151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[21:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Félagar mínir í Samfylkingunni, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, Logi Einarsson og Guðjón S. Brjánsson, hafa allir farið ágætlega yfir áherslur Samfylkingarinnar og breytingartillögur hennar við þetta fjárlagafrumvarp. Ég ætla ekki að endurtaka þær ræður heldur lýsa hér yfir stuðningi við félaga mína og flokksbræður. En mig langaði að koma í stutta ræðu og tala um það sem mér finnst skipta mjög miklu máli í þessari atvinnukreppu sem við glímum við, þessari djúpu efnahagslægð, sem er fordæmalaus og við þurfum að finna leiðina út og upp.

Við höfum haft fullan skilning á því að sjá þurfi til þess að fyrirtækin gætu verið í því standi þegar faraldurinn gengur yfir, að geta farið á fulla ferð fljótlega til að skapa atvinnu og skapa verðmæti þannig að samfélagið geti dafnað vel á ný. Sá skilningur og sú viðurkenning hefur ekki náð til heimila þeirra sem misst hafa vinnuna í þessu ástandi. Það eru einmitt þau sem misst hafa vinnuna sem bera þyngstu byrðarnar í þessari niðursveiflu. Við eigum að dreifa byrðunum og það er það sem við jafnaðarmenn leggjum áherslu á. En því miður hafa stjórnarflokkarnir hingað til fellt tillögur okkar sem beinast í þá átt.

Samkvæmt nýjustu fréttum á vef Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi í október voru rúmlega 21.000 manns í hefðbundinni atvinnuleit en 25.000 ef hlutabæturnar eru teknar með, þ.e. þeir sem nýta sér hlutabótaleiðina. Þá erum við að tala um 25.000 manns, en hefðbundið atvinnuleysi er rúmlega 21.000 manns. Stjórnarflokkarnir tóku þá ágætu ákvörðun að lengja tekjutengda tímabilið. Þetta sáu þau í lok ágúst eða í byrjun september að væri góð hugmynd. Þau voru reyndar búin að fella tillögu Samfylkingarinnar frá því fyrr á árinu þar sem okkur var auðvitað ljóst að þetta þyrfti að gera. En mistök voru gerð þá, miðað var við of lítinn hóp. Í gær var gerð sú leiðrétting að miða við að þeir sem misstu vinnuna í mars fengju sex mánaða tekjutengt tímabil.

En aðeins til að útskýra hver réttur atvinnulausra til atvinnuleysisbóta er þá varir sá réttur í 30 mánuði. Þrír mánuðir eru tekjutengdir en bæturnar geta samt aldrei farið upp fyrir 456.000 kr. á mánuði. Tekjutengda tímabilið var sem sagt lengt úr þremur mánuðum í sex fyrir þá sem höfðu misst vinnuna í mars. Það eru u.þ.b. 10.000 manns. En í febrúar voru einmitt um 10.000 manns atvinnulausir, en það fólk fær aðeins þriggja mánaða tekjutengt tímabil samkvæmt ákvörðun stjórnvalda. Þegar stjórnarflokkarnir eru spurðir út í þetta: Hvernig stendur á þessari mismunun? Af hverju haldið þið að þau sem voru atvinnulaus í febrúar standi svo miklu betur en þau sem voru atvinnulaus í mars, að þau þurfi ekki þetta þriggja mánaða tekjutengda tímabil? Þau geti spjarað sig? Hvernig stendur á því? Þá er svarið: Stuðningur okkar er við þá sem misstu vinnuna vegna Covid. Þetta er Covid-aðgerð. Stuðningur stjórnarliða nær ekki til þeirra sem fá ekki vinnu vegna Covid. Það er engin Covid-aðgerð sem nær yfir þá sem ekki fá vinnu en voru þegar atvinnulausir í febrúar. Þetta eru 10.000 manns. Hvað skyldi þessi aðgerð kosta ef við myndum láta réttlætið ganga yfir alla þannig að allir atvinnuleitendur í atvinnukreppu, þar sem enga vinnu er að fá, fengju sex mánaða tekjutengt lögbundið tímabil? Þá gæti það aldrei kostað meira en rétt um 4 milljarða, vegna þess að enginn getur fengið meira en 456.000 kr. og það eru ekki allir þessir 10.000 í því hámarki. Ég er ekki með gögn til að reikna þetta nákvæmlega út en þetta getur aldrei kostað meira en rétt um 4 milljarða.

