151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[17:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu, mjög trú sínum málflutningi þegar kemur að landbúnaðarmálum. Það var samt eitt sem kveikti í mér að koma hingað upp og það er ótrúlegt dekur alltaf við Evrópusambandið og dekur við allt það sem útlent er þegar kemur að íslenskum hagsmunum. Það er ótrúlegt að hlusta á hv. þingmenn, hvort sem þeir eru í Viðreisn eða í Sjálfstæðisflokknum, halda því fram hér að ekki sé hægt, að við getum ekki einu sinni nýtt okkur þá samninga sem við höfum skrifað undir. Hvernig má það vera að hv. þingmenn eru hræddir við að nýta t.d. 112. gr. EES-samningsins? Hvað segir sú ágæta grein? Hún segir að við ákveðnar aðstæður sé hægt að grípa til viðeigandi öryggisráðstafana í samræmi við 113. gr. samningsins ef alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar koma upp. Hvað annað en það er þetta sem við erum að glíma við í dag? Menn eru skjálfandi á beinunum út af Evrópusambandinu þótt það standi í samningnum að við getum bara vísað í hann. Ég veit ekki hvort Norðmenn hafi verið að vísa í þennan samning þegar þeir gripu til aðgerða til að vernda landbúnað sinn núna á tímum kórónuveirufaraldursins. Þeir höfðu kjark til þess. Evrópusambandið greip til aðgerða til að vernda sinn landbúnað. Svo þorum við því ekki. Við erum ekki einu sinni að virða samninginn, nýta okkur samninginn sem við skrifuðum undir. Auðvitað eigum við að grípa til aðgerða núna, aðgerða sem vernda og styrkja um leið okkar landbúnað alveg eins og allir aðrir að gera. Þess vegna er tillaga Miðflokksins lögð fram. Þess vegna er hún sett fram með þessum hætti en það er meira að segja settur varnagli í hana um að þetta sé endurskoðað með ákveðnu fyrirkomulagi.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði ekki að spyrja um þetta en hv. þingmaður kveikti náttúrlega í mér, en síðan kem ég og spyr út í breytingartillögurnar sem hv. þingmaður hefur lagt fram.