151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:35]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég bað eiginlega um andsvarið frekar snemma í ræðu hv. þingmanns því að ég er ekki alveg viss um að ég skilji afstöðu hennar til fjármálaáætlunar sem við ræðum hér. Mér heyrðist þó undir ræðu hv. þingmanns að hún teldi nú frekar að verið væri að gera það sem þyrfti að gera við þessar aðstæður. En ég les það nefnilega út úr nefndarálitinu að óvíst sé hvort hægt væri að gera eitthvað til að draga úr skuldasöfnun næstu mánuði og að einnig þurfi að koma tilfærslukerfunum til varnar, sem við erum að gera.

Svo segir hv. þingmaður að við þyrftum í gegnum þetta, eins og ég skildi hv. þingmann, að beita af fullum þunga því sem kallaðir eru sjálfvirkir sveiflujafnarar. Svo talar hv. þingmaður einnig um að nú séu aðstæður sem skapi hvata fyrir ríkisstjórnina til að fresta erfiðum aðgerðum þangað til eftir kosningar og að fjármálaáætlunin beri það með sér að uppsöfnuðum Covid-vanda þessarar ríkisstjórnar — ég vil nú ekki kenna ríkisstjórninni um Covid-vandann — verði kastað í fangið á þeirri næstu.

Mig langar bara að biðja hv. þingmann að útskýra þetta aðeins fyrir mér því að mér finnst ég samt lesa það út úr textanum að hv. þingmaður telji að það þurfi einmitt að grípa til þeirra efnahagslegu aðgerða sem við erum að gera núna. Svo vill það bara þannig til (Forseti hringir.) að við erum stödd þar í kjörtímabilinu að því er að ljúka. (Forseti hringir.) Gæti hv. þingmaður útskýrt þetta aðeins nánar fyrir mér?