151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

271. mál
[20:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Ég er einn af meðflutningsmönnum hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur á þessu máli þannig að það skal kannski engan að undra að ég er nokkuð jákvæður í garð þess. Þetta er, eins og hefur verið nefnt hérna í umræðunni, mál sem snertir okkur öll af því að jú, við deyjum öll um síðir. Við höfum held ég flest velt því fyrir okkur hvað við viljum að taki við jarðnesku leifunum sem við skiljum eftir okkur. Þetta frumvarp breytir ákvæðum sem voru ögn umdeild þegar þau komu inn í lögin fyrir 20 árum. Það var ekki stór hópur þingmanna sem fetti fingur út í það að setja inn heimild til dreifingar ösku en þó var einn þingmaður sem sagðist reyndar ekki vilja vitna til Eyrbyggju þar sem því er lýst hvernig aska af látinni manneskju fór í bæjarlækinn og kýrin sem gekk með kálfinn drakk öskuna og úr varð síðan nautið Glæsir. Það eru því ýmis sjónarmið í þessum málum.

Ég hef alltaf litið á þetta sem spurningu um það hvernig líkamar okkar geta sem fyrst orðið hluti af náttúrulegu hringrásinni sem við erum hluti af. Það að brenna jarðneskar leifar og dreifa þeim út í náttúruna er skjótvirkasta aðferðin til þess. Þegar ég hóf þingmennsku á sama tíma og hv. fyrsti flutningsmaður þessa máls þá kíkti ég einmitt á lögin sem við erum hér að tala um að breyta og fannst þessi grein, eins og hv. þingmaður kom inn á í flutningsræðu sinni, um dreifingu ösku dálítið skrýtin. Ýmsir varnaglar eru slegnir í henni sem er ekki augljóst af hverju eiga endilega að vera. Ég lagði því fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra á 149. þingi til að sjá hvernig þróunin hefur verið, hvernig hlutfall bálfara hefur þróast á síðustu árum og hversu oft sótt er um dreifingu ösku. Í rauninni kom þrennt í ljós, þrjú aðalatriði, í svari dómsmálaráðherra. Í fyrsta lagi fór hlutfall bálfara af útförum þeirra sem létust á árunum 2013–2017 stöðugt vaxandi, fór úr 28% og upp í 35%. Það ætti í rauninni að vera markmið að ná þessu hlutfalli sem hæstu vegna þess, sem komið hefur verið inn á í umræðunni, að kerfi kirkjugarða eins og þeir hafa verið skipulagðir síðustu áratugi gengur ekki upp til lengdar. Við viljum hafa minningarreitina sem kirkjugarðar eru nálægt eftirlifendum en erum núna í þeirri stöðu að garður uppi í Grafarvogi nægir ekki lengur fyrir höfuðborgarsvæðið. Það þarf að fara upp í Úlfarsárdal og hann á að duga í einhverja áratugi og þá þarf að fara enn lengra út fyrir þungamiðju byggðarinnar og þar með verður lengra fyrir eftirlifendur að fara til að minnast hinna látnu.

Annað atriði sem kom fram í svari ráðherrans, og var óvænt, var hversu hátt hlutfall umsókna um öskudreifingu var frá erlendum ríkisborgurum. Aðdráttarafl Íslands sem ferðamannalands nær sem sagt út fyrir gröf og dauða. Raunin er sú að tugir umsókna hafa borist frá fólki sem hefur jafnvel aldrei komið til landsins en vill þegar þar að kemur, eftir að hafa séð myndir af Íslandi, dvelja hér til eilífðarnóns. Ég held að okkur megi þykja dálítið vænt um að fólk vilji ferðast hingað hina hinstu ferð og vera með okkur að eilífu. Eitt dæmi sem ég heyrði af þessu snerti björgunarsveit úti á landi sem fékk upphringingu frá lögmanni frekar auðugs manns sem hafði fallið frá sem átti sér þá hinstu ósk að vera dreift yfir ákveðinn fjallstind á Íslandi. Lögmaðurinn hafði milligöngu um að björgunarsveitin fór með ösku hins látna upp á fjallstindinn og dreifði henni þar yfir á fallegum degi. Og ef ekkert annað þá gæti þetta verið fjáröflunarleið fyrir björgunarsveitir þegar þær hætta að geta selt flugelda.

