151. löggjafarþing — 41. fundur,  17. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[21:34]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég fæ þetta ekki til að ganga upp, því miður. Það kemur skýrt fram í nefndarálitinu að það sé eingöngu hægt að horfa til síðustu sex mánaðanna hvort það sé virkt nálgunarbann í gangi á þeim tíma, á þessum síðustu sex mánuðum, vegna þess að það á að kanna hvort það verði nálgunarbann á þeim tíma. Þess vegna muni ekki koma til þessa fyrr en alveg í lokin. Og hvernig hv. þingmaður rökstyður að það verði samfleytt fæðingarorlof þegar annað foreldrið, sem sætir svo grófu ofbeldi af hálfu hins foreldrisins að nálgunarbanni er beitt og mögulega staðfest af dómstólum, á að haga sínum málum þegar fæðingarorlofinu lýkur við sex mánaða aldurs barnsins. Þá fer barnið í ungbarnaleikskóla við sex mánaða aldur af því það barn er ekki verndað af löggjafanum á Íslandi gegn svona vitleysu.

Þarna er barn sem hefur þolað að annað foreldrið hefur verið beitt grófu ofbeldi þannig að hitt foreldrið er dæmt í nálgunarbann. Barnið skal sent í pössun utan heimilis en foreldrið sem mátti þola ofbeldið skal svo 12 mánuðum síðar fara aftur af vinnumarkaði til að ljúka sínum sex mánuðum ef svo heppilega vill til að fólk telji að það sé heppilegt þá, vegna þess að hitt foreldrið er mögulega ekki enn þá í standi til þess að sinna barninu. Þetta er slík vitleysa að ég er algjörlega rasandi yfir þessu. (HHG: Heyr, heyr.)