151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[14:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er röð breytingartillagna um svipað mál, þ.e. að þurrka út halla Landspítala – háskólasjúkrahúss. Þetta er lægsta tillagan og sú hófsamasta hvað það varðar því að við stillum þessu upp varðandi umfang. Þetta er sá halli sem er eftir af þeim uppsafnaða halla sem varð til á árunum 2018–2019. Það ætti a.m.k. að þurrka upp þann halla því að hann varð til vegna mönnunarvanda, vegna launavanda, vegna vanreiknaðra kjarasamninga. Sá vandi er ekki Landspítala – háskólasjúkrahúsi að kenna á nokkurn hátt heldur einfaldlega galli í fjárheimildum frá Alþingi. Það ætti því að vera auðvelt að samþykkja alla vega þessa breytingu.