151. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[01:05]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um stórt og mikilvægt mál, fæðingar- og foreldraorlof. Það hefur verið mjög ánægjulegt og gaman að ræða þetta mál og vinna með það í velferðarnefnd og í þinginu, raunar alveg síðan fyrir ári þegar sú vegferð hófst að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði, sem allir eru sammála um að sé mikið framfaraskref. Það eru mörg önnur framfaraskref í þessu máli og miklar réttarbætur. Því hefur verið ánægjulegt að taka á því að auka rétt þeirra sem búa lengra frá fæðingarstað og takast á við ýmis mál varðandi það þegar foreldri er eitt með barnið. En umræðan hefur snúist mest um skiptinguna, hvernig skipta eigi mánuðunum á milli foreldra.

Mikið er fjallað um fagfólk, faghópa, undirbúning frumvarpsins og rannsóknir, en í þeirri umræðu er einhvern veginn alltaf ákveðið að láta þær rannsóknir bara fjalla um skiptinguna eins og hún sé stóri þátturinn í málinu. Ég tel að við öll sem komum að þessu máli séum sammála um að viljum jafnrétti í fjölskyldunni. Við viljum aukið jafnrétti og við viljum gera það sem við getum til að stuðla að því. Enginn sem kom fyrir nefndina talaði gegn því, sama fyrir hvaða skiptingu hann talaði, að sameiginleg ábyrgð foreldra, umsjá foreldra með barni og samvistir barns við báða foreldra í frumbernsku hafi mikil áhrif og jákvæð áhrif og skipti börnin miklu máli. Um það var ekki deilt heldur var í öllum þessum rannsóknum sagt að jöfn skipting væri mikilvæg til að ná þessum árangri. Samt kappkosta allir hér að tala um þann góða árangur sem við höfum þegar náð og hvernig fæðingarorlofið hefur aukið jafnrétti og breytt þessu síðustu 20 árin.

Ég hef viljað benda á að á þeim tíma sem þessi mikli árangur hefur náðst hefur skiptingin verið, ef við förum í leikkerfafræðina, þrír, þrír, þrír, sem sagt þrír mánuðir fyrir hvort foreldri og þrír sem foreldrar skipta á milli sín. Það hefur ýmislegt annað gerst á þessu ferðalagi og margt annað hefur breyst, t.d. á vinnumarkaði, í samfélaginu og svo mætti lengi telja. En það hefur sýnt sig að sveiflurnar fara langmest eftir því hvort þak sé á hámarksgreiðslunum og hverjar lágmarksgreiðslurnar eru. Það hefur strax áhrif, bæði á það hvernig foreldrar nýta mánuðina sína og hvort annað foreldrið tekur alla sameiginlegu mánuðina eða ekki. Á meðan ekkert þak var nýtti mikill meiri hluti feðra sameiginlega réttinn en um leið og þak var sett og hámarksgreiðslur urðu frekar lágar húrraði það alveg niður í, ég man ekki alveg tölurnar en það var alla vega niður í 70%. Svo hefur þetta verið að rísa aftur eftir því sem þakið hefur hækkað. Ef við ætlum raunverulega að ná þeim árangri að foreldrar skipti með sér ábyrgðinni þarf að hækka þakið, eins og Sjálfstæðisflokkurinn talar oft fyrir. Miðað við þetta skilar það bestum árangri. Það þarf að finna þennan milliveg, hækka þakið og reyna svo að fjölga mánuðunum. Núna höfum við stigið það góða skref að fjölga mánuðunum og þakið hefur verið hækkað jafnt og þétt, en það þarf að gera meira. Það hversu hátt lágmarkið er hefur líka áhrif og meiri á það hvernig konur nýta orlofið, eins og kom fram í nefndinni.

Við erum sammála um rannsóknirnar, við erum sammála um markmiðin og mér heyrist allir hafa verið sammála um þann árangur sem náðst hefur hingað til. Ég held að við þurfum að vera heiðarleg með að fleiri atriði en skiptingin skipta máli við að ná þeim markmiðum sem allir eru sammála um að ná. Staðreyndirnar segja okkur líka fleira, þ.e. að 75% mæðra sem ganga með barn og eignast það kjósa að dreifa rétti sínum til að lengja hann, taka þann rétt sem þær hafa til fæðingarorlofs og dreifa honum yfir fleiri mánuði til að hafa lengri tíma með barninu sínu heima. Þær kjósa það og það eigum við að virða. Það á alls ekki að fordæma það. Þetta er bara val þeirra og þær hafa rétt á því. Því minni rétt sem þær hafa, færri mánuði, þýðir náttúrlega að á 12 mánuðum, sem er algengasta tímabilið, eru þær á hálfum launum, en eftir því sem mánuðunum fjölgar minnkar launaskerðingin sem þær verða fyrir í fæðingarorlofinu. Launamunur kynjanna á vinnumarkaði, eins og hann er í dag, er einmitt hvað helst skýrður með fæðingarorlofstöku. Við þurfum líka að skoða þetta út frá jafnréttisvinklinum.

