151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

271. mál
[20:09]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir framsöguna og fyrir að leggja fram þetta áhugaverða mál. Þingmaðurinn er naskur á að leggja fram mál sem snerta í rauninni svolítið við fólki og fá það til að hugsa: Bíddu, þurfum við virkilega að gera hlutina eins og við höfum alltaf gert þá? Það er sérlega virðingarvert að taka upp mál með þeim hætti sem þingmaðurinn gerir. Ég fagna því og held að hugsunin í þessu frumvarpi sé góð, þ.e. að fara töluvert meira í frjálsræðisátt en er núna. Ég tek undir það með þingmanninum.

Það sem mér finnst vanta og langar að spyrja um er hvort þingmanninum finnist nóg að allt eftirlit og öll umsýsla eða skráning jafnvel, ef hægt er að orða það þannig, sé bara í reglugerð. Eins og þingmaðurinn leggur til að 4. mgr. 7. gr. laganna orðist þá rúmast býsna víður rammi innan reglugerðarheimildarinnar án þess að sagt sé mikið um það nákvæmlega hvernig eigi að gera hlutina. Ég velti því fyrir mér hvort þingmaðurinn hafi hugsað það eitthvað frekar eða sé kannski meira að fiska eftir því að þau atriði verði reifuð í nefndinni og skoðað með hvaða hætti sé hægt að gera það.