151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Það kemur kannski engum á óvart hvað ég ætla að spyrja um. Ég spurði hv. þingmann um það í 1. umr. við fjárlög eða fjármálaáætlun hvort henni fyndist það vera réttmæt krafa að þeir hópar sem eru á framfærslu ríkisins með lífeyri, örorku- eða atvinnuleysisbætur fengju sömu hækkun og samið var um í lífskjarasamningum. Þá voru svörin ekkert rosalega skýr og ég greip hér aðeins fram í fyrir hv. þingmanni og biðst svo sem afsökunar á því. En ég var pínu óþolinmóður að fá ekki svar. Mér fannst spurningin voðalega augljós já eða nei spurning en það kom hvorki fram já né nei í neinum hluta svarsins. Þannig að ég kalla eftir því aftur.

Mig langar til að bæta við spurninguna. Í andsvörum við hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur hér áðan var nefnt að þetta snerist um sanngirni eða lög. Það væri verið að fara eftir lögum o.s.frv. Lögin eru vissulega þannig að í þessu ákvæði um almannatryggingar á að fara eftir almennri launaþróun. Við getum alveg karpað endalaust um það hver sé nákvæm lagaleg útfærsla á því lagaákvæði en orðin almenn launaþróun eru mjög vítt túlkuð eins og hefur komið fram í ábendingu umboðsmanns Alþingis. Í þeirri víðu túlkun gæti maður alla vega á einhverjum sanngirnisnótum sagt að eðlilegt væri að framfylgja sömu hækkunum til framfærslu sem er samkvæmt almannatryggingalögum og sem komu fram í lífskjarasamningum. (Forseti hringir.) Ef það er sérstök ákvörðun að hækka um krónutölu á einum stað þá væri almennt (Forseti hringir.) rétt að gera það líka á hinum staðnum.