151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

397. mál
[18:29]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M):

Virðulegur forseti. Mig langaði bara sem flutningsmaður tillögunnar að kom upp við lok umræðunnar og þakka fyrir prýðisgóða umræðu og innlegg. Það er rétt að halda því til haga að málið allt gengur út á það að auka frelsi þeirra sem greiða svokallað nefgjald sem Ríkisútvarpið situr eitt að í dag. Ég held að hér sé komin lausn sem leysir á einu bretti það vandamál sem hefur verið kastað á milli stjórnarflokkanna og í pólitíkinni um langa hríð, hvernig eigi að styðja við einkareknu fjölmiðlana á sama tíma og það tekst með þessu að jafna stöðu einkareknu fjölmiðlanna samanborið við ríkisrekna miðilinn.

Lagt er til að það sé þriðjungur sem gjaldendur fái að ráðstafa sjálfir. Þriðjungur af gjaldinu eru rúmir 1,5 milljarðar. Það er auðvitað sennilega aldrei þannig að allir velji að ráðstafa þessu með öðrum hætti en er í dag. Ef við gefum okkur að um helmingur gjaldenda nýti sér það þá eru þetta kannski 800 millj. kr. á ári, eitthvað svoleiðis, en fjölmiðlafrumvarpið er að vinna með tölu upp á 400 millj. kr., um það bil. Ég held að við séum með þessum hætti búnir að stíga með meira afli inn í það að styðja við einkareknu miðlana, innlenda fréttavinnslu og fréttaöflun og innlenda dagskrárgerð. Ég vil því bara hvetja þingheim allan til að taka þessari tillögu vel og ég vona að umræðan í allsherjar- og menntamálanefnd verði góð.

Ýmsir munu eflaust vilja ráðstafa hluta af sínu gjaldi til Morgunblaðsins eða Fréttablaðsins, aðrir til DV eða Stundarinnar og enn aðrir til fotbolti.net eða einhvers annars íþróttamiðils, svo að dæmi séu tekin. Einhverjir munu vilja styðja við héraðsfréttamiðlana sína. Í norðvesturkjördæmi gætu þar komið til Skessuhorn, svo Bæjarins bestu, Feykir, Skagafréttir, Jökull og Húnahornið svo að nokkur séu nefnd. Ég held að mjög margt jákvætt náist fram með því að leyfa einstaklingum og gjaldendum öllum að ráðstafa þessu gjaldi að hluta til sjálfir. Það setur líka aðhald á hið alltumlykjandi Ríkisútvarp, að það gæti hlutleysis og sinni störfum sínum af samviskusemi, bara rétt eins og lög kveða á um. En ég ætla ekki að lengja þessa umræðu núna. Ég bara vona að málið fái jákvæðar og góðar undirtektir. Við í þingflokki Miðflokksins sláum margar flugur í einu höggi með þessari tillögu okkar.

Það er kannski eitt atriði sérstaklega sem mig langar til að halda til haga í lokin. Eflaust munu einhverjir hugsa: Ja, hvað er þá því til fyrirstöðu að það verði bara bætt í úr ríkissjóði þeim upphæðum sem gjaldendur ákveða að ráðstafa til annarra einkamiðla? Það er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu. Það er ekki markmiðið með þessari tillögu en það eru önnur mál sem þurfa að koma til sjálfstæðrar skoðunar burt séð frá þessu, það er vera Ríkisútvarpsins og fyrirferð Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og það er t.d. hvort ekki væri rétt að endurskoða reglur um virðisauka, til að mynda af áskriftum frjálsra fjölmiðla. Ættum við að skoða þætti sem snúa að skattlagningu auglýsingatekna o.s.frv.? Getum við unnið eitthvað með tryggingagjald starfsmanna? Eins og við þekkjum er launahlutfall af rekstrarkostnaði auðvitað mjög hátt hjá fjölmiðlum.

Það að þetta mál klárist og verði afgreitt með þessum hætti fríar þingheim ekki frá því að taka umræðuna um stöðuna á auglýsingamarkaði og síðan aðra þá þætti sem geta stutt við innlenda fjölmiðlun og fréttaöflun með áherslu á að styðja við einkareknu miðlana, bæði hvað fréttavinnslu og -öflun varðar og almenna dagskrárgerð.

Að endingu þakka ég fyrir góðar umræður og óska þessari þingsályktunartillögu okkar í Miðflokknum alls hins besta.