151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[14:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Heilbrigðisstofnanirnar úti um landið fóru margar hverjar í vanda inn í heimsfaraldurinn og ekki síst þær stofnanir sem starfa á vaxtarsvæðum þar sem íbúafjölgun hefur verið mikil á undanförnum árum. Svo bætast við vandamálin sem tengjast Covid og mikið atvinnuleysi og því fylgir álag á heilbrigðisstofnanirnar. Ég get nefnt Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem atvinnuleysi er mikið og íbúafjölgun hafði verið mikil áður en heimsfaraldurinn gekk yfir. Hægt er að nefna fleiri stofnanir eins og Heilbrigðisstofnun Suðurlands og víðar um landið. Þess vegna er þetta framlag, 1 milljarður, til að styrkja þessar stofnanir, til að heilbrigðisþjónustan verði góð úti um allt land og við alla, svo mikilvægt. Ég hvet ykkur til að skipta um skoðun og ýta á græna hnappinn.