151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[18:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Ég ætla ekki að þakka henni þau vinsamlegu tilmæli að ég tali ekki eins og mér sýnist því að það mun ég ævinlega gera. En mig langar að benda á að þegar er verið að tala um tugi milljóna til hjálparsamtaka þá var það samtals í þennan málaflokk allan eins og hann leggur sig um 87 millj. kr. Ég er ekki búin að gleyma því að það tók ekki langan tíma að setja 80 millj. kr. í minkaeldi, að gefa minkum að borða. Það tók ekki langan tíma. Þetta er ósjálfbær búskapur. Í stað þess að taka utan um bændurna sem eru með þennan búskap og reyna að hjálpa þeim að koma sér á fætur á einhvern annan hátt þá erum við að styðja við ósjálfbæran búskap frá A til Ö. Hvað varðar framkvæmdarvald og löggjafarvald: Þótt ég sé ekki einhver lagameistari þá er það algerlega á hreinu að við á Alþingi erum löggjafinn og við erum fjárveitingavaldið. Það er ekki flóknara en það.

Hvað varðar þessar 3 milljónir sem hv. þingmaður nefnir að hafi komið frá félagsmálaráðuneytinu þá get ég bætt um betur; Reykjavíkurborg hefur líka stutt Afstöðu um 2 millj. kr. og helmingurinn af því fór í að greiða upp vangreidda húsaleigu því að þeir eru náttúrlega algerlega að berjast í bökkum við að reyna að halda úti þessari litlu skrifstofu sem þeir nánast greiða fyrir sjálfir. Þannig að þó að hv. þingmaður bendi á að eitthvað sé gott og að eitthvað sé vel gert er það ekki nóg því að staðreyndin er sú að raðirnar eru lengjast hjá fátæku fólki eftir mat og staðreyndin er sú að fátækt er að vaxa og við þurfum ekki að rífast um krónur og aura, við þurfum bara að sammælast um það að við þurfum að gera betur. Við þurfum að gera það mikið betur að það sé nóg að gert.