151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

271. mál
[20:57]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að enda á að þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni um þetta mál. Mér finnst það einmitt sýna að þetta er, eins og hér hefur verið komið inn á, þverpólitískt mál. Þetta er ekki hápólitískt efni en þetta er eitthvað sem skiptir okkur öll máli. Þess vegna langar mig að hvetja hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að taka málið strax fyrir á fundi sínum og senda til umsagnar svo að hátíðarnar nýtist til þess. Ég ítreka að þó að það fari lítið fyrir þessu máli þá er það eitthvað sem kostar ekkert. Ef eitthvað er myndu sparast fjármunir hjá ríkinu við að auka þetta frelsi. Mig langar því að hvetja hv. allsherjar- og menntamálanefnd áfram í þessari vinnu.

Ég þakka hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Áðan var farið að tala um nýsköpun. Svo talaði hv. þingmaður líka um að Ísland hefði aðdráttarafl út yfir gröf og dauða. Það er svo sannarlega þannig og við vitum af því að þrátt fyrir að það samræmist ekki reglum hefur fólk komið hingað, örugglega í góðri trú, með ösku látinna ættingja og dreift henni. Þegar rætt var um að þetta gæti verið fjáröflunarmöguleiki fyrir björgunarsveitir varð mér nú reyndar hugsað til tímamótaverksins Lovestar eftir Andra Snæ Magnason því að talandi um nýsköpun er auðvitað ýmislegt hægt að gera í þessum efnum.

En að öllu gamni slepptu vildi ég bara þakka hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Ég ítreka að ég held að við ættum að geta gert mjög vel hér og af fullri virðingu við hinn látna. Ég minni hv. þingmenn og hv. allsherjar- og menntamálanefnd á að það er einhvers virði að geta virt hinstu ósk hins látna. Og ég vil leggja til að við reynum að gera það hið fyrsta.