151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[22:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Frú forseti. Fyrst vegna atriða sem ég nefndi í minni fyrri ræðu sem ég bað hv. fjárlaganefnd að skoða á milli umræðna, vil ég bara til öryggis óska þess formlega að málið verði tekið til nefndar milli 2. og 3. umr. En mig langar í þessari síðari ræðu minni að gera örstutt grein fyrir breytingartillögu sem ég legg fram við fjárlagafrumvarpið. Hún snýst um það að hafa tíðavörur ókeypis fyrir þau sem á þurfa að halda. Tillögur um að tíðavörur séu aðgengilegar ungu fólki án endurgjalds hafa ítrekað verið lagðar fram af t.d. ungmennaráðum sveitarfélaga á fundum með sveitarstjórnum og undantekningarlítið verið tekið mjög vel í þær en einhverra hluta vegna virðist aldrei verða mikið úr framkvæmdinni á þessu sjálfsagða sanngirnismáli því alltaf kallar eitthvað á ítarlegri skoðun og svo bara gerist ekki neitt.

Í haust var skorað á Alþingi að fella niður skatta á tíðavörum og að ungu fólki yrði boðið upp á fríar tíðavörur í skólum og félagsmiðstöðvum. Með þessu sögðu Anna María Sonde og Saga María Sæþórsdóttir, sem skrifuðu umsögn þess efnis, að það mætti á sama tíma standa með einstaklingum með leg og vera til fyrirmyndar fyrir önnur lönd. Síðan hefur reyndar annað land tekið fram úr okkur. Það gerðist núna í haust þegar skoska þingið samþykkti að lögfesta rétt þeirra sem á þurfa að halda til að nálgast ókeypis tíðavörur. Þær Anna og Saga mættu á fund efnahags- og viðskiptanefndar í tengslum við fjárlagavinnuna og fengu góðar viðtökur þar. Ég held að þeirra hafi verið getið í flestum nefndarálitum sem komu við tekjubandorm í síðustu viku. En þegar upp er staðið þá sögðust fulltrúar í nefndinni almennt hafa ríkan skilning á hugmyndinni um afnám virðisaukaskatts af tíðavörum en að það krefðist ítarlegri skoðunar. Á mánudaginn var samþykkti Alþingi lög um skatta og gjöld með breytingartillögum þar sem ekki var hreyft við skatti á tíðavörum. Hin nefndin sem Anna og Saga skoruðu á var fjárlaganefnd sem hefði einmitt getað fundið fjármagn til að tryggja aðgengi, líkt og þær lögðu til, að ókeypis tíðavörum á stöðum þar sem ungt fólk er líklegast til að vera og jafnvel líklegast til að lenda í vandræðum ef blæðingar hefjast fyrirvaralítið. Nú eru komnar fram breytingartillögur meiri hluta og minni hluta við fjárlagafrumvarpið og ekki eru lagðar til breytingar í þessa átt.

Ég hef þess vegna lagt fram breytingartillögu sjálfur um ókeypis tíðavörur sem býður okkur upp á að taka einfaldlega afstöðu til þessa máls hér í þingsal. Tillagan snýst um að Ísland taki upp svipað kerfi og Skotar. Við erum að tala um tvo hópa, annars vegar verði tíðavörur aðgengilegar í grunn- og framhaldsskólum og hins vegar geti fólk með lágar tekjur nálgast þær ókeypis í gegnum opinberan aðila. Útfærslan verður sett í hendur heilbrigðisráðherra í samstarfi við aðra ráðherra, t.d. ráðherra menntamála, eða sveitarfélög þar sem við á, þannig að framkvæmdin verði sem liprust. Til að slá á kostnaðinn við að taka upp þetta skoska kerfi fyrir ókeypis tíðavörur setti ég upp grófa áætlun, einfalt reikningsdæmi, sem myndi væntanlega duga ágætlega og það þyrfti síðan að sjá hvað það myndi drífa. Fyrri hópurinn er sem sagt fólk á aldrinum 13–19 ára, þ.e. fólk í eldri bekkjum grunnskóla og upp í framhaldsskólann. 50% af íbúum landsins á þeim aldri telja 15.500 manns. Svo er hópur tvö, þar miða ég við fólk á aldrinum 20–45 ára og með hliðsjón af lágtekjuhlutfalli, eins og Hagstofan mælir það, er hlutfallstalan 5% þar sem ég lenti. Það er væntanlega sá hluti fólks á þessum aldri sem er undir lágtekjumörkum og er líklegt til að fara á túr. Í þeim hópi værum við að tala um á að giska 7.000 einstaklinga. Nákvæm útfærsla á þessu væri síðan eðlilega í höndum ráðherra. Samtals eru þetta 22.500 einstaklingar og ef við miðum við 1.000 kr. í tíðavörur á mánuði er hægt að rúnna kostnaðinn upp í 280 milljónir. Tillagan felur í sér að bæta þeirri upphæð við fjárlög.

Ég held að fólki almennt þyki 280 milljónir dálítið há upphæð, venjulegu fólki sem ekki er að tala um þúsundir milljóna dagsdaglega, en við sem vinnum með fjárlög þessa dagana áttum okkur á því að 280 milljónir er auðvelt skref að stíga ef það snýst um eitthvert grundvallarmál. Þetta er t.d. sama upphæð og meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði til í byrjun vikunnar að hækka sóknargjöld um og það vakti ekki hörð viðbrögð frá þeim sem treystu sér til að styðja þann útgjaldaauka. Ég bind því miklar vonir við að hv. þingmenn taki vel í tillöguna og styðji það að við stígum þetta skref til að tryggja þeim sem þurfa aðgang að þessari nauðsynjavöru og að ein af afleiðingunum af samþykkt breytingartillögunnar verði að aðgengi að tíðavörum verði jafn auðvelt og aðgengi að klósettpappír í skólum og frístundamiðstöðvum.