151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

271. mál
[20:48]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna því máli sem við ræðum hér í kvöld. Eins og sést á meðflutningsmönnum frumvarpsins er það nokkuð þverpólitískt, sem er mjög ánægjulegt. Ég tel að við tölum ekki nógu oft um dauðann. Við hræðumst og forðumst samtalið hvert við annað og ekki síst við börn þegar það er einmitt mikilvægt að við eigum þetta samtal og upplýsum börn um þá óumflýjanlegu staðreynd lífsins sem dauðinn er. Það er réttur barna að vera upplýst um dauðann rétt eins og um lífið, enda getur það skipt máli þegar börn upplifa missi að þau viti hvað er að gerast, hafi vitneskju um þennan atburð sem er algengur og óumflýjanlegur.

Við missum flestöll einhvern ástvin á lífsleiðinni. Fullvissan og vitneskjan um dauðann gefur lífinu líka gildi. Dauðinn rammar lífið inn og undirstrikar mikilvægi þess og dýrmæti. Vitneskjan um dauðann minnir okkur á hverfulleika lífsins og á það að tíminn er takmörkuð auðlind fyrir okkur öll. En jafnvel þegar okkar eigin tími er á þrotum heldur hann áfram að líða, að okkur látnum. Eftirlifendur okkar lifa áfram og eiga minninguna að.

Núna í Covid var almenningur hvattur til þess að eiga samtal um dauðann við sína nánustu, hvattur til að eiga opið samtal um það hverjar óskir þeirra væru þegar ekki væri hægt að spyrja þá lengur og þeir ekki til staðar til þess að svara eða lýsa yfir óskum sínum að jarðlífi loknu.

Forseti. Þann 8. apríl síðastliðinn birtu fjórir læknar og hjúkrunarfræðingar á vef Landspítalans ráðleggingar til almennings um mikilvægi innihaldsríks samtals á erfiðum stundum, ekki síst á tímum eins og þessum, í Covid-19 faraldrinum, með leyfi forseta:

„Miklu skiptir að fólk ræði við sína nánustu áður en það verður mjög veikt um hvernig aðstæður það geti ekki lifað við og hvernig það myndi vilja deyja.“

Eitt besta ráðið til þess að létta á áhyggjum getur einmitt verið að ræða um þær opinskátt.

Við ræðum oft og tíðum í þingsal um yfirráð yfir eigin líkama og virðingu fyrir óskum og persónulegri ákvarðanatöku einstaklingsins, okkar sem lifandi erum. Við ræðum og leggjum áherslu á mikilvægi frelsisins, einstaklingsfrelsisins, sem þó má ekki vera á kostnað frelsis, lífs og heilsu annarra. Þessi umræða er ekki síður viðeigandi þegar kemur að líkama hins látna. Eins og áður segir fagna ég því að verið sé að útvíkka umræðuna um dauðann í stjórnmálunum á Alþingi og dýpka hana, eins og þetta mál gerir svo sannarlega.

Persónuleg ákvarðanataka og virðing fyrir ákvarðanatöku einstaklingsins er, eins og áður segir, algengt málefni í þingsal og opinber íhlutun í slík persónuleg mál er almennt ekki af hinu góða. Forðast ber stífan lagaramma í kringum persónulegar ákvarðanir er varða líf og dauða. Kveðjuathafnir eru í langflestum tilfellum mikilvægur þáttur í sorgarferli. Það getur verið mikilvægur þáttur í úrvinnslu sorgar að óskir hafi verið ræddar fyrir fram og að þær óskir sé svo hægt að uppfyllta, að hægt sé að kveðja ástvin, þann einstakling sem fallinn er frá, með þeim hætti að það endurspegli sál hans og persónuleika. Þetta mál, sem snýr að því að dreifa ösku þar sem sá látni hefur jafnvel óskað eftir að verði gert eða þar sem fjölskyldan eða aðstandendur telja við hæfi að einstaklingurinn fái að hvíla, getur því verið mjög mikilvægt fyrir fólk og það er mikilvægt í úrvinnslu sorgar.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, 1. flutningsmaður þessa máls, minntist á nýsköpunarverkefni í tengslum við dauðann og greftrun og minningargarða og slíkt. Það er spennandi vettvangur. Það er vettvangur sem við forðumst í allt of miklum mæli að leita á, horfa á og ræða jafnvel í samhengi nýsköpunar. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir minntist á nokkur verkefni í ræðu sinni, þar á meðal Tré lífsins – minningargarða o.fl. Það er spennandi verkefni. Dauðinn þarf ekki að vera niðurdrepandi. Hann er óumflýjanleg staðreynd lífsins.

Hér rétt á eftir ræðum við áhugavert frumvarp um aldursfordóma, sem ég hlakka til að hlýða á umræður um og jafnvel taka þátt í. Þetta tengist allt saman. Við ræðum hér oft og tíðum um upphaf lífsins og miðbik þess og á eftir ætlum við að ræða um seinni ár lífsins. Nú erum við að ræða um dauðann. Það er mikilvægt, jákvætt og gott að við getum leitað á slíkan umræðuvettvang í opnu samtali hvert við annað sem samfélag með óskir og virðingu að leiðarljósi, óskir þeirra sem lifandi eru og óskir látinna ættingja.

Þetta mál gengur til hv. mennta- og menningarmálanefndar og ég hlakka til að sjá hvort þetta mál fær framgang innan þingsins.