151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[21:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar hér við 2. umr. um fjárlög fyrir næsta ár til að koma inn á nokkur atriði. Til að byrja með vil ég taka undir sjónarmið hv. þm. Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins og fulltrúa í fjárlaganefnd, sem fór í ræðu sinni við upphaf umræðunnar hér fyrr í dag yfir breytingartillögur 3. minni hluta. Mig langar sérstaklega til að koma inn á nokkur atriði, í fyrsta lagi það sem mér þykir helst vanta varðandi atvinnulífið og stuðning við að tekjusköpun aukist aftur í samfélaginu. Mig langar einnig að koma inn á mál sem tengjast Ríkisútvarpinu, fjármögnun þess og stöðu á fjölmiðlamarkaði. Síðan ætla ég að koma inn á loðnuleit og stöðu þeirra mála og loks hafa nokkur orð um hlut samgöngusáttmálans og borgarlínu í þessu frumvarpi.

Fyrst ætla ég að segja á almennum nótum að mér þykir vanta nokkuð upp á að næg áhersla sé lögð á að ýta við tekjusköpun í efnahagslífinu þannig að viðspyrnan geti orðið eins hröð og mögulegt er þegar eðlilegri tímar nálgast. Með þann gríðarlega halla sem hér er lagt upp með og það sem fyrirsjáanlegt er á næsta ári í því samhengi verðum við sem samfélag í mjög snúinni stöðu ef tekju- og verðmætasköpun efnahagslífsins nær sér ekki hratt á strik.

Mig langar að koma stuttlega inn á mál sem snúa að fjarskiptamarkaði og Ríkisútvarpinu. Ég vil vekja sérstaklega athygli á umsögn Sýnar til fjárlaganefndar í tengslum við vinnu við fjárlög þar sem dreginn er fram himinhrópandi aðstöðumunur einkamiðla í samkeppni við Ríkisútvarpið. Allir innlendir miðlar, hverrar gerðar sem þeir eru, leyfi ég mér að fullyrða, hafa orðið fyrir tekjutapi og allmargir verulegu. Þeir sem reiða sig einvörðungu á sölu auglýsinga eru sennilega í hlutfallslega verstu stöðunni. Að sama skapi er Ríkisútvarpið með obbann af sínum fjárveitingum tryggðan í gegnum tekjustreymi frá ríkissjóði og bætir síðan í með óskum til fjárlaganefndar upp á 600 milljónir, ef ég man rétt, til að bæta upp fyrirséð tekjufall vegna ýmissa þátta sem snúa með einum eða öðrum hætti að áhrifum Covid-faraldursins. Mig langar, hæstv. forseti, að koma inn á umsögn Sýnar. Hún er athyglisverð margra hluta vegna. Þar er til að mynda rakið hvaða áhrif faraldurinn hefur haft á fyrirtæki eins og Sýn. Ég ætla ekki að fara í gegnum alla þá liði sem tilgreindir eru en þegar það er lagt saman segir í niðurlagi annarrar málsgreinar, með leyfi forseta:

„Samtals nemur þetta um 1,1 milljarði kr. á rekstur félagsins til hins verra.“

Það er tvöfalt það vandamál sem flaggað er frá Ríkisútvarpinu. Þarna er aftur á móti miðill og fyrirtæki sem þarf að standa á eigin fótum, laga sig að hinni nýju stöðu og miða áætlanir sínar og útgjöld við það. Það undirstrikar auðvitað þann mikla mun sem er á aðstöðu Ríkisútvarpsins og einkafyrirtækja í fjölmiðlarekstri á þessum markaði. Þau eiga í snúinni samkeppni við Ríkisútvarpið sem hefur tekjustreymið hér um bil alveg tryggt frá traustasta greiðanda landsins og flökt í tekjum er mjög hóflegt. Áður en ég hverf frá umsögn Sýnar langar mig að lesa upp málsgrein til að ramma inn hversu snúin staða einkareknu miðlanna er gagnvart risanum á fjölmiðlamarkaði. Hér segir, með leyfi forseta:

„Með vísan til þessa er með öllu óverjandi ef Ríkisútvarpinu verður bættur allur skaðinn eins og farið er á leit í umsögn RÚV enda myndi slík aðgerð einungis auka á þá samkeppnisröskun sem þegar leiðir af tæplega 5 milljarða árlegri meðgjöf frá ríkinu og um 2 milljarða auglýsingatekjum sem stofnunin aflar sér ár hvert.“

Sú staða er auðvitað óbærileg fyrir einkafyrirtækin. Það er skylda okkar sem erum á Alþingi að taka þessa þætti til alvarlegrar og gagngerrar skoðunar. Í því samhengi vil ég nefna sérstaklega tillögu hv. þm. Birgis Þórarinssonar, fulltrúa Miðflokksins í fjárlaganefnd, um breytingu á útvarpsgjaldi sem gengur út á það að krónutöluhækkun til samræmis við vísitölu upp á 170 milljónir á næsta ári komi ekki til framkvæmda, eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Þriðji minni hluti leggur fram breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að fyrirhuguð hækkun á útvarpsgjaldi, sem nemur um 170 millj. kr., komi ekki til framkvæmda. Tillagan er í eðlilegu samhengi við tillögu til þingsályktunar sem Miðflokkurinn leggur fram á næstu dögum um breytingar á ráðstöfun á útvarpsgjaldinu.“

Þá er því flaggað að væntanleg er tillaga frá Miðflokknum um breytta ráðstöfun útvarpsgjaldsins. Ég tel líklegt að henni verði dreift á morgun eða mánudag.

Nóg um Ríkisútvarpið í bili. Næst ætla ég að koma að loðnuleitarleiðangrinum og vandræðum tengdum því að hægt sé að vinna þá mikilvægu undirbúningsvinnu sem nauðsynleg er til að mögulegt geti orðið að gefa út loðnukvóta. Fram kemur í umsögn Hafrannsóknastofnunar til fjárlaganefndar að viðbótarkostnaður vegna þessa sé áætlaður um 120 milljónir og er óskað eftir því að fá aukafjárveitingu af fjárlögum til þess verks. Hafrannsóknastofnun fær til ráðstöfunar, ef ég man rétt, í námunda við 4 milljarða á ári. Ég er ekki með töluna alveg nákvæmlega í kollinum en stærðin er u.þ.b. sú. Það er auðvitað mikil upphæð og eflaust hefur fulltrúum Hafrannsóknastofnunar verið bent á að nauðsynlegt sé að forgangsraða þannig að hægt sé að fara í loðnuleitarleiðangra. En fyrir samfélagið í heild, fyrir ríkiskassann og fyrir okkur sem hér erum er algerlega óboðlegt að sú staða geti verið uppi að ekki verði farið í loðnuleitarleiðangra vegna þess að annaðhvort séu ekki til þess fjárveitingar, ekki til peningar innan úr heildarramma Hafrannsóknastofnunar, eða þá að sjávarútvegsráðherra eða fjárlaganefnd slái þá beiðni út af borðinu. Þarna getur verið, ef vel tekst til, 20–30 milljarða vertíð sem ekki verður ef ekki er gengið til þessara verka. Mig langar bara til upprifjunar að minna á að í 1. gr. laga um veiðigjald, nr. 145/2018, segir, með leyfi forseta:

„Veiðigjald er lagt á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu …“

Og ég held að óumdeilt sé að veiðigjöldin standi tryggilega undir þeim kostnaði sem fellur á Hafró við loðnuleit. Auðvitað er með þau eins og marga aðra tekjustofna að þau eru orðin almennt tekjuflæði inn í ríkissjóð. En við verðum að hafa það í huga að verið er að leggja gjald, svokallað veiðileyfagjald, á útgerðina sem er til þess ætlað að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu. Við verðum líka að hafa í huga að á undanförnum árum hafa orðið breytingar í umhverfinu sem orsaka það til að mynda að nýjar uppsjávartegundir hafa komið inn í lögsöguna. Nefni ég þar síld, kolmunna og makríl. Ef við tökum bara sem dæmi það að semja um deilistofna og þess háttar eru rannsóknirnar algert lykilatriði til að styrkja stöðu okkar í því. Nú veit ég ekki hvort ætlunin er að kalla fjárlögin inn til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. en ég veit að í næstu viku er ætlunin að ganga frá fjáraukalögum sem eru væntanlega þau fimmtu í röðinni á þessu ári og ég vil skora á fjárlaganefnd að taka það til alvarlegrar endurskoðunar að setja inn í þann pakka fjárveitingu sem tryggir að loðnuleit geti átt sér stað. Það eru hagsmunir sem við getum einfaldlega ekki litið fram hjá. Það væri ófyrirgefanlegt í núverandi árferði að undirbyggja það ekki að Hafró geti gefið út kvóta vegna loðnuveiða. Við munum að fréttir voru af því að menn töldu sig hafa verið að finna síld fyrir nokkru síðan en lentu í ís. Við þekkjum sum þá sögu. Loðnan er örugglega þarna en við þurfum að tryggja að loðnuleitarleiðangrar Hafrannsóknastofnunar geti átt sér stað til að kvóti verði gefinn út og við sem samfélag njótum vonandi þess að 20–30 milljarða verðmæti verði sótt með þeim hætti.

Mig langar næst að koma stuttlega inn á málefni sem snúa að borgarlínunni og samgöngusáttmálanum. Fjárveitingar til þess verkefnis fara í gegnum samgönguáætlun. Síðan eru auðvitað þær heimildir sem Betri samgöngur ohf. hafa fengið með sérstökum lögum þar um. Til fjárlaganefndar barst fyrirtaks umsögn frá Þórarni Hjaltasyni sem er allrar athygli verð og mig langar til að halda henni til haga hér. Í þessu samhengi er auðvitað verið að veita verulega fjármuni til þessa samnings í gegnum samgönguáætlun. Í öðru lagi liggur upplýsingaskylda opinbera hlutafélagsins Betri samgangna ohf. hjá fjárlaganefnd. Þess vegna vil ég halda þessu til haga hér hvað varðar eftirlitshlutverk nefndarinnar. Í umsögn sinni bendir Þórarinn Hjaltason á sjónarmið Ragnars Árnasonar, prófessors emerítus í hagfræði, þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að athugun hans á skýrslu COWI og Mannvits sýni að þjóðhagslegt núvirði fyrsta áfanga borgarlínunnar sé verulega neikvætt. Í grein Ragnars er það rökstutt með ítarlegum og sannfærandi hætti. Mig langar að vitna til niðurlags umsagnar Þórarins Hjaltasonar þar sem segir í tillögukafla minnisblaðsins, með leyfi forseta:

„Ég skora á Alþingi að sjá til þess að arðsemi borgarlínunnar verði endurmetin í samanburði við þann valkost að fækka leiðum Strætós og auka í staðinn ferðatíðni. Unnt er að stytta ferðatíma Strætós með sama hætti og gert hefur verið fram til þessa, þ.e. bæta við akrein hægra megin við akbraut þar sem eru langar biðraðir bíla á álagstímum umferðar. Það er margfalt ódýrara en að gera sérrými í miðeyju gatna eða sérgötur, eins og áætlað er fyrir borgarlínuna. Lauslega áætlaður kostnaður er á bilinu 5–10 milljarðar kr.

Fjármagnið sem sparast, allt að 100 milljarðar kr., mætti nota til að byggja upp samgönguinnviði sem eru margfalt hagkvæmari en borgarlínan.“

