151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[21:58]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (U):

Herra forseti. Hér hafa átt sér stað umræður um fjárlagafrumvarp sem er einstakt í sinni röð, lagt fram við einar verstu og dekkstu horfur í efnahagsmálum sem við höfum þurft að glíma við og við aðstæður þar sem atvinnuleysi er því miður í sögulegum hæðum og atvinnuleysistölur hafa ekki verið hærri um áratugaskeið. Alvarlegar aðstæður ríkja á vinnumarkaði og eru horfur gríðarlega dökkar, bæði fyrir veturinn og langt fram á næsta ár. Það er ljóst að efnahagsþrengingarnar sem við stöndum frammi fyrir vegna kórónuveirunnar munu bitna mismikið á þjóðfélagshópum. Um það vitna bæði innlendar rannsóknir og tölur sem og rannsóknir og varnaðarorð alþjóðastofnana. Má minna á grafalvarlega viðvörun frá David Malpass, bankastjóra Alþjóðabankans, en bankinn spáir að um 110–150 milljónir manna muni falla í sárafátækt árið 2021 sem afleiðing af efnahagskreppunni í kjölfar heimsfaraldursins. Það er óhugnanleg spá sem þjóðir heims verða að taka alvarlega og bregðast við af öllu afli.

Innlendar kannanir og rannsóknir sýna að Ísland er ekki undanþegið stórkostlegri hættu á að kreppan vegna Covid-19 geti aukið ójöfnuð og ýtt verulega undir félagslega einangrun ákveðinna samfélagshópa. Þrír hópar íslensks samfélags eru meira útsettir fyrir ójöfnuði en aðrir hópar vinnumarkaðarins og í meiri hættu en aðrir á að verða fátækt og sárafátækt að bráð. Þetta eru konur, fólk af erlendum uppruna og ungt fólk. Tölur sanna þetta, enda hefur orðið hrun í þeim atvinnugreinum þar sem þessir samfélagshópar eru fjölmennastir. Fólk af erlendum uppruna hefur verið afar stór hluti þeirra sem hafa mannað störf í ferðaþjónustu undanfarin ár en staða fólks í þeirri atvinnugrein hefur heldur betur snarversnað undanfarna mánuði.

Atvinnuþátttaka kvenna hefur líka dregist verulega saman vegna Covid-19 eins og tölur Hagstofunnar sýna. Konur hafa í meira mæli en karlar starfað við þjónustustörf en kreppan nú kemur einstaklega illa við þjónustugreinar. Að auki sýna innlendar rannsóknir að heimavinna hefur haft slæm áhrif á konur á vinnumarkaði. Þær eru líklegri en karlar sem vinna nú heima til að axla meiri ábyrgð á heimilisstörfunum sem kemur niður á framleiðni þeirra í þeim störfum sem þær inna af hendi í gegnum fjarfundabúnað og tölvur. Konur í fræðasamfélaginu hafa til að mynda skilað inn umtalsvert færri fræðigreinum í Covid-19 en karlar í fræðasamfélaginu. Ungt fólk er líka í viðkvæmari stöðu nú en áður. Þar skiptir máli hátt hlutfall ungs fólks í þjónustustörfum, eins og áður segir. Atvinnuleysistölur sýna líka mikinn mun á atvinnuleysi ungs fólks og þeirra eldri. Þessi þróun er enn einn vitnisburður um þróunina sem var í gangi löngu fyrir heimsfaraldur sem er sú að bæði tekju- og eignabil milli ungs fólks og hinna eldri hefur breikkað mikið. Ójöfnuður kynslóðanna heldur því miður áfram að aukast og Covid-19 verður vatn á myllu þeirrar óheillaþróunar.

Herra forseti. Ólíkt aðstæðunum sem ríktu á vinnumarkaði fyrir hrun íslensku bankanna haustið 2008 hafði atvinnuleysi farið vaxandi á síðasta ári, árið 2019, og langtímaatvinnulausum, þ.e. einstaklingum sem höfðu verið án atvinnu í meira en ár, hafði farið fjölgandi. Í byrjun árs, áður en útbreiðsla kórónuveiru hófst og sóttvarnaaðgerðir til að varna útbreiðslu hennar, voru um 10.000 einstaklingar atvinnulausir og um 1.800 manns flokkuðust sem langtímaatvinnulausir, höfðu verið atvinnulausir í meira en eitt ár. Í september sl. var þessi tala komin upp í 18.000 manns, sem höfðu enga atvinnu og þar af voru yfir 3.000 manns langtímaatvinnulausir. Á sama tíma hefur ungmennum sem hvorki eru með atvinnu né í námi fjölgað. Það er ljóst að mjög skýrra og ákveðinna aðgerða er þörf til að afstýra því að þetta atvinnuleysi leiði til enn frekari greiðsluvanda heimila, fátæktar og ójöfnuðar með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið.

