151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kosningalög.

339. mál
[22:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Eins og hv. þingmaður hefur kannski tekið eftir liggur fyrir breytingartillaga samhliða frumvarpinu nú í 1. umr. Þar er um að ræða þrjár breytingar en þó aðallega eina breytingu, þ.e. varðandi kosningarréttinn og hvernig hann helst eftir að viðkomandi hefur flutt lögheimili frá Íslandi. Fyrirkomulagið sem fyrirfinnst í því frumvarpi sem hér um ræðir er skerðing á núverandi rétti. Núverandi réttur er í rauninni á þann veg að hægt er að viðhalda honum út alla ævina á meðan tillagan í þessu frumvarpi er 16 ár að hámarki. Mig langar í rauninni til að hvetja þingið til að draga ekki úr þessum rétti. Það er meira að segja auðveldara að breyta núverandi fyrirkomulagi til þeirrar einföldunar sem talað er um í frumvarpinu með því að hætta einfaldlega við að kæra inn á kjörskrá, eins og það er kallað, — það þarf ekki í rauninni — heldur að halda bara atkvæðisréttinum eins og hann er án þess að fólk þurfi að kæra sig inn á kjörskrá í hvert skipti. Það ætti að vera mun einfaldara í framkvæmd og viðhalda þeim réttindum sem eru til staðar nú þegar. Mér finnst alla vega mikil afturför ef við drögum úr kosningarréttinum í nýjum kosningalögum.