Þriðja atriðið sem kom í ljós í svari hæstv. dómsmálaráðherra, sem bendir okkur kannski einna helst á það hversu brýnt er að breyta lögunum var það sem sagði þar, með leyfi forseta:

„Nánari skýringu á hugtökunum öræfi og óbyggðir er ekki að finna í lögum eða reglugerð um öskudreifingu en stuðst er við almenna málvenju.“

Það er rosalega sjaldan sem við sjáum löggjöf þar sem er einfaldlega stuðst við almenna málvenju um skilgreiningu á hlutum og ekki alltaf til eftirbreytni vegna þess að hugmyndin í lögunum, þegar þau voru sett fyrir 20 árum, var að öskudreifingin væri fjarri byggð og hún snerti ekki neysluvatn eða hvað það er vegna áhyggja sem fólk kann að hafa af hollustuháttum og mengunarvörnum. En fyrir vikið þarf starfsmaðurinn sem tekur við umsókn um öskudreifingu að taka matskennda ákvörðun um það hvort tiltekinn staður uppfyllir þau skilyrði eða ekki, á meðan staðirnir eru væntanlega mjög margir sem geta nokkuð hættulaust tekið við ösku. Þetta er ekki eitur, þetta er lífrænt efni, aðallega kalksambönd. Það er kannski ekki gott að dreifa of mikilli ösku á fótboltavelli eins og dæmin sanna, en að öðru leyti rennur þetta bara beinustu leið út í hringrásina.

Síðan er vandi við lögin að þeim er oft ekki fylgt. Við þekkjum örugglega öll einhverjar sögur eins og söguna af fjallageitinni sem dó og var brennd og afkomendurnir tóku sumarið í að ferðast um landið og dreifa hluta af öskunni yfir alla tindana sem viðkomandi elskaði. Það getur verið hluti af sorgarferlinu, hluti af því að heiðra minningu viðkomandi, en lögin leyfa ekki að ösku sé dreift á fleiri en einum stað. Af hverju ekki? Af hverju þarf að láta eins og að jarðneskar leifar þurfi að vera á einum og sama staðnum þegar þær hverfa bara í næstu rigningu út í umhverfið?

Mér datt þetta líka í hug þegar umræðan hér áðan fór að snúast um legstaðaskrá og mikilvægi þess að staðsetningin væri þekkt. Þarf það? Af hverju? Staðsetning hvers? Staðsetning á hefðbundnum legstöðum er skráð vegna þess að þar er eitthvað. En ári eftir að ösku hefur verið dreift yfir fjallstind er þar ekkert eftir af þeim jarðnesku leifum. Þannig að ég skil ekki alveg hvað það er sem við ættum að rembast við að skrá. Hins vegar er mjög mikilvægt að útfæra, eins og rætt hefur verið hér, einhvern minningarstað, einhvern punkt sem fólk getur sótt heim til að minnast hins látna. Það getur alveg eins verið sumarbústaður við rót fjallsins þar sem öskunni dreift á toppnum. Það getur verið hvað sem er. Minning er eitthvað sem fólk hefur á eigin forsendum. Það er tilfinning sem fólk er að vinna með þar.

Svo þurfum við kannski að skoða þetta mál í samhengi við stærri umræðu. Hér nefndi hv. þm. Guðjón Brjánsson flatarmál kirkjugarða og við þyrftum kannski við gott tækifæri að ræða það hversu varanlegir kirkjugarðar eru og óbreytanlegir. Það er eðlilegt að viðhafa ákveðna íhaldssemi þegar kemur að kirkjugörðum sem hinsta hvílustað ástvina. En vegna þess að Víkurgarður var nefndur, sem er hér handan við hornið, er ágætt að minnast þess að á þeim örlitla reit voru Reykvíkingar grafnir í tíu aldir. Ef einhverjar leifar hefðu verið eftir af fyrstu jarðnesku leifunum sem þar var komið fyrir hefði verið búið að stafla þarna ansi mörgum hæðum af fólki. Hins vegar eru kirkjugarðar 20. aldarinnar á höfuðborgarsvæðinu allir á breiddina. Þeir eru stórir vegna þess að þar eru teknar grafir og almennt eru þær ekki nýttar aftur. Eitthvað er farið að gera af því í Suðurgötugarði að grafa aftur í elstu grafirnar, kannski sérstaklega duftker ástvina þeirra sem þar hvíla fyrir. En þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða miklu meira til að geta haldið jarðneskum leifum ástvina okkar áfram í samfélagi við okkur sem lifum til þess að við getum heimsótt þá, minnst þeirra, kynnt afkomendur þeirra fyrir ömmu og afa sem þau hafa aldrei séð, bara með því að heimsækja minningarstaðinn og ræða um viðkomandi.

Þar að auki þurfum við, held ég, að bjóða upp á stóraukningu í því að fólk láti dreifa jarðneskum leifum sínum á þeim stöðum sem það elskar og eru hluti af þeirra persónu og geta þar með orðið hluti af minningunni sem fólk rifjar upp með reglubundnum hætti með því að fara að fjallinu sem amma elskaði og lét dreifa sér yfir og hugsa til hennar þar.

Út af öllu þessu þá vona ég að allsherjar- og menntamálanefnd gangi sem best að vinna úr þessu góða frumvarpi og að á næstu árum fáum við fleiri frumvörp af þessu tagi sem breyta því aðeins hvernig fólk getur komið sér fyrir þegar það hættir að lifa.