Það er mikilvægt að hafa í huga að um 40% atvinnulausra eru erlent launafólk. Þessi hópur býr að stórum hluta í leiguhúsnæði og hefur ekki haft úrræði sambærileg við eigendur húsnæðis, til að mynda greiðsluhlé, og ekki á sama hátt notið góðs af lækkun vaxta á húsnæðislánum. Skilvirkasta leiðin til að styðja við atvinnuleitendur er með hækkun grunnbóta atvinnuleysistrygginga ásamt því að lengja bótatímabilið til að mæta fyrirséðri aukningu langtímaatvinnuleysis.

Frú forseti. Það verður að draga lærdóm af síðustu kreppu og neikvæðri reynslu þeirra þjóða sem réðust í niðurskurð og veikingu félagslegra innviða. Því gríðarlega efnahagsáfalli sem nú gengur yfir má ekki mæta með niðurskurði í rekstri hins opinbera. Fyrir það fyrsta þarf að bæta upp fyrir það 34 milljarða árlega tekjutap sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna ótímabundinna skattalækkana ríkisstjórnarinnar með því að afla tekna með öðrum hætti því að núverandi tekjugrunnur er því miður ekki sjálfbær.

Í öðru lagi er margt starfsfólki í opinberri þjónustu undir miklu álagi vegna heimsfaraldursins, og hafði áður en hann hófst verið undir miklu álagi vegna niðurskurðarkröfu og langvarandi aðhalds í kjölfar efnahagshrunsins fyrir rúmum áratug. Þarna er að sjálfsögðu um að ræða stórar stéttir heilbrigðisstarfsfólks, stórar kvennastéttir, sem höfðu fyrir heimsfaraldurinn verið að berjast fyrir betri kjörum, fyrir því að fá viðunandi laun fyrir sína vinnu og þurft að standa í ströngu til að fá viðunandi laun og viðurkenningu á sínum störfum.

Í þriðja lagi er mikil þjónustuþörf í heilbrigðis- og félagskerfinu vegna heimsfaraldursins og áhrifa hans á líkamlega og andlega heilsu almennings. Því þarf að styrkja öryggisnetin fremur en að ráðast í niðurskurð og aðhaldsaðgerðir sem munu dýpka og lengja kreppuna. Mæta verður samdrættinum með auknum ríkisútgjöldum þar sem svigrúm opinberra fjármála verði nýtt. Það kallar á afkomubætandi aðgerðir af hálfu stjórnvalda upp á 35–40 milljarða fyrir árin 2023–2025 og verði efnahagslegur bati hægari en samkvæmt núverandi forsendum yrði þörfin enn meiri og þá er raunveruleg hætta á að slík sviðsmynd raungerist. Velferð og grunnþjónustu má ekki nota sem afkomubætandi aðgerð í ríkisfjármálum og niðurgreiðsla skulda verður að vera til á forsendum kröftugrar viðspyrnu.

Frú forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að mótuð sé skýr stefna í atvinnumálum Íslendinga. Skýr stefna í atvinnumálum er mikilvægt skref til að styðja við efnahagsbata og mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir þegar mestu áskorununum vegna kórónuveirunnar linnir og rykið fer að setjast.

Frú forseti. Ríkissjóður verður fyrir verulegu tekjufalli í kjölfar efnahagslegra áhrifa útbreiðslu Covid-19. Þar kemur efnahagsástandið ekki eingöngu til heldur líka pólitískar ákvarðanir um að breyta skattkerfinu á þann veg að tekjur ríkisins verða 37,8 milljörðum kr. lægri á næsta ári. Þetta er hættumerki, því að skattkerfisbreytingar mega aldrei verða til þess að draga úr getu ríkissjóðs til að standa undir því sem hann á að standa undir, sem er okkar grunnkerfi, sem er velferðarkerfið, menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Sömuleiðis verður ríkissjóður á tímum sem þessum að geta staðið fyrir nauðsynlegri uppbyggingu og innspýtingu inn í samfélagsinnviðina okkar. Þess vegna tel ég að í staðinn verði, við þær aðstæður sem nú ríkja, að horfa til upptöku ofurlaunaskatts, hátekjuþreps á fjármagnstekjuskatti, auðlegðarskatts og sanngjarns afgjalds fyrir auðlindanýtingu ásamt því sjálfsagða verki sem er að stíga mun djarfari skref í svokölluðum grænum sköttum og grænum gjöldum á mengandi starfsemi. Þarna er færi fyrir ríkisvaldið að afla sér tekna á sanngjarnan og réttlátan hátt og búa í haginn fyrir komandi tíma og fyrir hið risavaxna verkefni sem loftslagsbreytingarnar eru. Við þurfum að mæta þeim með djörfum ákvörðunum.

