151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[10:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að lesa örstutt upp úr greinargerðinni, ég ætla að reyna að gera það hratt. Það er við 4. gr. frumvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt 2. mgr. teljast félagslegar, sálfélagslegar og útlitslegar ástæður ekki til þeirra heilsufarslegu ástæðna sem réttlætt geta varanlegar breytingar á kyneinkennum barns án samþykkis þess. Útlitslegar ástæður eru sjónarmið…“ [Varaforseti hrasar á leið úr forsetastóli.]

Þetta var beinlínis … Allt í lagi?

Virðulegi forseti. Það er alltaf eitthvað að koma fyrir í pontu sem truflar mann þegar maður er að halda ræður um alvarleg málefni. Ég verð aðeins að bakka, virðulegi forseti.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Með félagslegum ástæðum er átt við viðteknar hugmyndir um hvernig kyneinkenni „eigi“ að vera til þess að falla að annaðhvort kvenkyni eða karlkyni. Sálfélagslegar ástæður fela í sér samspil sálrænna þátta við viðteknar hugmyndir og sjónarmiða um sálræna eða tilfinningalega líðan fólks.“

Tilvitnun lýkur. Og svo er mjög ítarleg umfjöllun um þetta.

Nú leiðist mér að taka fyrir mína persónulegu reynslu af lífinu hérna í þingsal vegna þess að mér finnast samtölin stundum verða svolítið leiðinleg þegar það er gert. En ég verð að gera það vegna þess að ég varð fyrir mjög miklu og alvarlegu einelti í æsku, mér var strítt mjög mikið og ég varð út undan. Ég þorði t.d.ekki að mæta í sund. Ég þorði t.d. ekki að mæta í íþróttir af ótta við það að einhver myndi á einhvern hátt niðurlægja mig með einum eða öðrum hætti. Þannig að ég þekki það vandamál af eigin reynslu. Það hefur mótað sál mína upp frá því, það er sennilega ekkert sem hefur mótað viðhorf mitt til félagslegra þátta meira en þetta, þannig að ég veit nákvæmlega hvað ég tala um og þigg engar predikanir um það. Þegar mér er sagt að það eigi að breyta fólki, manneskjunni sjálfri, til að takast á við ofbeldið sem sú manneskja verður fyrir þá finnst mér við vera að gefast upp fyrir eineltisseggjunum, fyrir ofbeldinu. Og ég er á móti því. Ég verð pínu blóðheitur vegna minnar persónulegu reynslu. Því er ekki beint að hv. þingmanni. En ég verð bara að segja að við (Forseti hringir.) eigum ekki að gefast upp fyrir eineltinu, við eigum að berjast við eineltið og stríðnina á þeim forsendum sem það ofbeldi byggir.