En ríkisstjórnin og stjórnarliðarnir segja bara: Nei, þetta fólk fær ekki okkar stuðning. Það finnst mér mjög alvarlegt mál. Þetta er mismunun og þetta er tvöfalt kerfi af því að stundum hafa stjórnarliðar sagt: Við getum ekki framlengt 25% hlutabótaleið af því að þá erum við að búa til tvöfalt kerfi, af því að þegar maður er á hlutabótaleið gengur maður ekki á atvinnutryggingarréttinn. En það er allt í lagi að hafa tvöfalt kerfi þegar kemur að þessu. Þetta er þvílíkt óréttlæti, herra forseti. En það gefst tækifæri til þess að leiðrétta þetta, bæði með því að samþykkja breytingartillögur Samfylkingarinnar útgjaldamegin og með því að samþykkja breytingartillögur á frumvarpinu sem kallað var inn til velferðarnefndar á milli 2. og 3. umr. sem fjallar einmitt um tekjutengda tímabilið þannig að eftir helgina getum við leiðrétt það óréttlæti sem stjórnarliðarnir virðast vilja smíða í lausnir sínar.

En það er annað sem er mjög alvarlegt í því sinnuleysi stjórnvalda gagnvart fólkinu sem ber þyngstu byrðarnar í heimsfaraldri. Þannig er að í október höfðu 3.614 atvinnuleitendur, hefðbundnir atvinnuleitendur, verið án vinnu í meira en 12 mánuði. Ef við berum þessar tölur saman við október í fyrra þá voru atvinnuleitendur í október 2019 alls 1.466. Þeim fjölgaði um 2.148 milli ára. Nú myndi einhver segja: Það er augljóst því að við glímum við heimsfaraldur og það er enga vinnu að fá. En samt sem áður neita stjórnarliðar að lengja tímabilið sem atvinnuleysisbætur eru greiddar, þeir sem eru núna að detta af atvinnuleysisbótum, sem eru rúmlega 100 manns á mánuði næstu mánuðina og þeim fer fjölgandi, þurfa að segja sig til sveitar. Þeir fá ekki lengur atvinnuleysisbætur og þeir þurfa að leita á náðir sveitarfélaganna eftir félagslegri aðstoð. Mér finnst þetta svo mikil grimmd og skilningsleysi og mér finnst þetta ómannúðlegt. Og sömu svörin fæ ég þegar ég spyr: Af hverju ekki? Af hverju lengjum við ekki tímabilið? Þá segja stjórnarliðar: Allar okkar aðgerðir eru Covid-aðgerðir. Já, fínt. Lenging á tímabilinu sem atvinnuleysisbætur eru greiddar er Covid-aðgerð vegna þess að fólkið fær enga vinnu af því að það er enga vinnu að fá í heimsfaraldri. Stjórnarliðar felldu í gær tillögur Samfylkingarinnar um að lengja þetta tímabil um ár.