Svo er staðan sú að foreldrar sem ganga ekki með barnið eru núna að nýta yfir 90% af rétti sínum að meðaltali. Í ljós kemur að þeir sem búa ekki með börnunum fullnýta rétt sinn, taka meira orlof, það sýna tölurnar. Þar sem foreldrar eru í sambúð eru meiri líkur á að réttur foreldris sem gekk ekki með barnið sé ekki fullnýttur og þar tapist mánuðir. Það fyrirkomulag að foreldrar búi saman og ali saman upp barn sitt er á yfir 50% heimila. Samkvæmt þessum niðurstöðum eru þá mun meiri líkur á því að barnið fái ekki alla 12 mánuðina, að þeir fari forgörðum. Það finnst mér alveg gríðarlega mikilvægt að hugsa um. Ólíklegra er að börn foreldra sem búa saman fái alla umönnunina. Þarna komum við aftur að tekjunum og hvernig heimilið er samsett og aðstæður misjafnar. Þetta eru svo misjafnar aðstæður og því er svo mikilvægt að hafa svigrúm fyrir fjölskyldu sem er komin með þá ábyrgð að ala upp barn, að henni sé treyst til að sýna þá ábyrgð að skipta orlofinu rétt, eins og hentar barninu best. Ef foreldrar eignast fleiri en eitt barn getur verið misjafnt á milli barna hvort foreldrið tekur lengra fæðingarorlofi í það og það skipti. Það fer bara allt eftir aðstæðum hverju sinni. Ég held að ástæðan fyrir þessu sé í flestum tilfellum fjárhagsleg. Til að foreldrar geti nýtt allan réttinn, þau sem eru á meðaltekjum eða lágum launum, þarf tekjuhærra foreldrið að vera á aðeins 80% launum í allt að fjóra og hálfan mánuð, eins og það er núna. Það getur skapað togstreitu, áhyggjur og annað slíkt á heimilinu. Það þarf að taka það allt saman inn í heildarmyndina. Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir hagsmuni barnsins og fyrir fjölskyldurnar að hafa svigrúm og sveigjanleika til að geta aðlagast sem best aðstæðum hverju sinni. Þá kem ég aftur inn á að foreldrar þurfa frelsi til að standa undir þeirri ábyrgð. Það verður ekki gert nema þeim sé treyst til þess. Þeir sem fá traust sýna ábyrgð.

Þetta er skýr vilji unga fólksins. Við höfum oft talað um það í þessum sal, og stjórnmálamenn hafa almennt talað mikið um það, alla vega á tyllidögum, hve mikilvægt sé að hlusta á unga fólkið, á komandi kynslóðir, á fólkið sem er á vettvangi. Þetta fólk hefur sent inn umsagnir. Það komu um 253 umsagnir úr samráðsgátt stjórnvalda, mikið til frá einstaklingum sem eru að eignast börn eða hafa eignast börn og nýta sér fæðingarorlofið. Þetta er unga fólkið. Nú er nýkomin könnun frá Geðverndarfélagi Íslands, hún var birt núna í desember, sem sýnir að 63% vilja hafa aukinn sveigjanleika, telja það mikilvægt. Við megum ekki hafa sjónarmið komandi kynslóðar, þeirrar kynslóðar sem er að eignast börn, bara til spari. Við eigum að hlusta á hana núna eins og alltaf. Við þurfum líka að taka mið af því og geta sagt að hér hafi orðið kynslóðaskipti. Það eru breyttir tímar. Ég er ekki að segja að fullur sigur sé unninn, ég hef aldrei sagt það, en það eru samt komin önnur gildi. Skoðanir hafa breyst og við verðum að sýna ungu fólki traust og hlusta á vilja þess. Það er bara alveg gríðarlega mikilvægt. Það er mikilvægt að treysta unga fólkinu til að taka ákvarðanir. Það þarf ekki alltaf lög, lög, lög.

