjum tíma, að öðru leyti en því sem lögin gera ráð fyrir. En hins vegar er það verkefni okkar að velta fyrir okkur: Viljum við breyta þeim lögum sem við vinnum eftir?