151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[20:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er mjög merkilegt því að það hefur alveg verið hreyft til í almannatryggingakerfinu áður umfram það sem lögin kveða á um og meira að segja minna. Árin 2010 og 2011 var það 0% hækkun á meðan það var 13,98% hækkun árið 2009 þegar það var samkvæmt launavísitölu bara 3,94%, verðbólga var að vísu 11,99%. Það hefur því áður verið tekin ákvörðun um að hækka lífeyri almannatrygginga umfram almenna launaþróun eða vísitölu. Það er ekkert nýtt. Það var gert af mjög ákveðnum ástæðum. Árið 2012 var 11,88% hækkun þegar launaþróun var 7,77% en það var vegna þess að tekin hafði verið ákvörðun um að hækka ekki árin tvö á undan. Það var líka gegn lögum. Samt var það gert. Þannig að núna spyr maður augljóslega þegar gerðir eru slíkir samningar á almennum launamarkaði og þeir passa ekki inn í módel 69. gr. almannatryggingalaga hvort ekki væri eðlilegt að annaðhvort þingið eða ríkisstjórnin tæki þá próaktífu ákvörðun að haga hækkun samkvæmt þeirri grein á annan hátt heldur en lög setja sem þrengstan ramma utan um. Mér finnst alla vega réttmæta krafan vera þarna til staðar en stjórnarþingmenn geta ekki einu sinni svarað því hvort þetta sé réttmæt krafa. Ég gæti alveg skilið ef þeir segðu: Já, það er réttmæt krafa en það er ekki pláss fyrir það. Það hefur verið gert áður, það var gert 2009 eða 2010/2011. Af hverju er ekki einu sinni hægt að segja það núna?