151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:24]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Við erum stödd í miðri djúpri atvinnukreppu og hún kallar á frekari aðgerðir fyrir fyrirtæki í landinu. Hér er um að ræða tillögu sem felur í sér skynsamlega, tímabundna lækkun tryggingagjalds þannig að árið 2021 verði tryggingagjaldslaust hjá einyrkjum og smáfyrirtækjum en skili líka töluverðu til annarra fyrirtækja í landinu. Þessi lækkun myndi ýta undir fjölgun starfa, létta undir með viðspyrnunni og hvetja okkur öll áfram en hún myndi líka stuðla að auknu jafnræði og líflegri samkeppni og koma í veg fyrir hættuna á samþjöppun í kreppu. Ég hvet þess vegna þingheim til að styðja þessa aðgerð og hjálpa smæstu fyrirtækjum okkar af stað á nýju ári.