151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:37]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021 og erum stödd í 2. umr. Ég ætla ekki að fara í gegnum nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar enda hefur framsögumaður nefndarinnar, hv. þm. Willum Þór Þórsson, gert það í ítarlegu máli hér í dag og aðrir þingmenn hafa sömuleiðis gert það. En mig langar hins vegar að draga út einstaka atriði og hnykkja á í umræðunni.

Fyrst finnst mér mikilvægt að halda því til haga að með því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram 1. október síðastliðinn, í miðjum Covid-faraldri, var tekin sú ákvörðun að standa vörð um mikilvæg félagsleg kerfi. Það er gert óháð því að tekjur ríkisins eru að dragast saman en þörfin fyrir útgjöld, m.a. vegna atvinnuleysis og aukins álags á félagslegu kerfin, er að aukast. Hér er farin sú mikilvæga leið að skera ekki niður heldur mæta aukningunni með því að gefa í. Það eru grunnforsendur sem mér finnst mikilvægt að hafa í huga í þessari umræðu.

Breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið eru óvenjuumfangsmiklar, bæði í fjölda tillagna og því fjármagni sem verið er að bæta við. Það er kannski ekki skrýtið að svo sé þegar samfélagið fer í gegnum dýpstu efnahagskreppu í yfir 100 ár og skárra væri það nú ef ekki þyrfti að kafa djúpt ofan í fjármálin og fjárlög ríkisins við þær aðstæður. Það er einmitt ástæðan fyrir því að við erum að ræða hér um breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið örlítið seinna en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir í starfsáætlun Alþingis.

Með breytingartillögum frá meiri hluta fjárlaganefndar er um u.þ.b. 55 milljarða aukningu í fjárlögin að ræða í og flestar breytingarnar sem hér eru lagðar til eru komnar til vegna Covid. En það eru einnig aðrar tillögur sem lagðar eru fram og þá er oft um lægri upphæðir að ræða sem má segja að gerist við hverja einustu umræðu um fjárlög þegar farið er að kafa dýpra ofan í hlutina, því að auðvitað er það þannig að þrátt fyrir Covid eru ýmsir hlutir og ýmsir þættir í samfélagi okkar sem ganga sinn vanagang. Þar þarf líka að hafa augun á þó að fjárframlög og tillögur um það tengist ekki beinlínis faraldrinum. Hér er um, má segja, tvenns konar aðgerðir að ræða, annars vegar þær sem eru gríðarlega fyrirferðarmiklar og eru til komnar beint vegna afleiðinganna af Covid, og svo annað sem er kannski hefðbundnara og við könnumst við úr venjulegra árferði.

Mig langar að nefna sérstaklega að hér eru gerðar tillögur sem nema samtals yfir 30 milljörðum og tengjast vinnumarkaðsaðgerðum og atvinnuleysi. Þar á meðal er aðgerð sem ég held að við séum öll sammála um að hafi skipt alveg gríðarlega miklu máli í gegnum þetta tímabil og það er hlutabótaleiðin. Verið er að leggja til fjármagn til þess að framlengja og halda því góða úrræði fram á mitt næsta ár. Þegar er búið að hækka ákveðnar greiðslur vegna barna atvinnuleitenda. Það held ég að hafi verið mjög mikilvægt að gera og hér er einnig lagt til að sett verði fjármagn í að framlengja það úrræði og það tel ég að skipti einnig gríðarlega miklu máli. Margar fleiri tillögur að breytingum sem tengjast vinnumarkaðs- og atvinnumálum eru lagðar til en ég ætla ekki að fara yfir þær hérna. Þeir sem hafa áhuga á því geta auðvitað kynnt sér það í mjög ítarlegu nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar sem er upp á rétt rúmar 45 blaðsíður.

Líkt og komið hefur verið inn á er mikil hækkun til menntamála, bæði á framhalds- og háskólastigi. Það er að mínu viti mjög skynsamlegt og mikilvægt viðbragð við auknu atvinnuleysi, bæði að gera skólunum kleift að taka við fleiri nemendum sem vilja nýta þennan tíma til þess að auka við menntun sína en ekki síður sá partur af hækkuninni til menntamála sem er beintengdur við vinnumarkaðsúrræði og gagnast fólki sem er atvinnulaust og kallast Nám er tækifæri. Hér tel ég að við séum, í erfiðu árferði og erfiðu ástandi, að setja peninga í mál sem er mikilvægt til framtíðar því að það er nauðsynlegt að styðja fólk á þessum tímapunkti til þess að styrkja stöðu sína menntalega og þar með vonandi á vinnumarkaði þannig að það sé komið með aukna menntun þegar atvinnulífið glæðist aftur, sem verður vonandi sem fyrst.

