151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:36]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Umræða um nýsköpun af hálfu hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar er með þeim hætti að ég vildi bara koma hingað upp til að leiðrétta hana. Það þarf auðvitað enga þjóðhagsstofnun til að sjá þá innspýtingu sem þessi ríkisstjórn hefur sett í rannsóknir og nýsköpun. Við höfum beitt okkur fyrir því og það hefur verið mikill stuðningur við þá nálgun og þær áherslur hér í þinginu. Áherslan er augljós, stefnan er skýr og metnaðurinn er mikill og þessi fjárfesting er skynsamleg. Við erum að veðja á hugvit einstaklingsins en sem betur fer er það líka þannig að nýsköpun stendur ekki og fellur með milljörðunum sem ríkið setur í hana heldur margfaldast sá stuðningur úti í samfélaginu. En það er ekki hægt að halda því fram að þessi ríkisstjórn sé að skera niður þegar kemur að rannsóknum og nýsköpun.