151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:35]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að styðja við skógarbændur líka, sem betur fer, bæði fyrir austan og annars staðar. Ég held að það sé partur af þessu. Kolefnissporið skiptir auðvitað máli í þessu líka. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því, hvort sem unnið er með alls konar plast eða aðra staðgengla sem skilja eftir sig miklu meira spor. Við höfum gert breytingar varðandi velferð þessara dýra. Við gerðum m.a. kröfu á minkabændur, og aðstoðum þá að hluta til vegna þess eins og hv. þingmann ætti að reka minni til, um aukinn og betri aðbúnað í greininni.

Ég er þannig gerð að ég vil hafa fjölbreytni í atvinnulífinu. Þeir bændur sem þarna um ræðir eru búnir að byggja upp til áratuga og mér hugnast ekkert endilega að greinin leggist af. Það eru bara skiptar skoðanir um það eins og svo margt annað. Ég er því ekki sammála hv. þingmanni um þetta. Ég tel að það eigi eftir að sýna sig að þetta verður afar gott verkefni. Ég held líka að þegar við horfum til þess að verðið hækki í ljósi breyttrar stöðu í heiminum þá eigi þessi grein eftir að koma til með að braggast verulega og verða partur af góðum og ríkulegum útflutningstekjum þjóðarinnar.