Við munum aftur leggja fram þessa tillögu og segja: Jæja, þið vilduð ekki lengja það um ár. En hvað segið þið um sex mánuði? Það myndi strax muna um sex mánuði vegna þess að greiðslurnar sem fólkið getur fengið hjá félagsþjónustu eða félagsaðstoð sveitarfélaganna er um helmingi lægri en atvinnuleysisbætur. Og með því að lyfta ekki litla fingri til að aðstoða þetta fólk þá erum við að beina því beint í sárafátækt og í biðröð eftir matargjöfum. Mér finnst það svo skammarlegt, forseti. Það er ekki eins og þetta sé dýrasta aðgerðin sem þessi ríkisstjórn hefur gripið til. Því að ríkisstjórnin og við öll í þessum sal höfum nefnilega viðurkennt að fyrirtækin sem hafa orðið fyrir tekjufalli þurfi stuðning. Við höfum líka viðurkennt og erum með í vinnslu frumvarp um að veita viðspyrnustyrki á næsta ári fyrir lífvænleg fyrirtæki svo þau geti lifað af þessar hremmingar. En einhverra hluta vegna viðurkenna stjórnarliðar ekki að heimili fólksins sem misst hefur vinnuna hjá þessum sömu fyrirtækjum hafa einnig orðið fyrir miklu tekjufalli og þurfa viðspyrnu og í tugmilljarða styrkjum og aðstoð við fyrirtæki, sem eru nauðsynleg, og við höfum í flestum tilfellum verið sammála. Við höfum ekki fallist á að það væri góð hugmynd að styrkja fyrirtæki til að segja upp fólki í atvinnukreppu, enda hefur ekkert land farið þá leið nema við, en með öðrum aðgerðum sem eru til aðstoðar fyrirtækjum höfum við sannarlega staðið og greitt atkvæði.

Þetta eru tugir milljarða, en samkvæmt greiningum hefur fyrir utan bara réttindin sem launþegar og launafólk hafa unnið sér inn á vinnumarkaði, sem eru atvinnuleysisbætur, þá hafa 7 milljarðar farið aukalega til heimilanna. Það er alveg ljóst á þessum tölum, og þó að við horfum ekki nema bara á þær, að það er enginn skilningur á vanda heimilanna. En hins vegar vitum við, og margar rannsóknir sýna það, bæði hér á landi og erlendis, að það að glíma við langtímaatvinnuleysi er hættulegt. Það er hættulegt heilsunni. Það hefur miklar slæmar aukaverkanir, ekki bara fyrir þann sem missir vinnuna og er lengi atvinnulaus heldur líka fyrir alla aðra á heimilinu og ekki síst börnin. En einhverra hluta vegna virðist virðast stjórnarliðar ekki átta sig á þessu.

Eins og hv. þm. Guðjón S. Brjánsson fór svo ágætlega yfir áðan þá hefur Verslunarmannafélag Reykjavíkur, og ASÍ hefur tekið undir þær hugmyndir, komið með raunhæfar góðar hugmyndir um hvernig styðja megi heimilin með því sem Verslunarmannafélagið kallar stuðningslán. Á heimasíðu Verslunarmannafélags Reykjavíkur er ágætlega farið yfir það hvernig þetta mætti gerast. Mér finnst þetta góð hugmynd og ég er mjög hissa á að þetta skuli ekki vera a.m.k. í skoðun, fyrst stjórnvöld hafa fengið á þessu kynningu fyrir löngu síðan. Ég hef óskað eftir því við efnahags- og viðskiptanefnd að við fáum formann Verslunarmannafélags Reykjavíkur á fund þar sem hann fer yfir þessi mál. Ég held að það hljóti að vera einnar messu virði að kanna það hvernig hægt sé að koma til móts við tekjufall heimila og hjálpa þeim til að standa við skuldbindingar sínar og verða ekki fyrir varanlegum skaða.

Ég vona að stjórnarliðar átti sig og þau átti sig núna áður en við förum í jólaleyfi og að við getum minnsta kosti komið að þessu leyti til móts við fólk, til stuðnings við þau sem þurfa að bera þyngstu byrðarnar í þessum heimsfaraldri, þyngstu fjárhagslegu byrðarnar, því að auðvitað er svo annar hópur sem glímir við veikindin sjálf og eftirköst eftir veiruna. En fjárhagslegu byrðarnar eru hjá þeim sem misst hafa vinnuna.