151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur .

374. mál
[16:11]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Förum aðeins yfir stöðuna. Ríkasta 1% á Íslandi aflar 35% allra fjármagnstekna í landinu. Stækkum aðeins hópinn. Tökum 5% ríkustu Íslendingana, þau afla 50% allra fjármagnstekna í landinu. 5% eiga yfir 40% af öllum hreinum eignum í landinu. Þetta er þröngur hópur sem á yfir 2.000 milljarða, tvenn íslensk fjárlög. Frá árinu 2010 hafa bæst við eignasafn þessa hóps yfir 1.000 milljarðar, eitt stykki íslensk fjárlög. Og síðan þessi ríkisstjórn tók við, árið 2018, hafa ríkustu 5% bætt við sig 135 milljörðum. Það eru tveir Landspítalar. Við sjáum alveg hvert stefnir. Eignaójöfnuður er mikill á Íslandi, meiri en tekjuójöfnuðurinn, (Forseti hringir.) og fjármagnstekjuskattskerfið þarf að taka mið af því. Við erum að fara í ranga átt hvað þetta varðar og tölurnar sýna það, herra forseti.