Þá er einnig verið að leggja mikla fjármuni til ýmissa verkefna á sviði lýðheilsu- og velferðarmála, sem og fjölskyldumála, og mig langar að nefna nokkur dæmi. Þarna eru misháar fjárhæðir sem hlaupa á tugum en upp í hundruð milljóna til þess að styðja við ýmsa hópa í samfélaginu, m.a. börn og ungmenni og eldra fólk. Hér er framlag til að efla félagslegan stuðning við fötluð börn og ungmenni og stuðning við foreldra fatlaðra barna og ungmenna. Þá er verið að efla úrræði sem tengjast tómstundum og samveru barna á aldrinum 12–16 ára en það eru einmitt krakkar sem eru orðnir nógu stórir til að átta sig á alvarleika málanna eins og þau hafa blasað við okkur á undanförnum misserum og því er mikilvægt að styðja við þau. Þá eru einnig fjármunir sem hér er verið að leggja til að verði settir í að efla félagsstarf aldraðs fólks sem ég tel einnig mjög mikilvægt enda er það hópur sem hefur fundið fyrir auknum áhrifum einangrunar í þessum faraldri.

Svo er mál sem er mér einkar kært en hleypur kannski ekki á hæstu upphæðunum, það er framlag til Samtakanna '78 upp á 20 milljónir. Það bætist við fjármagn sem samtökin fá nú þegar frá forsætisráðuneytinu. Samtökin '78 skipta gríðarlega miklu máli þegar kemur að stuðningi og fræðslu, bæði jafningjafræðslu og fræðslu fyrir aðstandendur og menntastofnanir. Þegar ungmenni eru að átta sig á að þau tilheyra hinsegin samfélaginu og eru að finna sig þar þá veita samtökin gríðarlega mikilvægan stuðning. Það skiptir svo miklu máli að styrkja ungmennin okkar á mótunarárum þeirra þegar þau eru að uppgötva tilfinningar sínar þannig að hér er um að ræða fjármuni sem ég tel alveg gríðarlega vel ráðstafað og þeir styðja auðvitað við mál sem við erum með til umfjöllunar núna í þinginu og snerta kynrænt sjálfræði. Samtökin '78 hafa svo sannarlega skipt máli þar, m.a. í stuðningi við og fræðslu til trans ungmenna.

Þá er einnig verið að bæta við fjármagni til að fylgja eftir aðgerðum sem tengjast þingsályktunartillögu um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Þegar var búið að ráðstafa fjármagni í þá forvarnaáætlun en hér er verið að auka í. Þetta er einnig mál þar sem er kannski ekki um stærstu upphæðirnar að ræða og þær skiptast á nokkra aðila en þetta er að mínu mati mikilvægt mál og ekki síst til framtíðar því að það skiptir einmitt máli að koma inn með forvarnafræðslu til þess að komandi kynslóðir séu betur upplýstar. Og þetta er auðvitað leiðin til þess að útrýma kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni.

Ég ætla, herra forseti, ekki að hafa þetta lengra, ég er búin að tæpa á nokkrum þeim málum sem skipta mig miklu máli hérna og hefur kannski ekki verið fjallað svo mikið um í öðrum ræðum hér í dag. En nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar er auðvitað langt og ítarlegt. Og líkt og ég sagði hér í upphafi finnst mér fullkomlega eðlilegt að í efnahagskreppu eins og þeirri sem við erum að ganga í gegnum núna séu umræður um fjárlög komandi árs, sem og viðbætur sem lagðar eru til, margar og ítarlegar því að það skiptir okkur öll máli að við búum vel um samfélagið okkar því að við ætlum ekki bara að komast í gegnum krísuna núna heldur ætlum við að hafa samfélag sem er sterkt til framtíðar. Ég er þeirrar skoðunar að það fjárlagafrumvarp sem við ræðum hér í dag sé mikilvægur þáttur í því að svo geti orðið.