151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:26]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svarið. Staðreyndin er reyndar sú að sá þingmaður sem hér stendur gefur lítið fyrir það, akkúrat ekki neitt, að verið sé að henda í fangið á okkur sölu á eignarhlut okkar, þegar við vitum ekki hversu mikið á að selja, hverjum á að selja eða í hvaða formi. Það er í raun ekkert sem sett er í fangið á okkur í fjárlaganefnd nema hippsum happs og sjáum bara til. Og það er ekki hægt að bera þetta saman við, eins og hæstv. ráðherra hefur gert, vel heppnað útboð hjá Icelandair, sem var jú ríkistryggt eins og við vitum, þar er ekki líku saman að jafna.

Þó að ég mæli þessu í mót og segi að þetta sé rangur tími, við séum á röngum stað á röngum tíma og allt í tómu tjóni hvað varðar þessa sölu akkúrat núna, þá hefur þessi kona hefur aldrei nokkurn tíma talað fyrir því að hækka skatta og ekki heldur Flokkur fólksins. Það á a.m.k. ekki við þegar verið er að gagnrýna þá sem hafa efasemdir um hvernig hlutirnir eru gerðir. (Forseti hringir.) Ég skora bara á hæstv. ráðherra að vera hér á eftir og ræða við okkur málin þegar við fáum tíma til þess (Forseti hringir.) að láta ljós okkar skína um það af hverju hugmyndafræði okkar er eins og hún er.