151. löggjafarþing — 41. fundur,  17. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[21:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég átta mig ekki alveg á því hvort ég sé að hlusta á stefnubreytingu Vinstri grænna í jafnréttismálum. Það væri gott að fá það á hreint. Það er staðreynd að ríkisstjórnarflokkarnir, með stuðningi Miðflokksins, eru að leggja hér fram tillögu og við vitum alveg hvernig þetta verður. Við vitum það af reynslunni að það eru mennirnir sem taka þrjá mánuði og konurnar sex mánuði. Í stað þess að við ræðum hér það sem hefði verið draumaskiptingin, sex, sex, þá erum við að ræða tillögu frá VG m.a. um það að konur verði heima sjö og hálfan mánuð og karlar fjóra og hálfan mánuð. Það er staðreynd.

Af hverju litum við ekki til reynslu Norðmanna sem breyttu m.a. árið 2014 og styttu óframseljanlegan rétt feðra um fjórar vikur í því skyni að koma til móts við frelsi? Ég vil minna fólk á, mér finnst sérstaklega þurfa að minna Vinstri græna á það, að frelsi er ekki þar sem er ójafnrétti. Frelsi næst eingöngu þar sem er jafnrétti. Hvað gerðu Norðmenn? Reynsla þeirra var vond. Það dró úr töku feðra og í ljósi þeirrar reynslu ákváðu þeir að endurreisa réttinn, út af vondri reynslu, vondum áhrifum á jafnréttismálin.

Þess vegna spyr ég ítrekað: Af hverju eru Vinstri græn að láta hafa sig út í það að breyta þessu? Eins og ég sagði kemur úthaldsleysi Sjálfstæðisflokksins í jafnréttismálum ekki á óvart. En þessi kúvending, ég þarf að fá betri útskýringu á því af hverju Vinstri græn eru að fara þessa leið. Eina útskýringin í mínum huga er einfaldlega að þrýstingur af hálfu Sjálfstæðisflokksins og annarra íhaldsafla hér hafi verið það mikill að ekki hafi annað verið hægt en að verða við því eða þá að láta ríkisstjórnina hanga saman það sem eftir lifir kjörtímabils. (Forseti hringir.) Eða þá einfaldlega að Vinstri græn eru búin að ákveða að kúvenda stefnu sinni í jafnréttismálum. Það er bara þetta, kúvending VG í jafnréttismálum (Forseti hringir.) eða að það þurfti að friðþægja íhaldsöfl á þingi.