Ég vil líka gagnrýna áform um breytingar á fjármagnstekjuskattinum sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu sem fela í sér lækkun á tekjum ríkissjóðs um 2,1 milljarð á ári. Það munar um minna, frú forseti. Skattalækkun til fjármagnseigenda á ekki að vera í forgangi við núverandi aðstæður. Verkefni stjórnvalda á fyrst og fremst að snúast um það að tryggja afkomu fólks og búa til störf, forða fólki frá því að falla í gildru sárafátæktar og langvarandi fátæktar.

Ég minni aftur á að það þarf að læra af reynslunni frá síðustu efnahagskreppu fyrir áratug. Þá var fólki gert kleift að mennta sig út úr kreppunni, út úr atvinnuleysinu sem var gríðarlega gott. En ekki var búið að þróa og skýra hvað átti svo að bíða fólks eftir að námi lyki og afraksturinn hefur því miður verið sá að atvinnuleysi hefur verið hvað mest í hópi háskólamenntaðra þar sem það skorti að greina og útfæra alvöruatvinnustefnu fyrir fólk með aukna menntun. Þrátt fyrir þetta, þessi varnaðarorð mín, langar mig að lýsa ánægju minni með að í fjárlögum má sjá aukin framlög til nýsköpunar, rannsókna og þróunar og til menntamála og að útgjöld til þessa málaflokks aukast um 62% frá gildandi fjárlögum. Það er mjög gott að sjá og sömuleiðis að sjá að það er metnaður hjá ríkisstjórninni til að auka rekstrarframlög til háskólastigsins sem aukast í takt við markmið stjórnvalda um að framlög til háskóla verði nær því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Framlög til málaflokksins aukast um 1,6 milljarða kr. og til viðbótar bætast verðlags- og launauppfærslur ofan á það. Það er vel, það er mjög gott.

En þegar við erum að leggja aukin fjárframlög inn í þá mikilvægu málaflokka sem nýsköpun, rannsóknir, þróun og menntamál eru þá er gríðarlega mikilvægt að búa til stefnu alla leið, atvinnustefnu fyrir ungt fólk, atvinnustefnu fyrir háskólamenntað fólk og í atvinnukreppu þarf að útfæra skýra atvinnustefnu. Við sjáum þetta líka í viðbrögðum annarra ríkja við Covid-19. Atvinnustefna Evrópuríkja er mjög skýr. Þar er niðurnegldur fjöldi þeirra starfa sem skapa á því að það er ein stærsta áskorun okkar að koma ungu fólki til starfa, það er að búa til verðmæt störf, búa til græn störf. Nú er lag, þetta þarf að tala saman. Við þurfum að greina þörfina og við verðum að greina hvert við viljum stýra fólki í sinni menntun og í hvaða störf það á að fara. Þarna þarf að vera skýrari stefnumótun.

Mig langar að minna á að í umsögn Alþýðusambands Íslands er bent á að Ísland sé eftirbátur flestra Evrópuríkja þegar kemur að því að móta hæfnisstefnu fyrir vinnumarkaðinn og spá fyrir um færniþörf á vinnumarkaði. Það gengur ekki upp að fyrir Covid-19 hafi atvinnuleysi í hópi háskólamenntaðra verið hvað mest hér á landi. En þarna getum við náð okkur í og notfært okkur reynslu annarra ríkja sem hafa sýnt fram á mikilvægi þess að fjárfesta í réttri menntun og réttri færni, ekki eingöngu á skólaaldri heldur líka yfir allan starfsaldur.

Mig langar líka aðeins að minnast á listir og menningu því að það eru vonbrigði að ekki bólar á fjármagni í fjárlagafrumvarpinu til að nýta tækifærið, þegar við þurfum á skapandi atvinnutækifærum að halda, til að hefjast handa við að finna lausn á þeim húsnæðisvanda sem hefur háð starfsemi Listaháskólans frá stofnun hans. Í umsögn Bandalags íslenskra listamanna er einmitt minnt á þessa kröfu sem er orðin áragömul og nú er lag. Listaháskóli Íslands gegnir lykilhlutverki í uppbyggingu þess atvinnulífs sem ríkisstjórnin hefur lýst yfir að sé framtíðarsýn hennar, atvinnulífs sem byggir einmitt á nýsköpun og skapandi greinum. Því er mikilvægt að koma Listaháskólanum í viðunandi húsnæði. Það væri eitthvað sem væri gott að gera núna. Sömuleiðis langar mig að taka undir það sem fram kemur í umsögn Bandalags íslenskra listamanna um mikilvægi þess að greina fjármagn og áætlun um að skoða lausnir og úrræði fyrir listamenn til að klára reglulega skráningu hagvísa skapandi greina. Við sjáum að Þýskaland gerði þetta t.d. með miklum myndarbrag til að bregðast við Covid þannig að þarna er lag.

