151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Mig langar rétt að nefna örstutt tvö málefni, loftslagsmál og mannréttindi. Varðandi loftslagsmálin gleðst ég eðlilega, eins og að ég held við öll, yfir því að fyrr í mánuðinum hafi forsætisráðherra tilkynnt að Ísland hygðist vera í samfloti með öðrum Evrópuríkjum varðandi það að ná 55% lækkun á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030. Ég hefði að vísu viljað sjá þessa tölu hærri en Evrópusambandið var víst að miðla málum á milli framsæknari afla og mestu kolafíkla í Evrópu þannig að 55% var sameiginlega niðurstaðan og væri óskandi að Ísland færi eitthvað fram úr þeirri tölu.

En ég nefni það vegna þess að miðað við allar þær stefnur sem það hefur áhrif á er ofboðslega seint í rassinn gripið að gera þetta í desember 2020. Það þýðir að sú fjármálaáætlun sem við erum með í höndunum miðar við markmið um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda en ekki 55%, sem þýðir að þau plön sem eru gerð fyrir næsta ár eru fjármögnuð miðað við 40% samdrátt. Þau plön sem eru gerð fyrir næstu fimm ár í fjármálaáætlun miða við gömlu 40 prósentin. Það er alveg eðlilegt að hlutirnir breytist og metnaður aukist. Raunar er áskilnaður um það í Parísarsáttmálanum að metnaður þurfi að aukast reglulega en ríkisstjórnin hefði átt að koma með þessa uppfærðu tölu í febrúar á þessu ári. Í viðauka við Parísarsáttmálann segir að 9–12 mánuðum fyrir fimmta hvern aðildarríkjafund skuli skila inn uppfærðum markmiðum hvers aðildarríkis og sá tími rann út í febrúar á þessu ári, fyrir Covid, fyrir allt sem af því hefur leitt, þannig að það var fullkomlega sjálfsögð og eðlileg krafa að stjórnvöld hefðu kynnt markmið sín um 55% samdrátt í losun í febrúar. Þar með, herra forseti, hefði verið hægt að skipuleggja fjárlagafrumvarp og fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár út frá þeim markmiðum en ekki gömlum, úreltum markmiðum. Fyrir vikið erum við hér með fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár sem er strax orðin úrelt þegar kemur að loftslagsmálum og það verður þá ekki fyrr en árið 2022 sem fjárlög munu bera þess merki að hér hafi verið aukinn metnaður á árinu 2020. Þetta má kalla glatað ár í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Varðandi mannréttindin vil ég gera grein fyrir breytingartillögu sem ég hef lagt fram við fjármálaáætlun. Á þeim skala sem talað er um í fjármálaáætlun eru það nú býsna litlar breytingar. Ég legg til að 60 milljónir á ári bætist við málefnasvið tíu, um réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýslu dómstóla. Mér finnst mjög mikilvægt að þingið taki afstöðu til þessarar tillögu vegna þess að í síðustu viku birtist rautt flagg frá dómsmálaráðherra sem getur haft miklar afleiðingar. Það flagg var þegar niðurstöður voru birtar á samráðsgátt stjórnvalda þess efnis að fallið hefði verið frá áformum um frumvarp um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun þar sem ekki hafi verið gert ráð fyrir stofnuninni í fjármálaáætlun.

Það er kannski rétt að rekja í örstuttu máli forsöguna og tilefnið. Það hefur nefnilega lengi verið þörf á að koma á fót sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun sem uppfylli svokölluð Parísarviðmið, sem eru viðmiðunarreglur Sameinuðu þjóðanna um það hvernig svona stofnanir starfa til að þær geti almennilega tryggt almenningi þá aðstoð sem þarf til þess að mannréttindi séu tryggð í hverju ríki. Þetta atriði hefur verið til umfjöllunar í allsherjarúttektum Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála hér á landi. Þær úttektir hafa farið fram tvisvar, annars vegar árin 2011–2012 og hins vegar árin 2016–2017 og síðast þegar svona úttekt fór fram var í skýrslu til þingsins og í svörum til Sameinuðu þjóðanna sagt að innanríkisráðuneytið þá hefði undirbúið frumvarp og væri að vinna að því að setja á laggirnar þessa stofnun. Síðan kom babb í bátinn eftir kosningar 2017. Þá virðist málið hafa lagst í híði fyrri hluta kjörtímabilsins. Mögulega hefur ekki verið áhugi hjá þeim ráðherra sem stýrði ráðuneytinu þau tvö ár á því að leggja málið fram en rétt um það leyti sem lyklaskipti urðu í dómsmálaráðuneytinu 2019 voru þessi áform um frumvarp um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun lögð fram í samráðsgáttina með það að markmiði að leggja fram á Alþingi slíkt frumvarp haustið 2019.

Það er ekki bara vegna þess að Ísland kemur illa út úr úttektum Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttinda sem er nauðsynlegt að koma stofnun af þessu tagi á fót. Þetta er líka eitt af því sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks krefur íslenska ríkið um að gera. Það er skylda á íslenska ríkinu að til staðar sé hér á landi sjálfstæð stofnun til að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks, samanber 2. mgr. 33. gr. samningsins um réttindi fatlaðs fólks.

Síðan er kannski rétt að nefna þriðja atriðið sem kallar sérstaklega á það núna að svona stofnun sé til staðar og sé sem öflugust. Það er náttúrlega sjaldan meiri hætta á því að þrengt sé að réttindum fólks en einmitt á krepputímum, sem við kunnum að vera að ganga í gegnum á næstu árum, og þess vegna ríður á að koma stofnuninni á laggirnar. Næsta úttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttinda hér á landi á að fara fram árin 2021–2022 og þá væri nú gott að Ísland gæti sagt að hér væri búið að samþykkja frumvarp og jafnvel að hér væri búið að stofna sjálfstæða mannréttindastofnun. Það sem væri hins vegar ekki í lagi væri að dómsmálaráðherra vísaði til þess að vegna þess að skort hafi heimild í fjárlögum og fjármálaáætlun hafi hún einfaldlega ekki getað stofnað mannréttindastofnun. Eðlilega hefði ráðherra átt að gera tillögu um það í sínum köflum í fjármálaáætlun og fjárlögum þannig að hægt væri að setja þessa stofnun á laggirnar en gerði það ekki. Þess vegna legg ég til að þingið bæti við þeim 60 milljónum sem ráðuneytið áætlaði að þyrfti til rekstursins vegna þess að ef ráðherrann ætlar ekki að tryggja fjármuni til þess að standa vörð um grundvallarmannréttindi fólks í landinu getur þingið sem fjárveitingavald í það minnsta gert það.