151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

atvinnuleysistryggingar.

300. mál
[11:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Hér greiðum við atkvæði um mjög gott mál þar sem verið er að lengja tekjutengda tímabilið hjá atvinnulausum, sem skiptir miklu máli, upp í sex mánuði. Verið er að hækka greiðslur með hverju barni þess fólks sem er á atvinnuleysisbótum og við erum að opna hlutabótaleiðina fyrir almannaheillafélögum og grípa þannig fleiri inn í þá leið. Þetta er mjög gott mál og mér blöskrar orðfæri ýmissa þingmanna sem tala um mannvonsku. Mér finnst ekki við hæfi að tala um slíkt gagnvart öðrum þingmönnum í þessu máli sem eru að leggja allt sitt af mörkum til þess að styrkja fólk með ýmsum góðum framfaramálum sem hafa verið lögð fram, þar á meðal þessu, til að bæta hag þeirra verst settu við þessar aðstæður. (Gripið fram í: Það er rangt.) Hér á þingi hefur verið (Forseti hringir.) afgreiddur fjöldi aðgerða sem eru til mikilla bóta fyrir þá veikustu í samfélaginu (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) og það ber að virða.