Mig langar líka til þess, af því að tíminn hleypur frá manni þótt ótrúlegt sé, að fagna og taka undir umsögn BSRB við fjárlögin þar sem kveðið er á um kynjasjónarmiðin. Alvarlegustu athugasemdir Bandalags starfsmanna ríkis og bæja við fjárfestingar- og uppbyggingarátakið lúta að kynjaáhrifum. Í þeirri umsögn er kveðið fast að orði. Þar er talað um að aukin framlög í samkeppnissjóði muni gagnast körlum frekar en konum. 85% þeirra starfa sem skapast við framkvæmd fjárfestingarátaksins eru karlastörf. Því mun átakið auka á kynjamisrétti eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu. Auðvitað tek ég undir það sem BSRB segir í umsögn sinni, þ.e. að atvinnuleysi kvenna hafi verið heldur meira en karla í september, eða 10% samanborið við 9,7%, og þá hafi atvinnuleysi kvenna einnig aukist hraðar en karla vegna áhrifa heimsfaraldursins, enda séu konur að meiri hluta starfandi í þeim atvinnugreinum sem verst hafi orðið úti. Það er ansi harður dómur sem fjárfestingar- og uppbyggingarátak ríkisstjórnarinnar fær af hálfu BSRB sem er falleinkunn út frá jafnréttissjónarmiðum. Á sama tíma er aðhaldskrafan enn til staðar þar sem konur starfa í meiri hluta, sem er í opinberri þjónustu, þjónustu við börn, aldraða og sjúka og vegna sóttvarnaaðgerða. Ég vona að hv. fjárlaganefnd geti tekið þetta til skoðunar og vonandi breytt með einhverjum hætti. Við horfum líka upp á það að þriðjungur kvenna á vinnumarkaði er í hlutastarfi vegna umönnunarábyrgðar gagnvart börnum og fjölskyldumeðlimum. Konur eru líklegri til að veikjast vegna álags í starfi sem stafar af starfsaðstæðum þeirra, einkum í umönnun og kennslu. Þar fyrir utan eru þær almennt með lægstu laun allra á vinnumarkaði, í þessum starfsgreinum.

Síðan er það nýgengi örorku. Þar hefur umræðan hverfst mikið um nýgengi örorku ungra karla en tölur um nýgengi örorku hafa verið ansi skakkar og því skekkt þá umræðu. Raunin er sú að konur yfir fimmtugu eru líklegri en allir aðrir til að vera metnar til örorku vegna þess álags sem þær hafa þurft að axla, bæði fyrir kórónuveiruna og í því ástandi sem nú er. Ég beini þessum orðum mínum til formanns hv. fjárlaganefndar sem hér er kominn í salinn og ég veit að hann mun taka þetta til sín.

Frú forseti. Það sem við þurfum að gera hér, til að bregðast við kreppu á borð við þá sem við erum að verða fyrir og höfum orðið fyrir nú þegar, er að verja jaðarhópana sérstaklega fyrir þessum hræðilega erfiðu efnahagsviðbrögðum kreppunnar. Annars verða kreppuviðbrögðin markvisst tæki til að auka innbyggða mismunun kerfisins sem er nákvæmlega það sem við erum að sjá raungerast hér á landi. Við sjáum tölur frá Suðurnesjunum og hér á höfuðborgarsvæðinu og líka frá sveitarfélögum sem hafa þurft að reiða sig gríðarlega á ferðaþjónustuna sem hefur algerlega hrunið. (Forseti hringir.) Það er þvert á það sem helsti hagfræðingur heims undanfarin ár, Thomas Piketty, hefur lagt til og fleiri málsmetandi hagfræðingar. (Forseti hringir.) Ég treysti því að við horfum til framtíðar og eflum hér góð og græn störf, að við verjumst aukinni fátækt fólks og komum í veg fyrir aukinn ójöfnuð (Forseti hringir.) og vinnum gegn loftslagsbreytingum í leiðinni. Það munum við þurfa að sameinast um.