151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[21:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Fjárlög eru þegar allt kemur til alls tilgangur meirihlutasamstarfs, þegar meiri hluti þingsins ákveður að taka sig saman og ráða því hvernig fjárlögum er háttað. Allt annað skiptir töluvert minna máli. Meirihlutasamstarf snýst um fjárlög og þessi fjárlög bera vitni um ástandið í samfélaginu út af kófinu. Á sama tíma bera þau vott um skort á framsýni út úr ástandinu. Allar aðgerðir sem við höfum fjallað um hérna eru neyðarviðbrögð við ástandinu, misgóðar aðgerðir sem stjórnarandstaðan hefur annaðhvort stutt, setið hjá við eða gert ýmsar athugasemdir við til þess að reyna að gera betri, en það sem vantar er framsýn. Hana er ekki að finna í næsta fjárlagafrumvarpi næsta árs.