Ég vildi halda því til haga hér við þessa umræðu vegna þess að þetta mál er auðvitað fjarri því að vera búið. Það er alger lágmarksskylda að forsvaranleg arðsemisgreining fari fram á þessum verkefnum þannig að ekki sé vaðið áfram. Hafa verður í huga að það sem upp á vantar kemur annaðhvort úr ríkissjóði eða af sérstakri gjaldtöku á umferð á höfuðborgarsvæðinu. Hvorugur valkosturinn er góður en gert er ráð fyrir þeim báðum í þeim lögum sem samþykkt voru og grundvölluðu stofnun þessa opinbera hlutafélags. Það er ábyrgðarhluti fjárlaganefndar og Alþingis ef ekki er fylgst rækilega með á byrjunarstigum þessa máls. Fyrstu tvær framkvæmdirnar sem hafa farið í gegnum skipulagsferli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eftir að opinbera hlutafélagið var stofnað virðast báðar vera að fá þá lendingu að mislæg gatnamót séu slegin af og farið í ljósastýrð gatnamót með tilheyrandi umhverfisáhrifum, lélegra umferðarflæði, minna umferðaröryggi og þar fram eftir götunum. Því bendir allt til þess að í þessu samkomulagi sé ríkissjóði ætlað að standa við allt sitt upp á tíu en sveitarfélögin virðast því miður ætla að velja úr konfektkassanum þá mola sem þeim hugnast best. Þetta vildi ég segja í tengslum við þetta mikilvæga mál og ítreka það sem kemur fram í umsögn Þórarins Hjaltasonar, sem er, eins og þeir vita sem til þekkja, mikill sérfræðingur í þessum efnum, að þessa þætti verður að skoða. Nú sé ég að formaður fjárlaganefndar kemur í salinn og ég vona að eftirlitsþáttur fjárlaganefndar gagnvart hinu opinbera hlutafélagi verði virkur alveg frá upphafi þess verkefnis.

Að öðru leyti vil ég koma inn á þátt sem Samtök iðnaðarins benda á í umsögn sinni sem snýr að því að tillögur um umhverfisskatta verði endurskoðaðar og betrumbættar. Það er umræða sem átti sér stað í tengslum við svokallaðan bandorm sem er tekjuöflunarhlið fjárlagavinnunnar allrar. Það er rétt að nefna þetta hér í því samhengi að við formum regluverkið ekki þannig að við séum að sjúga fjármuni út úr fyrirtækjum og heimilum landsins í ómarkvissar aðgerðir, leyfi ég mér að segja, þar sem býsna góð rök hafa verið færð fyrir því að gagnsemi til að mynda kolefnisgjalds sem lagt er á jarðefnaeldsneyti sé hverfandi. Þarna er rétt um 6 milljarða skattur lagður á fyrirtæki og heimili landsins sem fær ekkert sérstaklega góða einkunn í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem kom út nýlega. Þó að sá skattur, eins og margir aðrir, hafi væntanlega verið settur á með góðum hug og ætlunin hafi verið að stýra einstaklingum og fyrirtækjum til ákveðinnar hegðunar er þetta bara hreinn skattur í dag. Þá er best að nálgast það bara þannig. Á meðan þetta er undir regnhlíf hinna svokölluðu grænu skatta verðum við bara að gagnrýna þá sem slíka á meðan fullnægjandi rök hafa ekki komið fram fyrir því að þeir skili einhverjum árangri.

Síðan langar mig í lok ræðu minnar að minna á þá almennu þætti sem snúa að mismunandi aðstöðu og skekktri samkeppnisstöðu landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis hvað samgöngur varðar. Við höfum verið í gríðarlega mikilli umræðu um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við samgöngusáttmálann og borgarlínu en við megum ekki láta mikilvægi innviðauppbyggingar á landsbyggðinni gleymast. Það er forsenda fyrir því að svæði nái almennilegri viðspyrnu. Sjáum t.d. það sem er að gerast á sunnanverðum Vestfjörðum, svo að ég taki dæmi. Forsenda þess að slík viðspyrna takist er að samgöngur séu góðar og vegirnir þjónustaðir, til að mynda með forsvaranlegri vetrarþjónustu.

Að endingu, af því að tími minn er að klárast, vil ég bara minna á að við verðum að koma málefnum Ríkisútvarpsins og einkareknu miðlanna til forsvaranlegs horfs. Síðan skora ég á fjárlaganefnd að taka það upp í tengslum við fimmta fjáraukalagapakkann, (Forseti hringir.) sem verður væntanlega afgreiddur hingað inn í næstu viku, að tryggja fjárveitingar svo að loðnuleit geti átt sér stað.