151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[11:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Við styðjum breytingartillögu hv. þingmanns sem talaði hér á undan sem undirstrikar að til eru lausnir við vandamálum aðrar en þær sem eru lagðar til af ríkisstjórninni og það er enn fremur alveg tilefni til að ræða fleiri. Það gleður mig að þetta mál fari til nefndar milli umræðna. Ég er reyndar ekki sérstaklega bjartsýnn á að mikil umskipti verði meðal stjórnarþingmanna en auðvitað er ágætt að vona hið besta.

Þessi breytingartillaga undirstrikar það sem við höfum verið að segja aftur og aftur, eins og það þurfi einhvern veginn að sanna af sér einhverja sök, að það er fullur vilji allra í þessum þingsal til að koma til móts við vanda matvælaframleiðenda, bænda og landbúnaðarins. Mig langar svo mikið að orðræðu um eitthvað annað linni. Þetta var nefnt hérna áðan, þá kom hv. stjórnarþingmaður Lilja Rafney Magnúsdóttir og endurtók þvæluna.

Virðulegi forseti. Við þurfum ekki að standa saman í lausnunum vegna þess að við erum ekki sammála. (Forseti hringir.) En við skulum alla vega hafa á hreinu hvar þingheimur stendur gagnvart því að viðurkenna vandann sjálfan. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)