Jafnréttisbaráttan hefur náð ýmsu fram og það eru oft menningarbreytingar og annað slíkt, ég er ekki að segja að það sé útilokað. Þess vegna hef ég ekki talað fyrir tólf, núll möguleikanum, sem væri náttúrlega besta staðan ef við værum komin þangað að við gætum haft það þannig. Því hef ég talað fyrir fjórir, fjórir, fjórir skiptingunni. Hún er af sama meiði og sú regla sem gilt hefur hér að mestu frá árinu 2000, þ.e. þrír, þrír, þrír. Við höfum náð árangri þar og því tala ég fyrir þessu. En ég fagna því þó að eftir þá umræðu fengum við fullt af gestum, m.a. landlæknisembættið, sem tók undir fjórir, fjórir, fjórir tillöguna, Ljósmæðrafélag Íslands, sem benti á að hægt væri að skoða að hafa jafna skiptingu, sex, sex, og leyfa framsal á tveimur mánuðum, Geðverndarfélag Íslands, sem talaði mikið fyrir þessu, og fleiri. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu í hv. velferðarnefnd að fara bil beggja og hafa það þá sex vikur í staðinn fyrir fjórar, eins og frumvarpið leggur til. Það hefðu verið átta vikur samkvæmt sex, sex, tveir, framseljanlegu leiðinni, eða fjórir, fjórir, fjórir. Þetta er skref fram á við. Ég skrifaði einmitt undir nefndarálitið með fyrirvara út af skiptingunni, eins og ég hef farið yfir hér. Fyrirvari minn er út af henni.

Ég tel líka mikilvægt að í breytingartillögum meiri hluta velferðarnefndar er bráðabirgðaákvæði um að fylgjast eigi mjög grannt með þróuninni og endurskoða, eða alla vega fylgjast með, hvernig þetta hefur gengið innan næstu tveggja ára þannig að þá sé hægt að bregðast við ef þetta þróast ekki í rétta átt. Þá gefst okkur líka tækifæri til að ræða þessi mál áfram og þá er hægt að tala áfram fyrir auknu frelsi í þessum málum, eins og ég mun gera á meðan ég er hér á Alþingi. Ég mun tala fyrir auknu frelsi í þessum málum, tala fyrir auknu trausti til ungs fólks, tala fyrir valfrelsi fjölskyldunnar og tala fyrir hagsmunum barnsins. Það er bara gríðarlega mikilvægt að barnið fái sem besta umönnun í sem bestu umhverfi og að hagur fjölskyldunnar sé tryggður á fyrstu mánuðum barnsins og upp úr.

Við megum heldur ekki tala eins og þetta sé eina lausnin. Við þurfum að vera vakandi á fleiri stöðum. Þetta er vinnumarkaðsúrræði, ég tek alveg undir það, en það þýðir ekki að ekki megi horfa á hagsmuni barnsins og hafa þá ríkari en jafnrétti á vinnumarkaði. Ég er samt ekki að halda því fram að hægt sé að velja á milli heldur að þetta fari saman. Miðað við aðstæður í dag er hægt að ná jafnrétti fram þó að það sé svigrúm fyrir fjölskylduna. Það er aðallega vinnumarkaðurinn sem talar fyrir þessu og ég vil þá líka sjá hann sýna frumkvæði og ábyrgð á fleiri stöðum, tryggja að báðir foreldrar séu hvattir til að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs og að þeir séu aðstoðaðir við það, að engir fordómar séu gagnvart því. Þetta þarf líka að fylgja börnunum eftir fæðingarorlofið og þá þarf fjölskyldustefna fyrirtækja, bæði opinberra og hjá einkageiranum, að vera góð. Tengslamyndun er ekki bara í byrjun, en hún er mikilvæg þá og gefur tóninn.

Við þurfum að vinna í þessu á öllum stigum. Foreldrajafnrétti þarf líka að vera á fleiri sviðum eins og er oft komið inn á. Við þurfum að tryggja það, bara eins og í forræðismálum og umgengnismálum og fleiri málum. Það þarf víða að takast á í þessu. Við megum ekki halda að þetta sé eina málið eða tala þannig um það eins og mér finnst hafa verið. Fæðingarorlofið hefur vissulega mikil áhrif en þetta er ekki eina tækið okkar og mánuðirnir eru ekki heldur eina tækið, heldur eru efnahagslegu þættirnir mjög mikilvægir líka. Mér finnst svolítið miður hvernig umræðan og rannsóknirnar og orð fagfólksins hafa verið heimfærð á þessa mánuði. Ég er ekki á því. Ég segi að lokum að við eigum sýna traust og gefa ungu fjölskyldufólki frelsi. Það mun þá endurgjalda okkur með góðri ábyrgð og betra fjölskyldulífi þar sem æska þessa lands mun gróa, vaxa vel úr grasi og skapa hér góða velferð.