151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

atvinnuleysistryggingar.

300. mál
[11:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Álag á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga hefur aukist mikið í atvinnukreppunni. Í Reykjanesbæ er atvinnuleysi nú að nálgast 25%. Þar var erfitt atvinnuástand þegar atvinnukreppa skall á með Covid-19 faraldrinum og í febrúar á þessu ári var þá þegar 10% atvinnuleysi. Álag á fjárhagsaðstoð Reykjanesbæjar hefur aukist um 64% á árinu og ef tímabil atvinnuleysisbóta verður ekki lengt mun atvinnulausum fjölga enn á næsta ári. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna er helmingi lægri en grunnatvinnuleysisbætur. Sárafátækt mun aukast enn ef bótatímabilið verður ekki lengt. Stjórnarliðar voru búnir að fella tillögu Samfylkingarinnar um að lengja tímabilið um 12 mánuði. Hér er gerð tillaga um sex mánuði, sem er m.a. samkvæmt ákalli bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og ASÍ. (Forseti hringir.) Ég trúi því ekki, herra forseti, að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætli enn að fella tillögur sem gagnast fólkinu sem stendur allra verst á Íslandi í atvinnukreppu. (Forseti hringir.) Ég er að fara að gráta, þetta er svo hræðileg mannvonska.