151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[16:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Það gerðist hér í atkvæðagreiðslunni fyrr í dag að þingmaður kom upp undir röngum efnislið en nú ætla ég að gera það viljandi og biðst afsökunar á því fyrir fram. Þannig hagar til að þar sem ekki er hægt að ræða frekar um atkvæðagreiðsluna langar mig til að benda hæstv. forseta á þær vangaveltur sem hafa komið upp og snúa að næsta lið sem eru heiðurslaun listamanna. Til að gefa hæstv. forseta svolítið svigrúm til að velta vöngum um það er hér verið að greiða atkvæði um að staðfesta heiðurslaun til 25 listamanna. Þarna koma inn tveir nýir listamenn, Friðrik Þór Friðriksson og Jón Ásgeirsson, miklir öðlingar og snillingar báðir tveir. Það sem mig langaði að velta upp við forseta er hvort ástæða sé til að greiða atkvæði um hvern þessara aðila, sérstaklega í ljósi nýfallins dóms (Forseti hringir.) Mannréttindadómstóls Evrópu þó að mögulega séu þar önnur sjónarmið til grundvallar ákvörðun í þeim efnum.