151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var mikið raunsæi hjá hv. þingmanni árið 2012 að sjá að Samfylkingin yrði ekki í næstu ríkisstjórn eins og staðan var í pólitíkinni þá. Það er ágætt að það skyldi hafa verið mælt fyrir því máli og samþykkt hér á þinginu hvernig við skyldum standa að sölu banka ef til þess kæmi. En það er nákvæmlega það sem við erum að gera. Hv. þingmaður sagði að hún hefði þurft að koma hérna 2012 til að ákveða hvernig við myndum gera það og þegar við erum að fylgja nákvæmlega þeim leiðbeiningum, ganga niður þann veg, þá segir hún: Ja, það eina sem er að er að þetta er ekki tímabært. En það eru liðin níu ár. Hv. þingmaður hefur á hverju ári, ávallt þegar málið ber á góma, flutt þá ræðu. Þetta er auðvitað málflutningur með mjög holan hljóm. Hverjir munu koma? Það liggur við að ég segi að þetta sé næstum því ekki svaravert. Ef engir fjárfestar koma verður eignarhluturinn að sjálfsögðu ekki seldur. Við höfum trú á því að á Íslandi sé nægur áhugi, nægt fjármagn, áhugi lífeyrissjóða (Forseti hringir.) og annarra fjárfesta sem hafa sýnt sig í öðrum útboðum á undanförnu ári til þess að tryggja farsæla skráningu og sölu á þessum eignarhlut.