151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[20:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þegar kemur að málefnum almannatryggingakerfisins finnst mér ekki vera augljóst að stærsta vandamálið þar sé 69. greinin sem við erum alltaf að ræða hér, heldur það hvernig örorkulífeyriskerfið er samsett, hvernig samfélagið okkar gerir það að verkum að fatlað fólk með skerta starfsgetu fær ekki vinnu, hvorki á hinum almenna vinnumarkaði né hinum opinbera. Mér finnst það vera galli á því kerfi að innbyrðis skerðingar í kerfinu eru allt of margar og þær bíta of snemma. En á sama tíma tel ég að það þurfi samt að stilla þær þannig af að þeir sem eru nógu gæfusamir til að hafa aðrar tekjur þurfi ekki að reiða sig á almannatryggingakerfið.

Ég tel að hið stóra vandamál sé að okkur tekst ekki að vernda og tryggja kjör þeirra sem þurfa að reiða sig á almannatryggingakerfið, berstrípað. Í mínum huga liggur stóra vandamálið þar. Ég hef beitt mér fyrir því og hef setið í nefndum og talað þar fyrir nákvæmlega því sem ég er að nefna hér. Ég tel að það sé leiðin til þess að bæta kjör öryrkja. Það gildir auðvitað um almannatryggingakerfið allt og þar á meðal ellilífeyrisþega og eldri borgara. Þar tel ég að hið stóra vandamál liggi. Ég held að það sé réttlæti í því að við fáum hér almennilegt almannatryggingakerfi og örorkulífeyriskerfi.