151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:23]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Hér er lögð fram tillaga um tímabundna lækkun á virðisaukaskatti til veitingageirans, að virðisaukaskattur sem þeim er gert að standa skil á lækki úr 11% í 6% í eitt ár. Ekki þarf að fjölyrða um það að veitingageirinn hefur orðið fyrir gríðarlega miklu höggi og er óhætt að segja að þar hafi margt hjálpast að; ferðamenn auðvitað horfnir og víðtækar sóttvarnaráðstafanir sem hafa bitnað sérlega illa á þessum geira. Þetta er einföld aðgerð. Þetta er skjótvirk aðgerð. Hún hróflar ekki við neinu kerfi. Hún er einföld í framkvæmd og mun hjálpa þessum fyrirtækjum að ná margumtalaðri viðspyrnu þegar birta tekur til, vonandi á fyrri hluta næsta árs.