151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

20. mál
[14:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sú atkvæðagreiðsla sem við erum að fara í núna skiptir alveg ótrúlega miklu máli. Alþingi má vera stolt af þessu skrefi sem snýst um að auka mannréttindi fólks. Það snýst líka um það að færa Ísland ofar á regnbogakortinu sem snýst um að kortleggja stöðu hinsegin fólks í heiminum. Vegna þess að ég hef fylgst með þessu máli álengdar á kjörtímabilinu, ég þekki það frá fyrri tíð, vil ég segja það hér að allsherjar- og menntamálanefnd hefur unnið afar vel að þessu máli. Hún hefur unnið vandaða og góða vinnu í vandmeðförnum og viðkvæmum málaflokki. Þetta er gríðarlega mikilvæg réttarbót fyrir þann hóp sem um ræðir og sérstaklega þann hóp fólks sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni og rétt þess fólks yfir eigin líkama.